- Anseranatinae, en í henni er aðeins ein tegund, skjógæs (Anseranas semipalmata).
- Anserinae (gæsir/svanir) sem tekur yfir fjóra hópa andfugla, þar á meðal Dendrocygnini eða blístrur sem innihalda tvær tegundir og Anserini sem tekur yfir 4 ættkvíslir og 22 tegundir gæsa og svana.
- Anatinae sem er tegundaauðugasta undirættin með 124 tegundir, og eru þetta hinar eiginlegu endur.
- Buslendur (Anatini)
- Kafendur (Aythyini)
- Æðarfuglar (Somateriini)
- Gæsendur (Tadornini)
- Trjáendur (Carinini)
- Fiskiendur (Mergini)
- Koparendur (Oxyurini)
Þegar buslendur leita sér ætis undir yfirborði vatns, fer haus, háls og hálfur búkurinn á kaf en stélið stendur beint upp í loftið. Kafendur (Aythyini) eru ólíkar buslöndum á ýmsan hátt. Við fæðuöflun fara þær allar á kaf og synda undir yfirborðinu í stað þess að vera með stélið upp í loftið. Líkamsbyggingin er líka nokkuð frábrugðin, meðal annars er yfirborð sundfitjanna stærra og tærnar hlutfallslega lengri miðað við líkamsstærð. Fætur kafanda eru aftar á líkamanum en hjá buslöndum og eru þær því uppréttar þegar þær ganga. Ólíkt buslöndum kemur helsta fæða kafanda úr dýraríkinu, smáir fiskar og seiði. Nokkrar tegundir kafanda lifa í íslenskri náttúru, svo sem skúfönd (Aythya fuligula) og duggönd (Aythya marila) en alls eru 16 tegundir í þessum hópi.
Æðarfuglar (Somateriini) telja fjórar tegundir. Ein tegund verpir hér á landi, það er æðarfuglinn (Somateria mollissima) sem er lang algengasta andategundin í íslenskri náttúru og sú eina sem verpir meðfram ströndum landsins. Annar æðarfugl flækist reglulega hingað til lands frá Grænlandi en það er æðarkóngur (Somateria spectabilis). Hinar tvær tegundirnar eru Stellars æðarfugl (Polysticta stelleri) sem lifir í norðanverðu Kyrrahafi og gleraugnaæðurin (Somateria fischeri). Gæsendur (Tadornini) eru á mörkum anda og gæsa að mörgu leyti. Í þessum flokki eru 23 tegundir en tvær þeirra, sem eru af ættkvísl eimanda (Tachyeres), eru einu ófleygu andategundir. Þær finnast meðal annars í þéttu skóglendi Suður-Ameríku. Trjáendur (Carinini) eru frægar fyrir að eyða talsverðum tíma í trjám eins og nafnið gefur til kynna. Meðal tegunda eru brúðönd (Aix sponsa) sem lifir villt í Norður-Ameríku og mandarínöndin (Aix galericulata) sem margir telja vera fallegustu önd veraldar en hún lifir villt í austurhluta Asíu. Trjáendur hafa svipaða lifnaðarhætti og buslendur og hafa sífellt fleiri fuglafræðingar hallast að því að setja þær í buslandadeildina
Fiskiendur (Mergini) eru endur sem hafa sérhæft sig í að kafa eftir fiski og krabbadýrum. Oftast kafa þær niður á talsvert dýpi (meira en 1 m) til að ná bráðinni. Í þessari deild eru 9 ættkvíslir og 15 tegundir. Fiskiendur eiga sér fulltrúa í íslenskri fuglafánu, meðal annars gulönd (Mergus merganser) og toppönd (Mergus serrator). Önnur kunn tegund deildarinnar er hjálmönd (Bucephala albeola). Margir fuglafræðingar hafa sett æðarfugla í þessa deild. Koparendur (Oxyurini) telja 9 tegundir í þremur ættkvíslum. Þetta eru smávaxnar endur með langar stélfjaðrir sem standa langt aftur úr þeim. Á pörunartímanum eru steggirnir með bláan gogg sem er all sérstakt útlitseinkenni. Meðal tegunda er hrókönd (Oxyura jamaicensis) sem er tíður flækingur hér á landi. Tegundir deildarinnar finnast í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu.
Í lokin er rétt að taka fram að undanfarin ár hefur flokkunarfræði anda verið endurskoðuð að verulegu leyti. Meðal annars hefur sú flokkun sem stuðst er við í þessu svari verið gagnrýnd þar sem innbyrðis skyldleiki hinna ýmsu hópa andfugla er ekki alveg á hreinu. Önnur útgáfa af flokkunarfræði andfugla er á þá leið að ættinni Anatidae er skipt upp í níu undirættir sem eru eftirfarandi:
- Blístrur (Dendrocygnini)
- Söðulblístrur (Thalassorninae)
- Svanir og gæsir (Anserinae)
- Apagæsir (Stictonettinae)
- Gæsendur (Tadorninae)
- Sporendur (Plectropterinae)
- Kafendur (Anatinae)
- Sjóendur (fiskiendur) svo sem æður (Merginae)
- Koparendur (Oxyurinae)
Höfundur vill þakka Gunnlaugi Péturssyni verkfræðingi fyrir aðstoð við þetta svar. Heimildir og myndir:
- Del Hoyo, J., Elliott, A. & Sargatal, J. (eds.) 1992. Handbood of the Birds of the World. 1. bindi. Lynx Edicions, Barcelona.
- Madge, S. and Burns, H. 1988. Wildfowl. London.
- Bird Online
- Fuglar á Vestfjörðum
- Náttúrufræðistofnun Íslands
- Photo Gallery wildlife pictures
- Czech club of breeders of pheasants, waterfowl and doves