
Það getur verið mjög mismunandi hvað gerist nákvæmlega þegar vöðvi rifnar og eins hversu mikið hann rifnar. Vöðvinn er samsettur úr ýmsum vefjategundum eða frumutegundum. Í fyrsta lagi eru vöðvafrumurnar sem mynda langa þræði sem tengjast beinum eða sinum í báða enda. Í öðru lagi er bandvefur sem myndar himnur sem halda vöðvanum saman og sinar sem tengja vöðvann við bein. Í þriðja lagi er þekjuvefur sem myndar meðal annars æðar og síðast en ekki síst liggja taugar í vöðvanum sem koma boðum til hans. Allar þessar vefjategundir geta orðið fyrir skemmdum þegar vöðvinn rifnar.

Við tiltölulega lítið álag geta einstaka vöðvafrumur og bandvefsþræðir rifnað eða trosnað og valdið því sem flestir þekkja sem harðsperrur. Harðsperrur eru sársauki sem myndast þegar bólgur og viðgerðaferli fara af stað í vöðvanum, meðal annars þegar gera þarf við minni háttar rifnun. Það kallast aftur á móti tognun þegar vöðvi rifnar meira og á stærra svæði þannig að við finnum strax fyrir sársauka. Það sem kannski er betur þekkt sem rifinn vöðvi er þegar vöðvinn rifnar allur í sundur á stóru svæði þannig að vöðvaþræðirnir og æðar á því svæði slitna í sundur og jafnvel líka taugafrumur sem liggja þar um. Þá geta einnig komið stórar rifur í himnur og annan bandvef, allt eftir því hversu mikill áverkinn er. Vöðvar hafa talsvert mikla viðgerðarhæfileika þannig að þegar um minni háttar rifnun er að ræða tekst vöðvanum oft að gera við sig og verða jafngóður aftur. Stundum verður áverkinn hins vegar það mikill að vöðvafrumur tapast (deyja og eyðast). Þá hefur vöðvinn einhverja möguleika á að mynda nýjar vöðvafrumur en því eru þó takmörk sett hversu mikið líkaminn getur myndað af nýjum frumum. Áverkinn getur líka verið það mikill að skurðaðgerð þurfi til að sauma vöðvann saman aftur, til dæmis ef vöðvi rifnar í heild sinni á öðrum endanum frá sin eða beini. Ekki er víst að vöðvi sem verður fyrir svo miklu hnjaski nái sér að fullu aftur en það fer eftir eðli skemmdanna og þeim aðferðum sem beitt er við að koma honum saman aftur. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um vöðva, til dæmis:
- Hvers vegna stífna vöðvar upp við áreynslu og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir það? eftir Þórarin Sveinsson
- Er mikil mjólkursýrumyndun slæm fyrir vöðva í uppbyggingu? eftir Þórarin Sveinsson
- Hvernig stækka vöðvarnir? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra? eftir Jón Má Halldórsson