Er ástæða til þess að endurskoða svar við spurningunni Hvort eiga að vera eitt eða tvö bil á eftir punkti í texta? frá 2010? Þetta álitamál hefur valdið miklum en góðlátlegum deilum í stórum íslenskum banka á Íslandi og vil ég því kanna hvort ástæða sé til endurskoðunar til að fá fram afdráttarlausari niðurstöðu. Eldra fólk vill ekki taka "...og er almennt mælt með þeirri venju." sem reglu um þetta. Er eitt stafbil eða tvö á eftir punkti?Vísindavefurinn vill að sjálfsögðu reyna að lægja deilur manna á milli, hvort sem þær eiga sér stað í bankageiranum eða á öðrum vettvangi. Fyrir nokkru stilltum við til dæmis til friðar í viðkvæmu deilumáli hjóna vegna stafsetningar. Um það má lesa í svari við spurningunni Segir maður stemming, stemning eða stemmning? Svarið fljótt því hér stefnir í hjónaskilnað! Til þess að viðhalda góðum starfsanda í íslenska bankakerfinu er rétt að við tökum þessa spurningu nú til efnislegrar meðferðar. Það er sannarlega rétt hjá spyrjanda að svar Guðrúnar Kvaran frá árinu 2010 er ekki afdráttarlaust. Þar er einfaldlega mælt með þeirri venju að nota einfalt bil á eftir punkti. Eldra fólk sem starfar í bankageiranum tekur slíkt greinlega ekki gott og gilt, enda hefur það líklega lært að vélrita á svonefndar ritvélar sem voru algengar á seinni hluta 20. aldar. Á þær var yfirleitt kennt að setja tvö bil á eftir punkti. Í ritreglum Stafsetningarorðabókarinnar frá 2006 er ekki tekið á þessu atriði. Það er miður. Í Handbók um íslensku, frá 2011, er hins vegar fjallað beinlínis um bil á eftir punkti. Bókin er ítarlegt uppsláttar- og yfirlitsrit og í hana skrifuðu margir af helstu fræðimönnum Háskóla Íslands á sviði málvísinda. Á blaðsíðu 154 í bókinni stendur:
Á eftir punkti í lok málsgreinar er einfalt bil en ekki tvöfalt.Skýrara gæti þetta ekki verið. Vísindavefurinn veitir sitt leyfi fyrir því að ungir bankastarfsmenn fjölriti þetta svar og dreifi meðal þeirra eldri sem enn þrjóskast við og setja tvö bil á eftir punkti. Við vonum að með þessu svari færist ró yfir íslenska bankakerfið. Ensk þýðing á þessu svari er í bígerð. Gera má ráð fyrir að með henni verði hægt að róa erlenda fjármálamarkaði. Myndir:
- oz.Typewriter: World Champion Typists and Typewriting World Records. (Sótt 15.01.2015).
- So, you want to go to grad school? Nail the inquiry email | The Contemplative Mammoth. (Sótt 15.01.2015).