Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra?

Jón Már Halldórsson

Helstu flokkar vöðvavefja hjá hryggdýrum eru sléttir vöðvar, þverrákóttir vöðvar og hjartavöðvinn. Þessir vöðvavefir hafa mismunandi eiginleika og útlit.



Þverrákóttir vöðvar samanstanda af löngum frumum sem geta orðið allt að 4 cm á lengd. Þessar frumur eru sívalar og innihalda marga kjarna (ekki einn kjarna eins og algengt er með aðrar frumur). Byggingu vefjategundarinnar er þannig háttað að frumurnar liggja samhliða og á milli þeirra er þunnt slíður sem nefnist endomysium. Utan um knippi af vöðvafrumum liggur þykkari himna sem nefnist perimysium. Stoðvefsslíður er nefnist epimysium liggur utan um allan vöðvann. Í mannslíkamanum er um 40% af þyngd manna þverrákóttir vöðvar, eða beinagrindarvöðvar eins og þeir eru oft kallaðir. Beinagrindarvöðvarnir eru stærsti einstaki vefjaflokkur mannslíkamans sem og hjá öðrum spendýrum.

Hreyfitaugaþræðir sem liggja til vöðva greinast í perymysium-himnu vöðvans og hver grein tengist yfirborði einnar vöðvafrumu. Einn taugaþráður getur þannig tengst mörgum tugum vöðvafruma þó stundum tengist hver taugaþráður aðeins einni frumu. Þessi tilhögun er breytileg eftir vöðvum og helgast geta vöðvans til fínhreyfinga mjög af þessu; þannig að vöðvar þar sem hver taugaþráður tengist aðeins einni frumu hafa betri fínhreyfingar. Við tauga-vöðvamót losar taugafruman boðefni sem kallast asetílkólín. Þegar boðefni þetta kemst í snertingu við vöðvafrumuna afskautast frumuhimna vöðvafrumunnar með þeim afleiðingum að himnan verður gegndræp fyrir natríum jónum og leiðir það til samdráttar hjá vöðvafrumunum.

Ef þverrákóttar vöðvafrumur eru skoðaðar í smásjá má sjá einhvers konar rákir eða bönd innan í frumunum. Þessi bönd eru svokölluð samdráttarprótein sem gerir vöðvafrumunum kleyft að dragast saman og gerir því allar hreyfingar dýrsins mögulegar. Samdráttarpróteinin eru af tveimur megingerðum, aktín og myósín-örþræðir. Mýósín-þræðirnir eru mun þykkari og þeir eru áberandi ef vöðvafruma er skoðuð í smásjá.

Við samdrátt vöðvafrumunnar tengist hver mýósín þráður aktíni í báðar áttir fyrir tilstuðlan kalsíums og ATP (orkuríkrar fosfórsameindar). Annað atriði sem gerir samdráttinn mögulegan er að hinn endi aktínþráðanna er bundinn í festingar sem leiða samdráttinn annað hvort í frumuhimnuna eða þá í annan samdráttarhóp.

Þess má geta að indíánar sem búa í Amazonskógum Brasilíu hafa notað eitur sem nefnist Guarare og er framleitt í húð eiturörvafrosksins. Þeir drepa veiðidýr með því að bera eitrið á örvar. Eitrið hindrar verkan asetílkólíns og kemur þannig í veg fyrir að hreyfitaugarnar nái að örva vöðvanna til samdráttar. Þetta orsakar það að beinagrindavöðvarnir lamast og dýrið getur ekki hreyft sig.

Fjöldi þverrákóttra vöðvafruma í smábarni er sá sami og í fullorðnum manni. Þetta segir okkur að vöðvafrumur af hvaða vefjaflokki sem er skipta sér ekki eftir að ákveðnum aldri er náð. Lyftingar auka til að mynda ekki fjölda vöðvafruma heldur stækka þær einungis. Þó getur fjöldi vöðvafruma verið breytilegur milli einstaklinga.

