Heimspekingurinn. Hluti myndar eftir Rembrandt frá árinu 1633.
Heimspekingurinn Sókrates er frægur – eiginlega alræmdur – fyrir barnalegar spurningar sínar. Út frá slíkum sakleysislegum spurningum spunnust langar samræður þar sem Sókrates og samferðamenn hans pældu í ólíkum hlutum, til dæmis hvað sé réttlæti. Sú samræða er rakin í bók Platons, Ríkinu, en um það rit má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Er Ríkið eftir Platon merkasta heimspekirit sem skrifað hefur verið?
Báðir eru þeir Sókrates og Platon taldir meðal merkustu heimspekinga allra tíma, en segja mætti að Platon hafi einmitt lært af Sókratesi listina að spyrja barnalegra spurninga. Lesa má meira um þá báða í svörum Geirs Þ. Þórarinssonar við spurningunum „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið? og Hver var Platon?
Að ofangreindu er vonandi ljóst að barnalegar spurningar geta vel verið heimspekilegar, en ekki er þó þar með sagt að allar spurningar séu heimspekilegar. Auðvelt er að spyrja spurninga, hvort heldur „barnalegra“ eða „fullorðinslegra“, án þess að til komi nokkur snefill af heimspeki. Í kappræðu, til dæmis meðal stjórnmálamanna skömmu fyrir kosningar, ganga spurningar á víxl. Slíkar spurningar eru hins vegar ekki heimspekilegar vegna þess að þeirra er ekki spurt með heimspekilegu hugarfari – þeim er ekki ætlað að verða kveikja að pælingu. Þátttakendur í kappræðu velta ekki fyrir sér hlutunum frá mörgum hliðum og reyna að komast að niðurstöðu; þeir eru að verja einn málstað og reyna að koma höggi á annan. Þess vegna er líka fátt jafn fjarlægt heimspekilegri rökræðu og kappræða. Sá sem spyr heimspekilega spyr í barnslegri einlægni og vegna þess að hann vill pæla í hlutunum. Slíkt er stundum litið hornauga og haft til marks um veikleika þess sem þannig spyr, en einlægni og forvitni eru ekki veikleikar heldur til marks um innri styrk og hugrekki, og sýna að einstaklingurinn er opinn fyrir heiminum og tilbúinn að takast á við hann hvernig sem hann er. Andstæða þess er forherðingin og af henni grær forheimskan. Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
- Hvað merkir 'pæling' og 'að pæla'? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki? eftir Hauk Má Helgason.
- Myndin er fengin af síðunni Image:Rembrandt Harmensz. van Rijn 038.jpg. Wikimedia Commons.