Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að tengja Spánverjavígin haustið 1615 við upphaf einokunarverslunar Dana?

Már Jónsson

Vorið 1602 tókust samningar um að kaupmenn í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri fengju einkaleyfi til allrar verslunar við Ísland. Málmey taldist þá til Danmerkur en er nú í Svíþjóð. Röksemdir Kristjáns fjórða Danakonungs og ráðunauta hans voru á þá leið að síðustu áratugina á undan hefðu erlendir kaupmenn, þýskir og enskir, grætt meira en nóg á Íslandsverslun og komið væri að dönskum kaupmönnum að njóta ágóðans. Kaupmenn í borgunum þremur töldu sig fullfæra um að taka verkefnið að sér og hefðu til þess nógu mörg skip og aðgang að nægum varningi til sölu á Íslandi. Einkaleyfisbréfið var gefið út 20. apríl 1602 og skyldi gilda í tólf ár. Þetta markar upphaf þess sem kallað er einokunarverslun Dana og stóð til ársins 1787.

Breytingunum var vissulega ætlað að tryggja hagsmuni danskra kaupmanna en þær áttu líka að vera Íslendingum til hagsbóta sem á annað borð stunduðu viðskipti, því innflutt vara átti að vera vönduð og bjórinn góður, en verðlag sanngjarnt og réttar vogir á ábyrgð íslenskra manna. Þá var kaupmönnum bannað að hafa fleiri en tvo menn yfir veturinn í hverjum kaupstað og með því komið á móts við umkvartanir íslenskra ráðamanna, sem töldu að vetrarvist margra kaupsveina á hverjum stað ýtti undir slark og slæpingshátt innfæddra.

Röksemdir Kristjáns fjórða Danakonungs og ráðunauta hans um einokunarverslun á Íslandi voru á þá leið að síðustu áratugina á undan hefðu erlendir kaupmenn, þýskir og enskir, grætt meira en nóg á Íslandsverslun og komið væri að dönskum kaupmönnum að njóta ágóðans.

Nokkuð var þó næstu árin kvartað undan háu verði, ónógu framboði og lélegri vöru. Það kom þó ekki í veg fyrir að einkaleyfið var endurnýjað vorið 1614 með litlum breytingum, þó þannig að kaupmenn frá Málmey fengu færri hafnir en fyrr. Þeir höfðu ekki staðið sig vel og jafnvel leyft þýskum kaupmönnum að halda fyrri viðskiptum. Íslenskir höfðingjar kröfðust þess ári síðar að verslunarkjör yrðu bætt og meðal annarra freistaði Ari Magnússon sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu þess að ákveða verð, en kaupmenn tóku því illa.

Heldur var ókyrrt á Norður-Atlantshafi á þessum árum og fóru væringar heldur vaxandi en hitt. Meðal þess sem Danir, Englendingar og Hollendingar tókust á um voru yfirráð á Svalbarða, sem fannst árið 1607 og reyndist vera vænlegur sem miðstöð rostungaveiða og hvalveiða. Þangað sigldu líka hvalveiðimenn úr héruðum Baska á Spáni, fyrst sumarið 1612. Þeir höfðu um áratuga skeið stundað hvalveiðar við Nýfundnaland en þar var nú lítið eftir af hval.

Spænsk skip komu aftur ári síðar en voru þá rekin burt af Englendingum og sigldu þá til Íslands á leiðinni heim. Þar veiddist nógu vel til þess að útgerðarmenn ákváðu að halda veiðum áfram. Veiðar við Ísland höfðu þá um langan aldur verið háðar leyfi frá Danakonungi og höfðu einkum enskir sjómenn nýtt sér það, en jafnframt veitt án leyfis og sumir jafnvel rænt landsmenn og ruplað, til dæmis í Vestmannaeyjum sumarið 1614. Þeir tóku danskt kaupskip traustataki og kærðu eigendur það fyrir konungi. Sama sumar höfðu skipverjar á baskneskum hvalveiðiskipum í frammi óspektir og yfirgang í Strandasýslu, sem ráðamenn kvörtuðu undan við stjórnvöld í Danmörku. Má ætla að einn þeirra hafi verið Ari Magnússon, sem þó hafði leyft veiðarnar í nafni konungs.

Trérista frá síðari hluta 16. aldar sem sýnir hvalveiðar og hvalskurð.

