Er hægt að frysta bensín og getur kviknað í því ef svo er?Það er hægt að frysta bensín eins og aðra vökva. Eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Við hvaða hitastig frýs bensín? er bensín blanda efna og hleypur í kekki áður en það frýs alveg. Bensín hefur því ekki eiginlegt frostmark heldur frýs það á ákveðnu bili sem ræðst af samsetningu bensínsins. Þetta bil er oft á milli -40 og -50°C.

Þegar bensín er frosið er það á föstu formi en á því formi kviknar ekki í bensíninu. Til að kveikja í bensíninu þyrfti að byrja á að bræða það og hita það svo örlítið meira þar til nægilega mikið af bensíngufum væru til staðar, eins og hér á myndinni.
- KAUST Discovery. Engines fire without smoke. Eigandi myndarinnar er Jose A. Bernat Bacete/GettyImages. (Sótt 29.7.2019).