Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vitað er að einkenni hlaupabólu eru mun verri hjá fullorðnum en börnum. Líklega er ekki munur hjá fimm og 11 ára börnum. Aftur á móti getur nokkur einstaklingsmunur verið á einkennum hlaupabólunnar. Sumir verða þá lasnari en aðrir sem eru jafngamlir.
Hlaupabóla er bráðsmitandi barnasjúkdómur og er algengust hjá börnum yngri en tíu ára. Hún er reyndar svo algeng hjá börnum að um 90% fullorðinna eru ónæmir fyrir henni vegna þess að þeir eru búnir að fá hana.
Hlaupabóla stafar af veiru sem nefnist Herpes varicella-zoster og eins og nafnið bendir til tilheyrir hún sömu veiruættkvísl (Herpes) og frunsuveirur (Herpes simplex). Hlaupabóla smitast auðveldlega milli manna með hósta eða hnerra eða með því að deila mat eða drykk með sýktum einstaklingi. Smit getur átt sér stað áður en einkenni eru komin fram hjá þeim sýkta, en einnig er hægt að smitast við það að snerta vökva í hlaupabólum hjá sýktum einstaklingi. Hlaupabóla dreifist þó auðveldast 2-3 dögum áður en útbrot koma fram og þangað til hrúður hefur myndast á allar bólurnar.
Hlaupabóla er mjög algengur barnasjúkdómur sem einkennist helst af rauðum blettum sem klæjar í. Blettirnir verða síðan að vökvafylltum blöðrum.
Hlaupabóla er vægur sjúkdómur. Helsta einkenni hennar eru rauðir blettir sem klæjar í. Blettirnir verða síðan vökvafylltum blöðrum. Með tímanum þorna blöðrurnar og hrúður myndast sem að lokum dettur af. Það er mjög misjafnt eftir börnum hversu margar hlaupabólurnar verða. Sum börn fá aðeins nokkrar bólur en önnur verða þakin bólum um allan líkamann. Algengast er að bólur komi fram í andliti, á eyrum og höfuðleðri, undir handleggjum, á bringu eða kvið og á hand- og fótleggjum.
Þótt hlaupabóla sé vægur sjúkdómur getur hann valdið vandamálum hjá barnshafandi konum, nýburum, táningum, fullorðnum og hjá þeim sem hafa brenglað ónæmiskerfi. Helstu vandamál sem geta komið í kjölfar hlaupabólu eru lungnabólga (í 1% fullorðinna) og heilabólga sem er þó mjög sjaldgæft. Fyrstu einkenni hlaupabólu eru hiti, höfuðverkur og hálsbólga. Ógleði, þreyta og lystarleysi geta einnig komið fram. Útbrotin birtast 1-2 dögum eftir að fyrstu einkennin láta á sér kræla. Sum börn fá útbrot án þess að fá önnur einkenni á undan.
Meðgöngutími hlaupabólu er oftast 14-16 dagar, það er tíminn sem líður frá því að komist er í snertingu við veiruna og þar til fyrstu einkennin koma fram. Eftir að bóla kemur fram á húðinni tekur það hana 1-2 daga að fara í gegnum allt ferlið. Helstu stigin eru blöðrumyndun, blöðrurof, uppþornun og hrúðurmyndun. Nýjar bólur koma fram daglega í allt að 5-7 daga.
Ólíklegt er að sá sem einu sinni hefur fengið hlaupabólu fái hana aftur. En veiran getur verið áfram í líkamanum löngu eftir að öll einkenni hafa horfið. Þá má segja að hún liggi í dvala í taugaendum í líkamanum og geti komið fram aftur, jafnvel mörgum áratugum síðar, sem ristill. Ristill lýsir sér sem útbrot á húð sem liggja meðfram taug vinstra eða hægra megin á líkamanum. Fyrstu einkennin eru eymsli, sviðatilfinning eða seyðingur öðru megin á líkamanum. Nokkrum dögum eða vikum síðar birtist á sama svæði rák eða rönd af útbrotum sem þróast í blöðrur sem á endanum fá á sig hrúður. Einstaklingur með ristil getur smitað þá sem hafa ekki fengið hlaupabólu eða bólusetningu gegn henni á meðan bólur hans hafa ekki gróið. Fær viðkomandi þá hlaupabólu, ekki ristil.
Í flestum tilfellum þarf ekki að meðhöndla hlaupabólu. Til eru veirulyf, frunsulyf, sem flýta fyrir því að bólurnar grói ef það er gefið innan sólarhrings frá því að þær koma fyrst fram. Einnig er stundum ráðlagt að bera anti-histamínlyf á bólurnar til að draga úr kláða og bólgum. Einstaka sinnum eru gefin sýklalyf ef bakteríusýking hefur komist í bólurnar. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að börn með hlaupabólu klóri sér. Það eykur hættu á bakteríusýkingum og örmyndun. Æskilegt er að þvo bólurnar daglega og bera svo áburð á eftir til að draga úr kláða, en þá er mikilvægt að hann sé án ilmefna.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er hlaupabóla verri þegar maður er 11 ára en 5 ára?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63960.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014, 5. mars). Er hlaupabóla verri þegar maður er 11 ára en 5 ára? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63960
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er hlaupabóla verri þegar maður er 11 ára en 5 ára?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63960>.