Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Járn er líkamanum nauðsynlegt til að mynda blóðrauða sem flytur súrefni og koltvíoxíð um blóðrásina. Einnig er það nauðsynlegt fyrir ýmis ensím eða efnahvata til þess að þeir starfi eðlilega. Járnskortur leiðir til blóðleysis en vegna ensímanna veldur hann ýmsum öðrum einkennum í líkamanum eins og nánar verður vikið að hér á eftir.
Heildarmagn járns í líkamanum er 2-4 g og er meira magn í körlum en konum. Mikill meirihluti þessa járns, eða 70-95%, er í blóðrauðanum í rauðu blóðkornunum. Afganginn er að finna í ýmsum frumum víðs vegar í líkamanum. Eðlilegt er að líkaminn tapi um 1 mg af járni á sólarhring, einkum í frumum sem losna af húðinni og úr þekju meltingarfæranna. Þetta tap þarf að bæta upp með fæðunni.
Það magn sem konur tapa með tíðablæðingum skiptir miklu máli og er að meðaltali sem svarar 0,7 mg á sólarhring. Sumar konur tapa þó mun meiru eða allt að 5 sinnum þessu magni og getur það auðveldlega leitt af sér járnskort. Á Vesturlöndum er talið að allt að 25% kvenna á barneignaaldri skorti járn. Járnskortur er því langalgengasti hörgulsjúkdómurinn sem við þekkjum.
Í flestum tilfellum stafar járnskortur af langvarandi blóðmissi, með tíðablóði, blæðingu í meltingarfærum eða þvagfærum. Við blæðingu í meltingarfærum verður saurinn dökkur eða jafnvel kolsvartur og við blæðingu í nýrum eða annars staðar í þvagfærum verður þvagið rautt eða brúnt.
Miklu sjaldnar stafar járnskortur af aukinni þörf, til dæmis þegar einstaklingurinn vex hratt eða á síðari hluta meðgöngu, eða af minna frásogi frá meltingarfærum, til dæmis eftir brottnám magans eða við vissa meltingarfærasjúkdóma. Járnskortur vegna lélegrar fæðu er þekktur en er ákaflega sjaldgæft fyrirbæri.
Einkenni járnskorts geta meðal annars verið aflagaðar neglur.
Sum einkenni járnskorts eru vegna járnskortsblóðleysisins en önnur eru vegna áhrifa á ensím og má nefna fölva, þreytu, minna úthald, særindi í munni og tungu, kyngingarörðugleika, aflagaðar neglur og hand- og fótkulda. Járnskort er tiltölulega auðvelt að greina með blóðrannsókn og ef hann er til staðar er mikilvægt að finna orsökina sem oft er langvarandi blæðing eins og áður greinir. Ef um blóðtap er að ræða verður að stöðva það og síðan gefa járn.
Járn er best að gefa til inntöku, oftast á töfluformi. Einnig er gott að neyta járnríkrar fæðu eins og til dæmis sláturs og lifrar. Þeir sem ekki þola járntöflur geta þurft að fá sprautur. C-vítamín í hóflegu magni (til dæmis 100 mg á dag) eykur nýtingu járns úr fæðu og töflum og er því gott að taka það með.
Mynd:
Magnús Jóhannsson. „Hver eru einkenni járnskorts?“ Vísindavefurinn, 13. september 2006, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=6188.
Magnús Jóhannsson. (2006, 13. september). Hver eru einkenni járnskorts? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6188
Magnús Jóhannsson. „Hver eru einkenni járnskorts?“ Vísindavefurinn. 13. sep. 2006. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6188>.