Ungum er það allra best að óttast Guð sinn herra. Þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra.Alls eru erindin níu og voru þau fyrst prentuð árið 1759, undir fyrirsögninni Heilræði, í Hallgrímskveri þar sem ýmsum kvæðum og sálmum Hallgríms var safnað saman í eina bók. Erindin eru varðveitt í fimm handritum og um aldur og tengsl þessara handrita má lesa í útgáfunni Hallgrímur Pétursson, Ljóðmæli 2, sem út kom í Reykjavík árið 2002 (Margrét Eggertsdóttir, Kristján Eiríksson og Svanhildur Óskarsdóttir bjuggu til prentunar). Hallgrímur Pétursson orti ýmis önnur heilræðakvæði, svo sem Ef þú vilt góða friðsemd fá (Ljóðmæli 2:69-70) og Hvað verður fegra fundið (Ljóðmæli 2:113-114) sem einnig mætti kalla heimspekileg kvæði eða kvæði með lífspeki. Þar leggur hann áherslu á heilindi, einlægni, grandvarleik og kurteisi. Lykilinn að hamingjunni telur hann svo meðal annars vera: „Heilbrigði, hjartans kæti, hér með samviskan góð, ástvina eftirlæti fyrir utan trega og móð“ (Ljóðmæli 2:114). Hann orti einnig svokallaðan barnalærdóm, það er trúarleg fræðsluljóð fyrir börn og unglinga þar sem kennisetningar kristindómsins eru færðar í bundið mál. Hallgrímur var alls ekki einn um að gera heilræði að yrkisefni, og voru þau vinsæl bókmenntagrein á 16. og 17. öld. Þennan áhuga má rekja til nýlatnesks kveðskapar og klassískra höfunda fornaldar sem ortu gjarnan um dyggðir og lesti. Í heilræðakvæðum voru dyggðir vegsamaðar en í ádeiluverkum lestir uppmálaðir sem víti til varnaðar. Nefna má önnur skáld frá sama tíma sem ortu heilræðakvæði. Sr. Jón Bjarnason á Presthólum (d. 1634) orti Heilræðavísur út af fjórum mannkostum og einnig Heilræðarímu, sr. Jón Þorsteinsson í Vestmannaeyjum (um 1570–1627) orti Spakmælarímur og sr. Jón Magnússon í Laufási (1601–1675) orti Hústöflu þar sem fólki úr hinum ýmsu stéttum eru gefnar leiðbeiningar um hvaða dyggðir það eigi að temja sér. Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar eru þó langkunnastar þessara kvæða og hafa árum saman verið kenndar börnum í skólum landsins. Mynd: Image:HallgrimurPetursson.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
Hvaða skáld samdi heilræðavísur og hvað má segja um slíkan kveðskap?
Útgáfudagur
7.9.2006
Spyrjandi
Silja Sif, f. 1993
Tilvísun
Margrét Eggertsdóttir. „Hvaða skáld samdi heilræðavísur og hvað má segja um slíkan kveðskap?“ Vísindavefurinn, 7. september 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6176.
Margrét Eggertsdóttir. (2006, 7. september). Hvaða skáld samdi heilræðavísur og hvað má segja um slíkan kveðskap? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6176
Margrét Eggertsdóttir. „Hvaða skáld samdi heilræðavísur og hvað má segja um slíkan kveðskap?“ Vísindavefurinn. 7. sep. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6176>.