Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Að finna fyrir verk í enni þegar maður borðar eða drekkur eitthvað kalt hefur stundum verið kallað heilakul (e. brain-freeze). Þetta þýðir þó ekki að heilinn sé að kólna, hvað þá frjósa. Líklega væri nærri lagi að kalla þetta frekar íshausverk (e. ice-cream headache) þar sem algengast er að finna fyrir verknum þegar maður hámar í sig ís.
Talið er að um einn af hverjum þremur fái íshausverk. Verkurinn kemur yfirleitt fram nokkrum sekúndum eftir að maður hefur borðað mjög hratt eitthvað kalt, eins og ís, frostpinna eða drukkið ískaldan drykk. Verkurinn kemur oftast fram í miðenninu, en getur þó einnig verið í gagnaugum og augntóftum. Hann stendur oftast yfir í 30-60 sekúndur, en venjulega fer að draga úr honum 10-20 sekúndum eftir að hann hefst. Í einstaka tilfellum getur verkurinn þó varað í 2-5 mínútur.
Þegar eitthvað mjög kalt kemst í snertingu við efri góminn í munninum nema taugaendar sem þar eru kuldann og senda sársaukaboð til þrenndartaugarhnoða (e. trigeminal ganglia) í heila. Þetta veldur því að þrenndartaugin sendir boð til ennis og annarra staða í höfuðkúpu um að víkka út slagæðar sem liggja á þessum svæðum. Við víkkun æðanna eykst skyndilega blóðstreymið um þær og veldur það verk í enninu og efri hluta höfuðs, en ekki í gómnum þar sem kuldans varð vart. Þetta er sambærilegt við svokallaðan staðvilluverk (e. referred pain), líkt og þegar einstaklingur finnur fyrir verk í vinstri handlegg þegar hann er í raun að fá hjartaslag. Þess má geta að svokallaðar sprengitöflur og víagra hafa samskonar æðavíkkandi áhrif og hér var lýst.
Hægt er að minnka líkur á því að fá íshausverk með því að gæta þess að mjög kaldir hlutir snerti ekki efrigóminn í miklu magni. Til dæmis með því að gæta þess að borða ís og frostpinna ekki of hratt. Gott ráð til þess að losna fyrr við íshausverk er að þrýsta tungunni upp í góminn. Tungan hitar þá gómsvæðið sem veldur því að æðar í höfðinu dragast aftur saman og verkurinn hverfur.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær maður heilakul þegar maður borðar eða drekkur eitthvað kalt?“ Vísindavefurinn, 12. desember 2006, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6431.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 12. desember). Hvers vegna fær maður heilakul þegar maður borðar eða drekkur eitthvað kalt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6431
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær maður heilakul þegar maður borðar eða drekkur eitthvað kalt?“ Vísindavefurinn. 12. des. 2006. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6431>.