Í Íslenskri orðabók Árna Böðvarssonar frá 1983 er eitt flettiorð um það sem hér um ræðir og það er einfaldlega skrifað sem dyg(g)ð þannig að litið er á dygð og dyggð sem tvo jafnréttháa rithætti sama orðs. Skýringin er:
'góður siðferðilegur eiginleiki, siðgæði, mannkostir; trúmennska'Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar frá 1989 er lýsingarorðið dyggur tengt sögninni að duga og sömuleiðis nafnorðið dyggð sem er eingöngu ritað svo. Þrátt fyrir slíkar orðsifjar orka rithættirnir sjálfsagt þannig á nútíma lesanda að flestir tengja dygð við að duga en dyggð við dyggur. Þetta hafa heimspekingar síðari ára notfært sér og reynt að koma því á að dygð vísi fyrst og fremst til merkingarinnar fyrir framan semíkommuna í fyrrgreindri skýringu í Orðabók Árna Böðvarssonar ('siðgæði, mannkostir') Þannig virðist sú hefð vera að festast í sessi og verða marktæk að menn skrifi dygð þegar þeir tengja orðið dug eða mætti, líkt og Aristóteles með gríska orðinu 'Arêté', en dyggð þegar um er að ræða kristnar dyggðir og trúmennsku. P.S. Nokkrum dögum eftir að við birtum þetta svar kom út tímaritshefti þar sem fjallað er í nokkrum ritsmíðum fjögurra höfunda um "Dyggðirnar sjö að fornu og nýju." Þrír þessara höfunda skrifa dyggð en einn skrifar dygð og gerir sérstaklega grein fyrir því. Sjá Gottskálk Þór Jensson, "Dygðir Íslendinga: Frá Gesta Adams frá Bremen til deCODE genetics, Inc." Tímarit Máls og menningar, 61. árg. 2000, 2. hefti, bls. 41-68.