Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fjármálalæsi felur í sér getu til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum ákvarðana í fjármálum, þar með talið í efnahagsumhverfinu. Fjármálalæsi byggist á þekkingu, viðhorfum og hegðun og snýst um að geta tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma.
Fjármálalæsi er grundvallarhæfni í nútímaþjóðfélagi. Við lifum í æ flóknari heimi þar sem okkur bjóðast margvíslegir valkostir í fjármálum og við tökum sífellt meiri ábyrgð á okkar eigin fjármálum. Ungt fólk þarf í auknum mæli að taka flóknar ákvarðanir sem hafa áhrif á efnahagslega velferð þess til lengri og skemmri tíma. Það þarf því að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum. Unglingar byrja snemma að nota farsíma og þurfa þá að velja símafélag og áætla símnotkun. Ungt fólk þarf að læra að stjórna áhættu, eiga varasjóð til „mögru áranna“, kunna að tryggja sig hæfilega, forðast að sökkva sér í of miklar skuldir og leggja fyrir til elliáranna. Úrval fjármálaþjónustu hefur aukist gífurlega og er hún orðin flóknari en áður. Fjármálaþjónusta er afar mismunandi og getur, sérstaklega í tilfelli lána, verið of aðgengileg og freistandi. Ofan á margbreytileika fjármálaþjónustu bætist efnahags- og tækniframþróun sem hefur tengt heiminn betur saman en áður hefur þekkst og kallað fram meiri breytingar í samskiptum, viðskiptum og neytendahegðun en við höfum áður séð.
Fjármálalæsi felur í sér getu til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum ákvarðana í fjármálum, þar með talið í efnahagsumhverfinu.
Lakar ákvarðanir í fjármálum geta haft langvarandi áhrif á einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild. Í átta landa samanburðarrannsókn Lusardi og Mitchell (2011) kom fram að afar lítill hluti fólks á vinnumarkaði leiddi hugann að starfslokum, hvað þá að það reiknaði út hversu mikið það þyrfti að leggja fyrir til áranna eftir starfslok. Í rannsókninni voru tengsl á milli fjármálalæsis og fjárhagslegrar fyrirhyggju þegar kom að áætlanagerð vegna eftirlaunaáranna. Það er að segja, því hærra stig fjármálalæsis, þeim mun líklegra var fólk til að hafa gert ráðstafanir til efri áranna.
Efnahagskreppan sem skall á árið 2008 átti sér margvíslegar rætur, en talið er að skortur á fjármálalæsi hafi verið stór þáttur í mörgum ákvörðunum sem leiddu til hennar, dýpkuðu og viðhéldu henni (OECD, 2009). Skortur á fjármálalæsi hefur einnig verið tengdur við minni lífsgæði, líkamlega og andlega vanlíðan og meiri þörf á opinberri aðstoð (Lyons, 2007).
Fjármálalæsi getur skipt sköpum. Það eflir og eykur þekkingu, hæfni og tiltrú fólks á sjálft sig og hvetur það til að taka stjórn á eigin lífi og skjóta traustum stoðum undir öruggari framtíð, sjálfu sér og fjölskyldum sínum til handa (OECD, 2009). Því er mikilvægt að efla fjármálalæsi með skilvirkum aðgerðum allra hagsmunaaðila; menntastofnana, atvinnulífsins, launþegahreyfinga, fulltrúa neytenda sem og stjórnvalda. Jafnframt er mikilvægt að halda áfram reglulegum mælingum á fjármálalæsi með það fyrir augum að sjá hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg.
Efnahagskreppan sem skall á árið 2008 átti sér margvíslegar rætur, en talið er að skortur á fjármálalæsi hafi verið stór þáttur í mörgum ákvörðunum sem leiddu til hennar, dýpkuðu og viðhéldu henni (OECD, 2009).
Stjórnvöld fjölmargra þjóða hafa tekið þá ákvörðun að efla fjármálalæsi landsmanna sinna kerfisbundið með það fyrir augum að veita þeim tæki og tól, hæfni og þekkingu til að taka upplýstar meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum (Lusardi, 2006). Á Íslandi hefur Stofnun um fjármálalæsi beitt sér fyrir fyrir bættu fjármálalæsi frá árinu 2005 meðal annars með kennslu, útgáfu námsefnis, rannsóknum og með því að vera vettvangur athafna og umræðu. Nýsjálendingar hófust handa árið 1993 við skipulagða uppfræðslu almennings í fjármálalæsi í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga. Í Bretlandi er verkefnið á höndum fjármálaeftirlitsins og í bandaríska fjármálaráðuneytinu hefur sérstakt embætti fjármálalæsis starfað síðan 2002 og í byrjun árs 2008 var sett á laggirnar sérstakt ráðgjafaráð forseta Bandaríkjanna í fjármálalæsi.
Fjármálalæs almenningur veitir stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald og eykur þannig stöðugleika og hagvöxt. Í því skyni hefur OECD gefið út leiðbeiningar um hvernig megi móta stefnu í fjármálalæsismenntun í löndum sínum (OECD, 2006). Jafnframt var gerð samanburðarrannsókn á fjármálalæsi nokkurra landa (Atkinson og Messy, 2012). Ísland tók ekki þátt í rannsókn OECD en Stofnun um fjármálalæsi stóð fyrir rannsókn á fjármálalæsi Íslendinga árið 2011 (Breki Karlsson, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, Þorlákur Karlsson og Áslaug Pálsdóttir, 2012). Í rannsókninni var notaður spurningalisti sem samanstóð að hluta til af spurningum OECD. Niðurstöður úr þeirri rannsókn birtast væntanlega í vor.
Heimildir:
Atkinson, A. og Messy, F. (2012). Measuring Financial Literacy: Results of the OECD/International Network on Financial Education (INFE) Pilot Study, OECD Working Papers on Finance, Insurance and Private Pensions, No. 15. París: OECD.
Breki Karlsson, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, Þorlákur Karlsson og Áslaug Pálsdóttir (2012). Rannsókn á fjármálalæsi á Íslandi árið 2011 og samanburður við rannsókn frá árinu 2008. Reykjavík: Stofnun um fjármálalæsi. (Skoðað 15.2.2013).