Er hægt að frysta bensín og getur kviknað í því ef svo er?Það er hægt að frysta bensín eins og aðra vökva. Eins og hægt er að lesa um í svari við spurningunni Við hvaða hitastig frýs bensín? er bensín blanda efna og hleypur í kekki áður en það frýs alveg. Bensín hefur því ekki eiginlegt frostmark heldur frýs það á ákveðnu bili sem ræðst af samsetningu bensínsins. Þetta bil er oft á milli -40 og -50°C. Þegar efni sem brenna eru hituð nægilega mikið kemur að því að brennanlegar gastegundir stíga upp frá þeim. Það eru þessar gastegundir sem valda því að hægt er að kveikja í hlutum. Það eru nefnilega ekki vökvarnir sjálfir eða föstu efnin sem brenna, heldur brennanlegu gastegundirnar sem losna frá þeim við hitun. Þegar bensín er frosið er það á föstu formi en á því formi kviknar ekki í bensíninu. Til að kveikja í bensíninu þarf fyrst að bræða það og hita svo örlítið meira þar til nægilega mikið af bensíngufum er til staðar. Hugtakið blossamark (e. flash point) er notað um lægsta hitastig efnis sem hægt er að kveikja í brennanlegum gastegundum þess. Blossamark bensíns er í kringum -40°C en það þýðir að ef réttu aðstæðurnar eru til staðar, það er að segja bensíngufan er nægilega þétt og nóg er af súrefni í kring, er mögulegt að kveikja í bensíni með utanaðkomandi hitagjafa, til dæmis neista eða eldi, við þetta hitastig. Eldurinn kulnar þó þegar varmagjafinn er fjarlægður. Brunamark bensíns liggur örfáum gráðum hærra en það er hitastig bensínsins þar sem uppgufun þessara eldfimu gastegunda er nægilega mikil til að viðhalda brunanum. Við brunamark logar eldurinn áfram þó að varmagjafinn sé fjarlægður. Mynd:
- KAUST Discovery. Engines fire without smoke. Eigandi myndarinnar er Jose A. Bernat Bacete/GettyImages. (Sótt 29.7.2019).