Niðurstöður rannsókna benda til þess að magn þungmálma og þrávirkra efna sé mjög lítið á helstu fiskimiðum við landið. Undantekning er kadmín, sem mælist hátt í íslensku sjávarlífríki og kopar og sink sem mælast hátt í kræklingi. Það má að öllum líkindum rekja ástæður mengunarinnar til náttúrulegra orsaka svo sem eldvirkni, fremur en til mengunar af mannavöldum.
- Í fyrsta lagi að kanna hvort magn mengandi efna fari vaxandi í hafinu við Ísland.
- Í öðru lagi að meta hvort heilsu manna sé hætta búin af neyslu sjávarfangs.
- Í þriðja lagi að meta hvort lífríki sjávar stafi hætta af mengun.
Þungmálmar í þorski Greina má marktækan mun á magni þungmálma (kadmín, kopar, sink) í þorsklifur á milli ára. Hér er þó um sveiflur að ræða en ekki er hægt að sjá neina samfellda þróun. Þá sýna niðurstöður að marktækt meira magn af kadmín, kopar og sinki var að finna á Norðvestur-miðum en á öðrum miðum við Ísland. Flest bendir til þess að náttúrulegar orsakir liggi þar að baki. Styrkur blýs í þorsklifur var hins vegar í öllum tilvikum undir efnagreiningarmörkum. Í samanburði við önnur fiskimið á norðlægum slóðum er styrkur sinks, kopars og kvikasilfurs í þorski á Íslandsmiðum með því lægsta sem mælist. Aftur á móti er styrkur kadmíns með því hæsta sem mælist. Ástæður þess eru ekki að fullu þekktar, en talið er að þetta eigi sér náttúrlegar skýringar, til dæmis jarðfræðilegar (eldvirkni), frekar en að um sé að ræða mengun af mannavöldum, þar sem engar þekktar uppsprettur af mannavöldum eru fyrir hendi. Því til stuðnings má benda á að mælingar í mosa sýna að hár kadmínstyrkur fylgir þeim svæðum sem liggja á gosbeltinu sem liggur þvert yfir landið frá suðvestri til norðausturs. Þegar þessar niðurstöður liggja fyrir er kannski næsta spurning sú hvort óhætt sé að borða þorskinn sem veiðist hér við land vegna kadmínstyrksins. Til þess að svara því er gott að reikna út svokallaðan TWI stuðul (Tolerable Weekly Intake) sem segir til um hvaða magn af ákveðnu efni má innbyrða fyrir hvert kg af líkamsþyngd neytandans án þess að hætta sé á eituráhrifum. Stuðlar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fyrir blý, kadmín og kvikasilfur eru 50, 7 og 5 µg á kg líkamsþunga fyrir hvert efni. Það þýðir að einstaklingur sem er 60 kg að þyngd má innbyrða 420µg af kadmíni á viku en það mundi þýða um 500 kg af þorskholdi. Hvað kvikasilfur varðar mætti þessi sami einstaklingur innbyrða um 300µg af kvikasilfri á viku sem þýðir um 15 kg af þorskholdi. Þetta sýnir að þótt kadmín sé hærra hér en á nærliggjandi hafsvæðum er það langt frá að ná nokkrum hættumörkum og því öruggt að borða þorsk af Íslandsmiðum með bestu lyst. Þungmálmar í kræklingi Styrkur þungmálma í kræklingi sveiflast á milli ára og staða. Kadmínstyrkur í kræklingi mælist hærri á stöðum eins og í Mjóafirði sem er fjarri þekktum uppsprettum efnisins en til dæmis í Hvalfirði og Straumsvík. Þetta styður þá tilgátu að þessi tiltölulegi hái styrkur kadmíns í sjávarlífverum hér við land sé tilkominn vegna náttúrulegra ferla. Styrkur kopars og sinks er hærri en viðmiðunargildi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Hér er einnig hugsanlegt að finna megi náttúrlegar skýringar, til dæmis vegna lóðréttrar blöndunar sjávar. Samantekt Styrkur þungmálma í þorski og kræklingi