Sléttir vöðvar. Sléttar vöðvafrumur eru mun minni en þverrákóttar vöðvafrumur eða um 250 µm á lengd sem þó telst vera töluverð stærð á frumu. Þegar þessar frumur eru skoðaðar í smásjá sjást engar þverrákir líkt og hjá þverrákóttum vöðvafrumum. Einn kjarni er miðlægt í hverri frumu og er hann teygður. Frumuhóparnir mynda lög og liggja frumurnar eins í hverju lagi. Hver frumuhópur er umlukin af stoðvefshimnu (e. perimysium) og epimysium umlykur stóra frumuhópa.

Slétta vöðva er meðal annars að finna í æðaveggjum, meltingavegi, kynfærum (til dæmis legvöðvinn), öndunarvegi, kirtlum og í húðinni. Ýmsir hormónar fara með stjórn samdráttar sléttra vöðva og einnig dultaugakerfið.

Hjartavöðvinn. Frumur hjartavöðvans eru yfirleitt með einn miðlægan kjarna. Frumurnar tengjast hver annari og mynda halarófu. Utan um hverja keðju er stoðvefshimna (e. endomysium). Þegar hjartavöðvavefurinn er skoðaður í smásjá má sjá þykka línu milli frumna í keðjunni. Þverrákir eru sýnilegar í hjartafrumum en eru ekki eins áberandi og hjá þverrákóttum vöðvafrumum. Samdráttur í hjartavöðvafrumum er mögulegur án þess að örvun frá taugakerfi komi við sögu. Ef hjarta úr nýlega dauðu dýri er fjarlægt þá heldur hjartað áfram að slá í stutta stund. Þetta er hvorki mögulegt hjá þverrákóttum né sléttum vöðvum.



Heimild:
  • Junquera L.C. og Carnero J. Basic Histology 7. útg., 1989.

Myndir: Penn State University - Biochemistry & Molecular Biology

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

12.11.2002

Spyrjandi

Eva María, f. 1986

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2853.

Jón Már Halldórsson. (2002, 12. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2853

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2853>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra?
Helstu flokkar vöðvavefja hjá hryggdýrum eru sléttir vöðvar, þverrákóttir vöðvar og hjartavöðvinn. Þessir vöðvavefir hafa mismunandi eiginleika og útlit.



Þverrákóttir vöðvar samanstanda af löngum frumum sem geta orðið allt að 4 cm á lengd. Þessar frumur eru sívalar og innihalda marga kjarna (ekki einn kjarna eins og algengt er með aðrar frumur). Byggingu vefjategundarinnar er þannig háttað að frumurnar liggja samhliða og á milli þeirra er þunnt slíður sem nefnist endomysium. Utan um knippi af vöðvafrumum liggur þykkari himna sem nefnist perimysium. Stoðvefsslíður er nefnist epimysium liggur utan um allan vöðvann. Í mannslíkamanum er um 40% af þyngd manna þverrákóttir vöðvar, eða beinagrindarvöðvar eins og þeir eru oft kallaðir. Beinagrindarvöðvarnir eru stærsti einstaki vefjaflokkur mannslíkamans sem og hjá öðrum spendýrum.

Hreyfitaugaþræðir sem liggja til vöðva greinast í perymysium-himnu vöðvans og hver grein tengist yfirborði einnar vöðvafrumu. Einn taugaþráður getur þannig tengst mörgum tugum vöðvafruma þó stundum tengist hver taugaþráður aðeins einni frumu. Þessi tilhögun er breytileg eftir vöðvum og helgast geta vöðvans til fínhreyfinga mjög af þessu; þannig að vöðvar þar sem hver taugaþráður tengist aðeins einni frumu hafa betri fínhreyfingar. Við tauga-vöðvamót losar taugafruman boðefni sem kallast asetílkólín. Þegar boðefni þetta kemst í snertingu við vöðvafrumuna afskautast frumuhimna vöðvafrumunnar með þeim afleiðingum að himnan verður gegndræp fyrir natríum jónum og leiðir það til samdráttar hjá vöðvafrumunum.