Kristján konungur kvartaði undan ensku sjóræningjunum við stjórnvöld í Lundúnum, sem skipuðu fyrir um rannsókn. Yfirgangi hvalveiðimanna svaraði hann með bréfi 30. apríl 1615, þar sem meðal annars segir: „vér höfum fengið vitneskju um að seinasta sumar hafi Baskar og aðrar þjóðir fengist við hvalveiðar í hafi voru og krúnunnar við Ísland, að þeir hafi rænt þegna vora þar í landinu, rekið þá frá heimilum sínum og unnið þeim mikið mein og tjón“. Bréfið var lesið á Alþingi um sumarið og samþykktu menn „að þeir Spönsku eður þeir sem ræna á Íslandi skulu réttilega teknir og skaddir með tilstyrk sýslumanna, svo mikið sem Íslenskir kunna að gjöra þeim.“

Í skjóli þessara bréfa var ráðist til atlögu við skipbrotsmenn í Dýrafirði og við Ísafjarðardjúp um haustið og þrír tugir þeirra drepnir, eins og hægt er að lesa meira í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615? Viðbrögð konungs tengdust ekki einokunarversluninni sem slíkri en voru engu að síður, líkt og hún, hluti af viðleitni danskra stjórnvalda til að ná betri tökum á fjarlægum yfirráðasvæðum sínum og styrkja stöðu sína í Norður-Atlantshafi. Það markmið réði ferðinni og birtist í einkaleyfisveitingu og hörku gagnvart uppivöðslusömum aðkomumönnum.

Heimildir:
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélag 2003).
  • Jón Guðmundsson, Spánverjavígin 1615. Euskal baleazaleen hilketa. La matanza de los vascos. The slaying of the Basques. Inngangur Már Jónsson. Þýðing Hólmfríður Matthíasdóttir, Viola Miglio og Ane Undurraga (Reykjavík: Mál og menning, Baskavinafélag Íslands 2015).

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

9.11.2016

Spyrjandi

Andrea Dögg Gylfadóttir

Tilvísun

Már Jónsson. „Er hægt að tengja Spánverjavígin haustið 1615 við upphaf einokunarverslunar Dana?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2016, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64321.

Már Jónsson. (2016, 9. nóvember). Er hægt að tengja Spánverjavígin haustið 1615 við upphaf einokunarverslunar Dana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64321

Már Jónsson. „Er hægt að tengja Spánverjavígin haustið 1615 við upphaf einokunarverslunar Dana?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2016. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64321>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að tengja Spánverjavígin haustið 1615 við upphaf einokunarverslunar Dana?
Vorið 1602 tókust samningar um að kaupmenn í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri fengju einkaleyfi til allrar verslunar við Ísland. Málmey taldist þá til Danmerkur en er nú í Svíþjóð. Röksemdir Kristjáns fjórða Danakonungs og ráðunauta hans voru á þá leið að síðustu áratugina á undan hefðu erlendir kaupmenn, þýskir og enskir, grætt meira en nóg á Íslandsverslun og komið væri að dönskum kaupmönnum að njóta ágóðans. Kaupmenn í borgunum þremur töldu sig fullfæra um að taka verkefnið að sér og hefðu til þess nógu mörg skip og aðgang að nægum varningi til sölu á Íslandi. Einkaleyfisbréfið var gefið út 20. apríl 1602 og skyldi gilda í tólf ár. Þetta markar upphaf þess sem kallað er einokunarverslun Dana og stóð til ársins 1787.

Breytingunum var vissulega ætlað að tryggja hagsmuni danskra kaupmanna en þær áttu líka að vera Íslendingum til hagsbóta sem á annað borð stunduðu viðskipti, því innflutt vara átti að vera vönduð og bjórinn góður, en verðlag sanngjarnt og réttar vogir á ábyrgð íslenskra manna. Þá var kaupmönnum bannað að hafa fleiri en tvo menn yfir veturinn í hverjum kaupstað og með því komið á móts við umkvartanir íslenskra ráðamanna, sem töldu að vetrarvist margra kaupsveina á hverjum stað ýtti undir slark og slæpingshátt innfæddra.

Röksemdir Kristjáns fjórða Danakonungs og ráðunauta hans um einokunarverslun á Íslandi voru á þá leið að síðustu áratugina á undan hefðu erlendir kaupmenn, þýskir og enskir, grætt meira en nóg á Íslandsverslun og komið væri að dönskum kaupmönnum að njóta ágóðans.

