Þegar jepparnir Spirit og Opportunity lentu á Mars voru fallhlífar notaðar en þeirri lendingaraðferð var fyrst beitt þegar Pathfinder lenti á reikistjörnunni árið 1997. Jepparnir eru fastir inni í eins konar skel sem samanstendur úr bakhlíf og hitaskildi. Fallhlífin er inni í bakhlífinni og opnast ekki fyrr en stuttu fyrir lendingu. Hönnun hennar er mjög flókin og byggist á þéttleika lofthjúpsins, hraða og massa geimfarsins svo að nokkuð sé nefnt. Hún er úr tveimur endingargóðum og léttum efnum: pólýester og næloni. Fallhlífin er þríbeisluð við bakhlífina en beislið sjálft er úr kevlar, sama efni og er notað í skotheld vesti. Fallhlífarefnið þarf að vera mjög sterkt en samt létt og fyrirferðarlítið. Að lokinni dauðhreinsun er fallhlífinni nánast troðið inn í bakhlífina, á líkan hátt og þegar við setjumst á stútfulla ferðatösku og lokum henni. Loftþrýstingur við yfirborð Mars er innan við 1% af loftþrýstingnum hér hjá okkur við yfirborð jarðar. Þess vegna dugir fallhlífin ein ekki til að hægja nægjanlega á ferðinni fyrir örugga lendingu. Við skulum því skoða lendingarferlið í grófum dráttum og athuga hvernig fallhlífin nýtist mönnum. Geimförin Spirit og Opportunity komust fyrst í snertingu við lofthjúp Mars eftir um sex mánaða ferðalag. Þá voru þau í um 128 km hæð yfir reikistjörnunni og ferðuðust á 5,4 km hraða á sekúndu. Þegar þau fóru inn í lofthjúpinn myndaðist gríðarlegur hiti umhverfis geimförin vegna núnings við lofthjúpinn og þá verndaði hitaskjöldurinn þau. Í raun má segja að lofthjúpurinn og hitaskjöldurinn séu fyrstu „hemlunartæki“ geimfarsins. Lofthjúpurinn hægði á ferð geimfaranna niður í 400 metra hraða á sekúndu. Þegar geimförin voru í um 8 km hæð yfir yfirborðinu opnaðist fallhlífin úr bakhlífinni. Lendingarfarið seig um 20 metra úr bakhlífinni og hékk þar í um eina mínútu fyrir lendingu. Lendingarfarið var látið síga svo loftpúðar gætu blásið út. Átta sekúndum fyrir lendingu blésu loftpúðarnir út og mynduðu verndarhjúp um lendingarfarið. Geimförin voru þá í um 280 metra hæð yfir Mars og ennþá föst við bakhlífina. Þunnur lofthjúpur Mars hægði á lendingarfarinu niður í um 75 metra hraða á sekúndu. Ef geimfarið hefði lent á þessum hraða hefði það brotnað í tætlur. Sex sekúndum fyrir lendingu var því kveikt á þremur eldflaugum sem brunnu í þrjár sekúndur og stöðvuðu geimfarið algjörlega í loftinu, um 10-15 metra fyrir ofan yfirborðið. Á sömu stundu kannaði mælitæki í bakhlífinni hvort farið hallaðist óeðlilega eða hvort sterkir vindar feyktu því fram og aftur. Ef svo væri hefði kviknað á einum til þremur eldflaugum sem laga hallann og tryggja örugga lendingu.
- Vefsíða NASA um Mars-jeppana. Á þessari vefsíðu er hægt að skoða stuttar kvikmyndir um lendinguna á Mars.
- Vefsíða Planetary Society.