Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er spasmi og hvernig lýsir hann sér?

Þórdís Kristinsdóttir

Í læknisfræði er spasmi skyndilegur og ósjálfráður samdráttur vöðva, hóps af vöðvum, í veggjum hols líffæris eða samdráttur ops á líffæri. Í daglegu tali er það kallað spasmi þegar krampi kemur í vöðva, oft með skyndilegum sársauka sem líður fljótt hjá en getur varað í nokkrar mínútur eða lengur. Spasmi getur leitt til tognunar vöðva eða sinaslits ef kraftur hans er meiri en togkraftur undirliggjandi bandvefs, sérstaklega ef bandvefurinn er veiklaður af einhverjum ástæðum.

Í daglegu tali er það kallað spasmi þegar krampi kemur í vöðva.

Margar ástæður geta verið fyrir vöðvaspasma. Meðal helstu orsaka eru vökvaskortur, skortur á jónaefnum (e. electrolytes) og ofreynsla. Spasmi getur komið fram þegar vöðvi þreytist vegna ofnotkunar, sérstaklega ef hann er yfirteygður eða hefur verið lengi í sömu stöðu. Vöðvafrumur þurfa vatn, glúkósa, salt, kalsín, kalín og magnesín til að geta starfað rétt. Óeðlilegt framboð þessara efna getur valdið því að vöðvi verður ertanlegri en eðlilegt er og fer í kröftugan samdrátt. Spasmi getur komið vegna óvenjulegar notkunar vöðva eða daglegra starfa með endurteknum hreyfingum, líkt og að moka snjó eða klippa tré. Krampi í vöðvum er einnig algengur hjá þolíþróttafólki og fólki sem vinnur við byggingarvinnu, sérstaklega í heitu umhverfi. Vöðvaspasmar í fótum að nóttu til flokkast svo sem tegund svefntuflunar.

Margir sjúkdómar og kvillar geta einnig orsakað vöðvaspasma. Vöðvaspasmi vegna starfsröskunar í taugum er mun alvarlegri og getur verið varanlegur ef ekkert er að gert. Vöðvatónus yfirspennts vöðva er þá of mikill til þess að vöðvafrumurnar nái að slaka á. Vöðvaspennutruflun (e. dystonia) er heiti notað um flokk taugasjúkdóma þar sem taugavöðvatruflanir valda viðvarandi vöðvasamdrættir og kippum, endurteknum hreyfingum og óeðlilegri líkamsstöðu. Mótverkandi vöðvar (antagonisti og agonisti) dragast þá saman samtímis, oftast hægt og í langan tíma en þetta getur gerst skyndilega og flöktandi. Þetta ástand er bæði sársaukafullt og hefur áhrif á starfsgetu og daglegt líf þess sem í hlut á.

Æðakölkun eða aðrar æðaþrengingar í útlimum geta einnig valdið vöðvaspasma og krampa ef vöðvar fá ekki nauðsynleg næringarefni vegna skerts blóðflæðis til þeirra. Skert blóðflæði til vöðva getur líka valdið sársauka, sérstaklega við áreynslu. Kerfissjúkdómar (sjúkdómar sem hafa áhrif á allan líkamann og/eða eru sjúkdómar í nokkrum líffærakerfum) á borð við sykursýki, blóðleysi, nýrnarsjúkdóma og vanvirkan skjaldkirtil og taugasjúkdómar líkt og MS og mænuskaði geta einnig orsakað vöðvaspasma.

Mikill sársauki getur fylgt krampa í vöðvum eins og margt íþróttafólk þekkir af eigin raun.

Spasmar geta komið fram í sléttum vöðvum í innri líffærum. Þetta getur valdið miklum sársauka þegar hollíffæri fyllt af lofti eða vökva dragast saman og innihaldið getur ekki þjappast meira. Svona spasmar geta myndast í þörmum og valdið kveisuverkjum sem koma og fara, eða í gallrás. Þessi tegund spasma er oft nógu sársaukafull til þess að fólk leitar á bráðamóttökuna. Sögutaka og líkamsskoðun er þá gerð til að komast að orsökum sársaukans og stundum þarf að gefa fólki verkjalyf á meðan hann líður hjá. Ef grunur leikur á að spasmi sé af völdum tauga- eða vöðvatruflunar má gera vöðvaafrit (e. electromyography) til að skera úr um það. Einnig gæti þurft að athuga hvort blóðflæði til útlima sé eðlilegt þar sem skert blóðflæði getur haft alvarlegar afleiðingar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykilatriði til þess að koma í veg fyrir vöðvaspasma. Mikilvægt er að drekka vel og við iðkun þolíþrótta er gott að drekka orkudrykki sem innihalda nauðsynleg jónaefni. Það sama á við ef fólk er með ælupest eða niðurgang og missir mikið vatn. Ef beinagrindavöðvi fer í spasma er gott að teygja varlega á vöðvanum til að rjúfa spasmahringrásina og flýta því að hann líði hjá.

Heimildir og myndir:

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.11.2012

Spyrjandi

Rúna Svandís Einarsdóttir, Thelma Guðmundsdóttir

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er spasmi og hvernig lýsir hann sér?“ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63207.

