Bensín er ekki hreint efnasamband (e. chemical compound) heldur flókin efnablanda (mixture) sem svo er kallað, það er að segja blanda af mörgum efnasamböndum. Helstu efni í því eru vetniskol (hydrocarbons) eins og hexan (C6H14), heptan (C7H16) og oktan (C8H18) auk annarra eldsneytistegunda og íbótarefna sem eru meðal annars oft ætluð einmitt til að lækka frostmark blöndunnar. Nákvæmlega tiltekin efnasamsetning bensíns er breytileg eftir uppruna þess og fyrirhugaðri notkun, til dæmis eftir því hvort ætlunin er að nota það á flugvélar, bíla eða eitthvað annað. Þegar bensín er kælt hagar það sér ekki eins og ferskt vatn sem heldur vökvaeiginleikum sínum þar til komið er niður í frostmark, en þá frýs vatnið allt áður en hitinn heldur áfram að lækka. Bensínið byrjar hins vegar að hlaupa í kekki áður en frostmarki er náð. Þetta þýðir að frostmark bensíns er ekki eins vel skilgreint og frostmark vatns. Um helstu efnasamböndin í bensíni er það að segja að hexan hefur frostmarkið -95,3 °C, heptan -90,6 °C og oktan -56,8 °C (Kaye og Laby, 1968. Tables of Physical and Chemical Constants. London: Longmans). Þar sem yfirleitt er mest af oktani í bensíni er þess að vænta að frostmark bensíns fari næst síðustu tölunni. Hér er um hrein efni að ræða og því eru frostmarkstölurnar vel skilgreindar. Af framangreindu má sjá að við getum ekki átt von á að frostmark ótiltekins bensíns sé einhver tiltekin tala. Í vefhandbókinni NATO Logistics Handbook (Handbók Atlantshafsbandalagsins um flutningatækni) frá október 1997 er til dæmis lýst ýmsum tegundum bensíns sem notað er í flugvélar, farartæki á landi og í skip. Frostmark er þar tilgreint fyrir nokkrar tegundir flugvélabensíns og er á bilinu frá -40 °C niður í -58 °C (Chapter 15: Fuels, Oils, Lubricants and Petroleum Handling Equipment. Annex A. Aide Memoire on Fuels in NATO). Á vefsíðu Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA; International Energy Agency) er hins vegar miðað við að frostmark flugvélabensíns sé -60 °C. Þar er einnig lýst í fáum orðum bensíni á bíla og önnur farartæki á landi og sjó en frostmark er ekki nefnt í þeirri lýsingu. Við látum lesandanum eftir að afla sér frekari upplýsinga um þessi mál á Veraldarvefnum með því að nota leitarorð eins og "gasoline, petrol, freezing point".
Mynd: HB