Nokkuð var þó næstu árin kvartað undan háu verði, ónógu framboði og lélegri vöru. Það kom þó ekki í veg fyrir að einkaleyfið var endurnýjað vorið 1614 með litlum breytingum, þó þannig að kaupmenn frá Málmey fengu færri hafnir en fyrr. Þeir höfðu ekki staðið sig vel og jafnvel leyft þýskum kaupmönnum að halda fyrri viðskiptum. Íslenskir höfðingjar kröfðust þess ári síðar að verslunarkjör yrðu bætt og meðal annarra freistaði Ari Magnússon sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu þess að ákveða verð, en kaupmenn tóku því illa.

Heldur var ókyrrt á Norður-Atlantshafi á þessum árum og fóru væringar heldur vaxandi en hitt. Meðal þess sem Danir, Englendingar og Hollendingar tókust á um voru yfirráð á Svalbarða, sem fannst árið 1607 og reyndist vera vænlegur sem miðstöð rostungaveiða og hvalveiða. Þangað sigldu líka hvalveiðimenn úr héruðum Baska á Spáni, fyrst sumarið 1612. Þeir höfðu um áratuga skeið stundað hvalveiðar við Nýfundnaland en þar var nú lítið eftir af hval.

Spænsk skip komu aftur ári síðar en voru þá rekin burt af Englendingum og sigldu þá til Íslands á leiðinni heim. Þar veiddist nógu vel til þess að útgerðarmenn ákváðu að halda veiðum áfram. Veiðar við Ísland höfðu þá um langan aldur verið háðar leyfi frá Danakonungi og höfðu einkum enskir sjómenn nýtt sér það, en jafnframt veitt án leyfis og sumir jafnvel rænt landsmenn og ruplað, til dæmis í Vestmannaeyjum sumarið 1614. Þeir tóku danskt kaupskip traustataki og kærðu eigendur það fyrir konungi. Sama sumar höfðu skipverjar á baskneskum hvalveiðiskipum í frammi óspektir og yfirgang í Strandasýslu, sem ráðamenn kvörtuðu undan við stjórnvöld í Danmörku. Má ætla að einn þeirra hafi verið Ari Magnússon, sem þó hafði leyft veiðarnar í nafni konungs.

Trérista frá síðari hluta 16. aldar sem sýnir hvalveiðar og hvalskurð.

Kristján konungur kvartaði undan ensku sjóræningjunum við stjórnvöld í Lundúnum, sem skipuðu fyrir um rannsókn. Yfirgangi hvalveiðimanna svaraði hann með bréfi 30. apríl 1615, þar sem meðal annars segir: „vér höfum fengið vitneskju um að seinasta sumar hafi Baskar og aðrar þjóðir fengist við hvalveiðar í hafi voru og krúnunnar við Ísland, að þeir hafi rænt þegna vora þar í landinu, rekið þá frá heimilum sínum og unnið þeim mikið mein og tjón“. Bréfið var lesið á Alþingi um sumarið og samþykktu menn „að þeir Spönsku eður þeir sem ræna á Íslandi skulu réttilega teknir og skaddir með tilstyrk sýslumanna, svo mikið sem Íslenskir kunna að gjöra þeim.“

Í skjóli þessara bréfa var ráðist til atlögu við skipbrotsmenn í Dýrafirði og við Ísafjarðardjúp um haustið og þrír tugir þeirra drepnir, eins og hægt er að lesa meira í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615? Viðbrögð konungs tengdust ekki einokunarversluninni sem slíkri en voru engu að síður, líkt og hún, hluti af viðleitni danskra stjórnvalda til að ná betri tökum á fjarlægum yfirráðasvæðum sínum og styrkja stöðu sína í Norður-Atlantshafi. Það markmið réði ferðinni og birtist í einkaleyfisveitingu og hörku gagnvart uppivöðslusömum aðkomumönnum.

Heimildir:
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélag 2003).
  • Jón Guðmundsson, Spánverjavígin 1615. Euskal baleazaleen hilketa. La matanza de los vascos. The slaying of the Basques. Inngangur Már Jónsson. Þýðing Hólmfríður Matthíasdóttir, Viola Miglio og Ane Undurraga (Reykjavík: Mál og menning, Baskavinafélag Íslands 2015).

Myndir:

...