Ef þverrákóttar vöðvafrumur eru skoðaðar í smásjá má sjá einhvers konar rákir eða bönd innan í frumunum. Þessi bönd eru svokölluð samdráttarprótein sem gerir vöðvafrumunum kleyft að dragast saman og gerir því allar hreyfingar dýrsins mögulegar. Samdráttarpróteinin eru af tveimur megingerðum, aktín og myósín-örþræðir. Mýósín-þræðirnir eru mun þykkari og þeir eru áberandi ef vöðvafruma er skoðuð í smásjá.

Við samdrátt vöðvafrumunnar tengist hver mýósín þráður aktíni í báðar áttir fyrir tilstuðlan kalsíums og ATP (orkuríkrar fosfórsameindar). Annað atriði sem gerir samdráttinn mögulegan er að hinn endi aktínþráðanna er bundinn í festingar sem leiða samdráttinn annað hvort í frumuhimnuna eða þá í annan samdráttarhóp.

Þess má geta að indíánar sem búa í Amazonskógum Brasilíu hafa notað eitur sem nefnist Guarare og er framleitt í húð eiturörvafrosksins. Þeir drepa veiðidýr með því að bera eitrið á örvar. Eitrið hindrar verkan asetílkólíns og kemur þannig í veg fyrir að hreyfitaugarnar nái að örva vöðvanna til samdráttar. Þetta orsakar það að beinagrindavöðvarnir lamast og dýrið getur ekki hreyft sig.

Fjöldi þverrákóttra vöðvafruma í smábarni er sá sami og í fullorðnum manni. Þetta segir okkur að vöðvafrumur af hvaða vefjaflokki sem er skipta sér ekki eftir að ákveðnum aldri er náð. Lyftingar auka til að mynda ekki fjölda vöðvafruma heldur stækka þær einungis. Þó getur fjöldi vöðvafruma verið breytilegur milli einstaklinga.

Sléttir vöðvar. Sléttar vöðvafrumur eru mun minni en þverrákóttar vöðvafrumur eða um 250 µm á lengd sem þó telst vera töluverð stærð á frumu. Þegar þessar frumur eru skoðaðar í smásjá sjást engar þverrákir líkt og hjá þverrákóttum vöðvafrumum. Einn kjarni er miðlægt í hverri frumu og er hann teygður. Frumuhóparnir mynda lög og liggja frumurnar eins í hverju lagi. Hver frumuhópur er umlukin af stoðvefshimnu (e. perimysium) og epimysium umlykur stóra frumuhópa.

Slétta vöðva er meðal annars að finna í æðaveggjum, meltingavegi, kynfærum (til dæmis legvöðvinn), öndunarvegi, kirtlum og í húðinni. Ýmsir hormónar fara með stjórn samdráttar sléttra vöðva og einnig dultaugakerfið.

Hjartavöðvinn. Frumur hjartavöðvans eru yfirleitt með einn miðlægan kjarna. Frumurnar tengjast hver annari og mynda halarófu. Utan um hverja keðju er stoðvefshimna (e. endomysium). Þegar hjartavöðvavefurinn er skoðaður í smásjá má sjá þykka línu milli frumna í keðjunni. Þverrákir eru sýnilegar í hjartafrumum en eru ekki eins áberandi og hjá þverrákóttum vöðvafrumum. Samdráttur í hjartavöðvafrumum er mögulegur án þess að örvun frá taugakerfi komi við sögu. Ef hjarta úr nýlega dauðu dýri er fjarlægt þá heldur hjartað áfram að slá í stutta stund. Þetta er hvorki mögulegt hjá þverrákóttum né sléttum vöðvum.



Heimild:
  • Junquera L.C. og Carnero J. Basic Histology 7. útg., 1989.

Myndir: Penn State University - Biochemistry & Molecular Biology...