- Hvað vitið þið um fjallabavíana (e. chacma baboon)?
- Getið þið sýnt mér myndir af bavíönum?
Til eru fimm tegundir bavíana. Fjórar tilheyra ættkvíslinni Papio: Gulbavíani (Papio cynocephalus), fjallabavíani (Papio ursinus), ólífubavíani (Papio anubis) og hamadrýasbavíani (Papio hamadryas). Geladabavíani (Theropithecus gelada) er eina tegundin af ættkvíslinni Theropithecus. Bavíanar eru meðalstórir prímatar og alætur (e. omnivorous) með áberandi dálæti á ávöxtum. Þrátt fyrir að tegundirnar séu mjög líkar að byggingu og líkamsgerð búa þær í mjög ólíkum vistkerfum og félagskerfi þeirra eru mjög fjölbreytileg. Allir bavíanar lifa þó í hópum, en talsverður munur er á milli tegunda hvað varðar samsetningu og stærð hópanna.
Ólífubavíani (Papio anubis)
Allar tegundir Papio-bavíana geta klifrað í trjám, þrátt fyrir að flestar lifi þær á svæðum þar sem lítið er um tré. Að lifa í trjám krefst mikillar sérhæfingar í líkamsgerð (til dæmis að geta gripið um greinar) og því bendir slík geta til aðlögunar að trjálífi. Stór hluti búsvæðis bavíana er talið hafa verið skógi vaxið og það þykir því sennilegt að forfeður bavíana hafi lifað í trjám. Sem skógardýr lifðu bavíanar sennilega í litlum hópum með einu karldýri, en slíkt félagskerfi fyrirfinnst enn meðal bavíana á skógarsvæðum í dag. Við lok Míósen-tímabilsins, það er fyrir um 5,5 – 6 milljónum ára, hefur svo ,,líf á jörðu niðri“ tekið við af skógarlíferninu, þá sennilega fyrst inni í skóginum. Þegar skógurinn tók að hopa við lok Plíósen-tímans, eða fyrir um 2 milljónum ára, færðu bavíanarnir sig svo yfir á opnari svæði. Þótt hamadrýasbavíanar teljist til ættkvíslarinnar Papio eru þeir þó nokkuð frábrugðnir öðrum ættingjum sínum. Talið er að hamadrýasbavíanar og nánasti ættingi þeirra, ólífubavíaninn, hafi aðskilist fyrir um 340.000 árum. Geladabavíanar eru hins vegar ólíkir öðrum bavíönum bæði hvað varðar flokkun og vistfræði. Geladabavíaninn er eini eftirlifandi meðlimur ættkvíslarinnar Theropithecus sem á Plíó-pleistósen tímanum var algeng á gresjum Afríku neðan Sahara, og er afsprengi ættkvíslarinnar Papio. Theropithecus-ættkvíslin varð að öðru leyti útdauð fyrir um 50.000 árum vegna ofveiði að talið er. Almennir bavíanar (e. common baboon)
Til almennra bavíana teljast allar tegundir af ættkvíslinni Papio fyrir utan Papio hamadryas. Þessar tegundir eru ólífubavíani, gulbavíani og fjallabavíani. Allar þessar tegundir eru taldar svo líkar að líkamsgerð, lifnaðarháttum og félagskerfum að venjulega er talað um þær sem eina yfirtegund.
Bavíanar að snyrta hvorn annan
Hamadrýasbavíanar lifa á þurrkasvæðum Eþíópíu, Súdan, Sómalíu og á vesturströnd Suður-Arabíu. Þeir hafast við í skógum og á gresjum yfir daginn og eyða nánast öllum tíma sínum á jörðu niðri. Á nóttunni leita þeir svefnstaðar í bröttum klettum eða klettasyllum. Mikill munur er á stærð kynjanna, en fullorðið karldýr er um það bil tvisvar sinnum stærra en fullorðið kvendýr.
Hamadrýasbavíani (Papio hamadryas)
Geladabavíanar lifa eingöngu á afskekktum hásléttum Eþíópíu á graslendum í 2000 – 5000 m hæð yfir sjávarmáli. Líkt og hamadrýasbavíanar leita þeir náttstaðar í klettum og á klettasyllum. Þeir eru lélegir í að klifra í trjám og halda sig nánast eingöngu á jörðu niðri.
Karldýr geladabavíana(Theropithecus gelada)
- Hvernig er ættartré mannsins? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað getið þið sagt mér um simpansa? eftir Jón Má Halldórsson
- Barton, R.A., R.W. Byrne, A. Whiten. 1996. Ecology, feeding competition and social structure in baboons. Behavioural Ecology & Sociobiology, 38:321-329.
- Barton, R.A., A. Whiten, S.C. Strums, R.W. Byrne og A.J. Simpson. 1992. Habitat use and resource availability in baboons. Animal Behaviour, 43:831-844.
- Dunbar, R.I.M.. 1983. Relationships and social structure in gelada and hamadryas baboons. Í: Hinde, R.A. (ritstj.). Primate social relationships: An integrated approach. Blackwell Scientific Publicatons, Oxford, bls 299-307.
- Dunbar, R.I.M.. 1986. The social ecology of Gelada baboons. Í: Rubenstein, D.I og R.W.Wrangham (ritstj.). Ecological Aspects of Social Evolution: Birds and Mammals. Princeton University Press, Princeton, New Jersey, bls. 332-351.
- Dunbar, R.I.M.. 1988. Primate Social Systems. Croom Helm Ltd, London.
- Kappeler, P.M.. 1999. Primate Socioecology: New Insights from Males. Natur Wissenschaften, 85:18-29.
- Kappeler, P.M. og C.P. van Schaik. 2002. Evolution of primate social systems. International Journal of Primatology, 23:4:707-740.
- Kummer, H.. 1968. Two variations in the social organization of baboons. Í: Jay, P.C. (ritstj.). Primates: Studies in adaption and variability. Holt, Rhinehart and Winston Inc., New York, bls 293-312.
- Maier, R.. 1998. Comparative Animal Behaviour. Allyn and Bacon, Boston.
- Pough, F. H., C. M. Janis og J. B. Heiser. 2002. Vertebrate Life. Prentice Hall, New Jersey.
- Schaik, C.P. van. 1989. The ecology of social relationships amongst female primates. Í: Standen, V. og R.A. Foley (ritstj.). Comparative socioecolgy: The behavioural ecology of humans and other mammals. Blackwell, Oxford, bls. 195-218.
- Smuts, B.B..1983. Special Relationships between Adult Male and Female Olive Baboons: Selective Advantages. Í: Hinde, R.A. (ritstj.). Primate social relationships: An integrated approach.Blackwell Scientific Publicatons, Oxford, bls 262-266.
- Stammbach, E.. 1987. Desert, Forest and Montane Baboons: Multilevel-Societies. Í: Smuts, B., D.L. Cheney, R.M. Seyfarth, R.W. Wrangham og T.T. Struhsaker (ritstj.). Primate Societies. The University of Chicago Press, Chicago og London, bls. 112-120.