Þið vitið að hundar af mismunandi tegundum geta eignast afhvæmi saman en af hverju gerist það ekki á milli andategunda? Eins og stokkanda og æðarfugla?
Hér gætir talsverðs misskilnings hjá spyrjanda. Hin ólíku afbrigði hunda eru öll innan sömu tegundar, hundsins (Canis familiaris). Þrátt fyrir talsverðan útlitsmun geta öll hundakyn átt saman frjó afkvæmi. Hins vegar eru þær endur sem spyrjandi nefnir af ólíkum tegundum og meira að segja af ólíkum ættkvíslum. Stokköndin (Anas platyrhynchos) er af hinni tegundaauðugu Anas ættkvísl en æðarfugl er af ættkvíslinni Somateria. Þetta eru því talsvert ólíkar tegundir þrátt fyrir að þær tilheyri báðar ætt andfugla (Anatidae). Það eru því nánast engar líkur á því að frjóvgun geti orðið milli þessara tegunda. Hér á landi hefur stokkönd þó stundum blandast við aðrar gráendur, svo sem grafönd (Anas acuta), urtönd (Anas crecca) og gargönd (Anas strepera). Slíkir blendingar eru þó ófrjóir og geta því ekki fjölgað sér. Þetta er ólíkt því sem gerist þegar blöndun verður milli ræktunarafbrigða, til dæmis hunda. Nánar má lesa um tegundir og tegundablöndun í eftirfarandi svörum á Vísindavefnum:
- Hefur tveimur dýrategundum verið blandað saman? Ef svo er, hvaða tegundum? eftir Jón Má Halldórsson
- Geta tveir einstaklingar af ólíkum tegundum eignast afkvæmi saman? eftir MBS
- Geta úlfar og hundar eignast afkvæmi og skiptir máli hvaða hundategundir eru þar að verki? eftir Pál Hersteinsson
- Hvers vegna eru til svona mörg ólík hundakyn? Lifðu þau öll villt á sínum tíma? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaðan komu fyrstu hundarnir og hvernig eru hundar ræktaðir? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur
- Geta hundar og refir eignast saman afkvæmi? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað getið þið sagt mér um endur? eftir Jón Má Halldórsson