- 33% er loftborin mengun (með ryki, úrkomu eða efni eða efnasambönd sem gufað hafa upp)
- 44% er vegna frárennslis frá landi (frá almennum fráveitum, frárennsli frá fyrirtækjum eða afrennsli af landi)
- 12% tengjast rekstri skipa
- 10% eru úrgangsefni sem varpað er í hafið
Þó svo að næringarefni séu helstu mengunarefnin sem berast til sjávar hér við land hefur mengun af þessu tagi ekki verið mikið vandamál við strendur Íslands. Ástæðan er sú að víðast hvar er öflug blöndun sjávar á grunnsævi sem kemur því næst í veg fyrir hættu á ofauðgun næringarsalta. Mengun hafsins getur haft víðtæk áhrif og afleiðingarnar eru margvíslegar. Ofgnótt næringarefna er eitt dæmið en menn hafa einnig miklar áhyggjur vegna þrávirkra lífrænna efna (til dæmis PCB og ýmissa varnaðarefna) og þungmálma (til dæmis kvikasilfurs). Þessi efni geta lífmagnast, það er safnast upp í lífkeðjunni og náð háum og skaðlegum styrk í lífverum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni. Hættan er sérstaklega mikil á norðlægum slóðum og eru dæmi um að slík efni hafi fundist í spendýrum á norðurhjara, þar með talið ísbjörnum og mönnum. Sum þessara mengunarefna eru krabbameinsvaldandi og geta haft áhrif á æxlunarhæfni lífvera. Sum mengunarefni berast langar vegalengdir með vindum eða straumum. Alþjóðlegt samstarf er því sérstaklega mikilvægt í baráttunni gegn mengun hafs og stranda. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði í fylkingarbrjósti í þeirri baráttu. Lengi hefur verið talið að hafið umhverfis landið sé heilnæmt og tært og strendur landsins hreinar. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þessi ímynd er um margt á rökum reist. Sömu rannsóknir hafa þó einnig sýnt að víða getum við tekið okkur á og gert betur. Nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfisstofnunar. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um mengun, til dæmis:
- Hverjir eru helstu mengunarvaldar hafsins og hvaða áhrif hafa þeir á lífverur sjávar?
- Hvað eru þrávirk lífræn efni og hvernig berast þau í dýr?
- Finnast eiturefni í íslenskum fiskum?
- Hver eru skaðleg áhrif skordýraeitursins DDT?
- Hvað getið þið sagt mér um áburðarmengun?
- Er einhver mengun vegna þeirra tuga tonna af blýsökkum sem tapast í hafið á hverju ári?
- Hvernig er olía hreinsuð úr sjó, til dæmis eftir olíuslys?