við Ísland er oftast undir viðmiðunargildum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Undantekning frá þessu er að kadmín mælist hátt í lífríki sjávar hér við land og einnig styrkur kopars og sinks í kræklingi. Þessi hái kadmínstyrkur virðist eiga sér náttúrulegar skýringar þar sem ekkert bendir til þessi að hann sé af mannavöldum. Því til stuðnings má benda á að enga þróun er að sjá milli ára og ennfremur mælist styrkur kadmíns hár hér á landi í mosa, langt frá öllum hugsanlegum uppsprettum af völdum manna. Sennilega er það mikil lóðrétt blöndun sjávar sem veldur því að einhverju leyti að hár styrkur kopars og sinks mælist í kræklingi, en venjulega er minna af þessum málmum að finna á grunnslóð en á meira dýpi. Þrávirk lífræn efni Þrávirk lífræn efni er samheiti yfir efni sem bindast lífverum og eyðast mjög hægt eða ekki og safnast þess vegna fyrir í umhverfinu. Þessi efni eru orðin til fyrir tilstilli manna. Um er að ræða efni eins og PCB, HCB, DDT, díoxín og fleiri. Þessi efni eru fituleysanleg og leysast því ekki vel í vatni. Þau geta borist í lífverur með fæðu og hafa tilhneigingu til að safnast fyrir eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni. Helstu áhrif uppsöfnunar þrávirkra lífrænna efna í lífverum eru neikvæð áhrif á viðkomu og ónæmiskerfi þar sem efnin geta líkt eftir hormónum og raskað hormónabúskapnum. Sjá nánar í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hvað eru þrávirk lífræn efni og hvernig berast þau í dýr? Þrávirkum lífrænum efnum er skipt í þrjá aðalhópa, eftir því hvernig þau eru notuð eða hafa myndast:
- Plágueyðar (DDT, klórdan, HCH, TBT, toxafen, mírex, dieldrín). Þekktast af þessum efnum er trúlega DDT sem er skordýraeitur og hefur verið notað einna mest í heiminum.
- Efni notuð í iðnaði (til dæmis PCB og HCB). Þekktast er PCB sem finnst í eldri spennubreytum og þéttum. Búið er að banna framleiðslu þessara efna.
- Aukaafurðir í iðnaðarferlum (HCB, díoxín). HCB myndast sem aukaafurð þegar verið er að framleiða klórgas og ýmis efnasambönd sem innihalda klór.
Þrávirk lífræn efni í kræklingi Styrkur PCB-efna í kræklingi hér við land er sambærilegur við það sem mælist fjarri byggð á vesturströnd Bandaríkjanna og er svipaður því sem lægst mælist við Bretland og Írland. Styrkur HCB og DDE er almennt lágur og er ýmist undir eða alveg við viðmiðunarmörk. Samantekt Samanburður við önnur hafsvæði sýnir að styrkur þrávirkara lífrænna efna í lífríki sjávar við Ísland er með því lægsta sem mælist á nálægum hafssvæðum (N-Norðursjó og við vesturströnd Noregs). Tilvist þessara efna er vísbending um mengun af manna völdum og þrátt fyrir að hún sé óveruleg hér við land er full ástæða til að halda vöku sinni áfram, bæði hér á Íslandi og í alþjóðlegu samstarfi til að sporna gegn þessari mengun. Heimild: Davíð Egilson, Elísabet D. Ólafsdóttir, Eva Yngvadóttir, Helga Halldórsdóttir, Flosi Hrafn Sigurðsson, Gunnar Steinn Jónsson, Helgi Jensson, Karl Gunnarsson, Sigurður A. Þráinsson, Andri Stefánsson, Hallgrímur Daði Indriðason, Hreinn Hjartarson, Jóhanna Thorlacíus, Kristín Ólafsdóttir, Sigurður R. Gíslason og Jörundur Svavarsson, 1999. Mælingar á mengandi efnum á og við Ísland. Niðurstöður öktunarmælinga. Starfshópur um mengunarmælingar, mars 1999, Reykjavík. 138 bls.