Þórdís Kristinsdóttir. (2012, 27. nóvember). Hvað er spasmi og hvernig lýsir hann sér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63207

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er spasmi og hvernig lýsir hann sér?“ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63207>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er spasmi og hvernig lýsir hann sér?
Í læknisfræði er spasmi skyndilegur og ósjálfráður samdráttur vöðva, hóps af vöðvum, í veggjum hols líffæris eða samdráttur ops á líffæri. Í daglegu tali er það kallað spasmi þegar krampi kemur í vöðva, oft með skyndilegum sársauka sem líður fljótt hjá en getur varað í nokkrar mínútur eða lengur. Spasmi getur leitt til tognunar vöðva eða sinaslits ef kraftur hans er meiri en togkraftur undirliggjandi bandvefs, sérstaklega ef bandvefurinn er veiklaður af einhverjum ástæðum.

Í daglegu tali er það kallað spasmi þegar krampi kemur í vöðva.

Margar ástæður geta verið fyrir vöðvaspasma. Meðal helstu orsaka eru vökvaskortur, skortur á jónaefnum (e. electrolytes) og ofreynsla. Spasmi getur komið fram þegar vöðvi þreytist vegna ofnotkunar, sérstaklega ef hann er yfirteygður eða hefur verið lengi í sömu stöðu. Vöðvafrumur þurfa vatn, glúkósa, salt, kalsín, kalín og magnesín til að geta starfað rétt. Óeðlilegt framboð þessara efna getur valdið því að vöðvi verður ertanlegri en eðlilegt er og fer í kröftugan samdrátt. Spasmi getur komið vegna óvenjulegar notkunar vöðva eða daglegra starfa með endurteknum hreyfingum, líkt og að moka snjó eða klippa tré. Krampi í vöðvum er einnig algengur hjá þolíþróttafólki og fólki sem vinnur við byggingarvinnu, sérstaklega í heitu umhverfi. Vöðvaspasmar í fótum að nóttu til flokkast svo sem tegund svefntuflunar.

Margir sjúkdómar og kvillar geta einnig orsakað vöðvaspasma. Vöðvaspasmi vegna starfsröskunar í taugum er mun alvarlegri og getur verið varanlegur ef ekkert er að gert. Vöðvatónus yfirspennts vöðva er þá of mikill til þess að vöðvafrumurnar nái að slaka á. Vöðvaspennutruflun (e. dystonia) er heiti notað um flokk taugasjúkdóma þar sem taugavöðvatruflanir valda viðvarandi vöðvasamdrættir og kippum, endurteknum hreyfingum og óeðlilegri líkamsstöðu. Mótverkandi vöðvar (antagonisti og agonisti) dragast þá saman samtímis, oftast hægt og í langan tíma en þetta getur gerst skyndilega og flöktandi. Þetta ástand er bæði sársaukafullt og hefur áhrif á starfsgetu og daglegt líf þess sem í hlut á.

Æðakölkun eða aðrar æðaþrengingar í útlimum geta einnig valdið vöðvaspasma og krampa ef vöðvar fá ekki nauðsynleg næringarefni vegna skerts blóðflæðis til þeirra. Skert blóðflæði til vöðva getur líka valdið sársauka, sérstaklega við áreynslu. Kerfissjúkdómar (sjúkdómar sem hafa áhrif á allan líkamann og/eða eru sjúkdómar í nokkrum líffærakerfum) á borð við sykursýki, blóðleysi, nýrnarsjúkdóma og vanvirkan skjaldkirtil og taugasjúkdómar líkt og MS og mænuskaði geta einnig orsakað vöðvaspasma.

Mikill sársauki getur fylgt krampa í vöðvum eins og margt íþróttafólk þekkir af eigin raun.

Spasmar geta komið fram í sléttum vöðvum í innri líffærum. Þetta getur valdið miklum sársauka þegar hollíffæri fyllt af lofti eða vökva dragast saman og innihaldið getur ekki þjappast meira. Svona spasmar geta myndast í þörmum og valdið kveisuverkjum sem koma og fara, eða í gallrás. Þessi tegund spasma er oft nógu sársaukafull til þess að fólk leitar á bráðamóttökuna. Sögutaka og líkamsskoðun er þá gerð til að komast að orsökum sársaukans og stundum þarf að gefa fólki verkjalyf á meðan hann líður hjá. Ef grunur leikur á að spasmi sé af völdum tauga- eða vöðvatruflunar má gera vöðvaafrit (e. electromyography) til að skera úr um það. Einnig gæti þurft að athuga hvort blóðflæði til útlima sé eðlilegt þar sem skert blóðflæði getur haft alvarlegar afleiðingar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykilatriði til þess að koma í veg fyrir vöðvaspasma. Mikilvægt er að drekka vel og við iðkun þolíþrótta er gott að drekka orkudrykki sem innihalda nauðsynleg jónaefni. Það sama á við ef fólk er með ælupest eða niðurgang og missir mikið vatn. Ef beinagrindavöðvi fer í spasma er gott að teygja varlega á vöðvanum til að rjúfa spasmahringrásina og flýta því að hann líði hjá.

Heimildir og myndir:...