Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Könnunarjeppanum Curiosity var skotið á loft 26. nóvember 2011. Jeppinn á að rannsaka hvort aðstæður á Mars voru einhvern tímann, eða eru jafnvel í dag, heppilegar fyrir örverulíf. Jeppinn lenti í Gale-gígnum á Mars klukkan 05:17:57 að íslenskum tíma þann 6. ágúst 2012 og bárust fyrstu myndir fáeinum mínútum síðar.
Mjög erfitt er að koma stórum jeppa heilum og höldnum í gegnum lofthjúp Mars. Lofthjúpurinn er of þykkur til þess að geimför geti lent með sams konar hætti og Apollo-geimfararnir lentu á tunglinu en að sama skapi of þunnur til þess að lofthemlun og fallhlífar dugi einar og sér. Forverar Curiosity, Spirit og Opportunity, lentu með hjálp loftpúða eins og frægt er. Curiosity er alltof stór til þess að það sé mögulegt í hans tilviki.
Fyrirhuguð lendingarsvæði könnunarfara á Mars hafa hingað til verið tiltölulega víðfeðm. Þannig voru lendingarsvæði Spirit og Opportunity 120 km x 50 km að stærð. Curiosity var aftur á móti ætlað að lenda nákvæmlega á fyrirfram ákveðnum stað. Lendingarsvæði hans var aðeins 20 km að stærð. Curiosity lenti þess vegna með allt öðrum hætti en Spirit og Opportunity.
Lendingarferlið tók aðeins sjö mínútur. Það hófst í um 130 km hæð yfir Mars þegar geimfarið snerti lofthjúpinn. Hraði þess á þeim tíma var um 21.000 km á klukkustund. Jeppinn var innan í hlífðarskel sem varði hann á leiðinni frá jörðinni til Mars og á leið hans í gegnum lofthjúpinn en hún skiptist í bakhlíf og hitaskjöld. Bakhlífin sá um að fljúga að lendingarstaðnum á sama tíma og farið var á leið til lendingar.
Lofthemlun hófst þegar Curiosity byrjaði að falla í gegnum lofthjúp Mars.
Hitaskjöldurinn var 4,5 metra breiður, sá stærsti sem sendur hefur verið út í geiminn. Hans hlutverk var að draga úr hraðanum niður í ríflega 400 metra á sekúndu. Á þeim hraða opnaðist fallhlífin, sem var 16 metrar í þvermál og 50 metra löng, og dró hún enn frekar úr hraðanum en dugði ekki til ein og sér.
Þegar fallhlífin hafði dregið úr hraðanum niður í um 80 metra hraða á sekúndu, féll jeppinn úr bakhlífinni. Hann var fastur undir eldflaugaknúinni lendingareiningu sem hægði á ferðinni niður í 0,75 metra á sekúndu. Þessi eining var í raun eldflaugakrani sem slakaði jeppanum niður.
Kraninn tryggði að jeppinn lenti mjúklega á yfirborði Mars. Þegar jeppinn snerti yfirborðið beið kraninn í um tvær sekúndur til þess að staðfesta lendinguna. Þá losnuðu kaplarnir frá jeppanum, kraninn flaug burt og brotlenti í öruggri fjarlægð norðan við jeppann.
Kraninn lét jeppann síga niður á yfirborðið og flaug svo burt.
Aldrei áður hefur verið lent með þessum hætti á annarri reikistjörnu. Allt ferlið var skipulagt í þaula fyrirfram, enda varð lendingin að vera sjálfvirk.
Að lendingin skuli hafa tekist fullkomlega er stórkostleg afrek. Vegna þess hve Mars er langt frá jörðinni þegar lendingin átti sér stað (248 milljón km) var útilokað fyrir vísindamenn að stýra henni sjálfir. Skilaboðin voru 14 mínútur að berast milli reikistjarnanna.
Á meðan á þessu stóð var jörðin að setjast frá Gale-gígnum séð og utan kallfæris. Þau þrjú gervitungl sem eru á sveimi um Mars — bandarísku gervitunglin Mars Odyssey og Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) og hið evrópska Mars Express — hlustuðu eftir merkjum frá Curiosity og beindu til jarðar. Mars Odyssey streymdi beint frá Mars en MRO afkóðaði merkin og sendi þau síðan til jarðar, sem tók lengri tíma. Fyrstu myndir frá Curiosity bárust örfáum mínútum eftir lendingu.
Myndir:
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig var Curiosity lent á Mars?“ Vísindavefurinn, 10. ágúst 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63032.
Sævar Helgi Bragason. (2012, 10. ágúst). Hvernig var Curiosity lent á Mars? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63032
Sævar Helgi Bragason. „Hvernig var Curiosity lent á Mars?“ Vísindavefurinn. 10. ágú. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63032>.