Hvers vegna segjum við að við séum á fimmtugsaldri þegar við verðum fertug, en ekki á fertugsaldri, eins og er til dæmis sagt á dönsku og ensku?
Í íslensku er það málvenja að sá sé tvítugur, þrítugur, fertugur, fimmtugur og svo framvegis sem er tuttugu, þrjátíu, fjörutíu eða fimmtíu ára. Þrítugur maður er þegar búinn að lifa í þrjátíu ár og hallar sér nú í átt að fjórða tugnum, hann er á fertugsaldri. Fertugi maðurinn nálgast hægt og bítandi að verða fimmtugur, hann er á fimmtugsaldri, kominn yfir á fimmta áratuginn. Í dönsku, ensku og þýsku er þessu öðru vísi farið þar sem málvenjan er önnur. Þar er hugsunin að maðurinn færist frá einu ári til annars innan sama tugarins, það er verður 41, 42, 43 og svo framvegis. Í dönsku er maður sem er ,,i fyrrerne” á aldrinum milli fjörutíu og fimmtíu ára. Í ensku er sá sem er ,,in his forties” einnig á aldrinum fjörutíu til fimmtíu ára og sama er að segja um þýsku, ,,er ist in den vierzigern”. Hins vegar er of mikið sagt að erlenda orðalagið merki að maðurinn sé "á fertugsaldri"; Það er fyrst og fremst öðruvísi hugsað en íslenski talsmátinn. Svipaða sögu er að segja um aldir. Við notum 19. öld um tímabilið 1800-1899 eða 1801-1900. Svíar, og í vaxandi máli einnig Danir, segja þar ,,i nittonhundratalet” eða ,,i nittenhundredetallet” og eiga þá við tímabilið 1900–1999. Hugmyndin á bak við þetta er væntanlega sú að ártölin á þessu bili byrja á "nitton hundra" eða "nitten hundrede" þannig að auðskilið er hvað við er átt. Frekara lesefni á Vísindavefnum: