Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Auguste Comte (1798-1857) kynnti grundvallarstef pósitífismans til sögunnar snemma á nítjándu öld í ritgerðum á borð við „Considérations philosophiques sur la science et les savants“ (1825) og skilgreindi og útfærði ítarlega í Cours de philosophie positive sem kom út í sex bindum á árunum 1830-1842 og Système de politique positive, ou traité de sociologie instituant la religion de l'Humanité sem kom út í fjórum bindum á árunum 1851-1854. Í vissum skilningi má því segja að pósitífismi sé einfaldlega heimspeki Auguste Comte.
Auguste Comte (1798-1857).
Nafnið sjálft (fr. positivisme) er dregið af franska orðinu „positif“ sem vísar í það sem er raunverulegt, öruggt og gefið í gegnum reynslu. Pósitífismi dregur því nafn sitt af þekkingarfræðilegri afstöðu en Comte taldi að öll raunveruleg þekking hlyti að byggja á reynslu og röklegri og stærðfræðilegri greiningu mannlegrar skynsemi á þeirri reynslu. Eindregin raunhyggja í þekkingarfræðilegu tilliti er grundvallarþáttur pósitífisma í öllum þeim myndum sem hann hefur tekið á sig.
En póstífismi Comte fól miklu meira í sér en þekkingarfræði. Hann var heildstætt heimspekilegt kerfi sem tók til allra sviða mannlífs, sögu og samfélags. Comte taldi að saga mannkynsins skiptist í þrjú stig, sem hvert um sig hafði bæði sérstök félagsleg og þekkingarfræðileg einkenni sem kölluðust á. Fyrsta stigið var stig trúarbragða sem viðtekinnar uppsprettu mannlegrar þekkingar og hernaðar sem ráðandi einkenni á samfélagsgerðinni. Annað stigið var tímabil frumspekilegra rannsókna í þekkingarfræðilegu tilliti og lagatækni í félagslegu tilliti. Lokaskeiðið (sem Comte taldi að væri svo til nýhafið eða í þann veginn að hefjast) var tímabil pósitífískrar þekkingar annars vegar og iðnaðar hins vegar. Pósitífismi Comte lagði mikla áherslu á hina vísindalegu aðferð sem einu leið mannsins að raunverulegri þekkingu. Í fyrstu þremur bindum Cours gerði Comte grein fyrir pósitífískri þekkingu á sviði stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Síðustu þrjú bindin voru hins vegar helguð æðstu vísindunum í skilningi Comte, félagsfræðinni eða „eðlisfræði samfélagsins“ sem setti sjálft samfélagið undir smásjá hinnar vísindalegu aðferðar.
Cours varð feikilega vinsælt rit og þótti gefa gott yfirlit yfir sögu mannsandans og féll að hugmyndum þeirra sem lögðu áherslu á þekkingarfræðilega raunhyggju. En þeir sem höfðu mest hampað pósitífisma Comte sneru hins vegar baki við þeim kenningum sem komu fram í Système de politique positive. Comte leit á Cours sem nokkurs konar inngang eða yfirlit yfir pósitífíska þekkingu mannsins en sjálf markmið pósitífismans voru að hans mati fólgin í raunverulegum félagslegum úrbótum. Slíkar umbætur yrðu aðeins mögulegar ef sjálfur pósitífisminn tæki á sig trúarlegt yfirbragð og yrði að afli sem sameinaði allt mannkynið í trú á sjálft sig en ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri. Gagnstætt því sem mætti halda af þeirri mynd sem dregin er upp í Cours þá felur þessi framtíðarsýn pósitífismans ekki í sér róttæka vísindahyggju (e. scientism). Vísindi gegna vissulega mikilvægu hlutverki sem verkfæri í opinberri stefnumótun stjórnmálanna og eru hluti af félagslegum veruleika mannsins en þau eiga ekki að njóta forræðis yfir manninum eða samfélaginu í heild. Skynsemi mannsins er þjónn hjartans og Comte leggur mikla áherslu á mikilvægi „ósérplæginnar góðmennsku“ (fr. altruisme) eða ástar sem grundvallar þáttar mannlegs samfélags.
Eins og áður sagði átti pósitífismi Comte í þeirri mynd sem hann tók á sig í seinni verkum hans ekki upp á pallborðið meðal áhrifamestu fylgismanna hans úr ranni raunhyggjunnar. Það liggur nærri að snemma hafi verið dregin upp mynd af „góðum Comte“ og „slæmum Comte“ og meiri áhersla verið lögð á pósitífisma sem þekkingarfræðilega kenningu um sögu- og heimspeki vísindanna. Í því samhengi má meðal annars benda á bók Johns Stuarts Mill (1806-1873) Auguste Comte and Positivism (1865). Sú ráðandi mynd sem var dreginn upp af pósitífisma, í fræðilegu samhengi, var þegar á nítjándu öld ekki í raunverulegu samræmi við hugmyndir Comte sjálfs.
Hof pósitífista í Brasilíu.
Engu að síður reyndist pósitífismi Comte gríðarlega áhrifamikil hugmyndafræði sem hafði bæði áhrif á fræðilega umræðu og reyndist mótandi afl í samfélagslegum skilningi meðal margra þjóða. Sú aðferðafræði sem fólst í pósitífískri nálgun Comte á samfélagslegum rannsóknarefnum lagði grunninn að félagsfræði nútímans og hafði áhrif á verk Émile Durkheim (1858-1917). Pósitífismi varð samofinn þáttur þeirra framfarahyggju sem má segja að hafi verið ráðandi hugmyndafræði Vesturlanda undir lok nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu. En fyrri heimsstyrjöldin breytti öllu. Sú trú á mannkynið og hina vísindalegu aðferð sem pósitífisminn boðaði virtist hafa snúist upp í andhverfu sína í blóðblaði skotgrafanna. Einn þáttur hinnar pósitífísku söguskoðunar var einmitt sú að stríð „siðaðra“ þjóða ættu að heyra sögunni til. Á sama tíma höfðu leiðandi félagsfræðingar á borð við Georg Simmel (1858-1918) og Max Weber (1864-1920) snúið baki við aðferðafræði pósitífismans í rannsóknum sínum.
En pósitífisminn lifði áfram í sinni þekkingarfræðilegu mynd og sem heimspekilegur og vísindasögulegur grundvöllur kenninga um eðli vísinda og þekkingar. Þannig er heimspeki þeirra fræðimanna sem kenndir eru við Vínarhringinn gjarnan nefnd „rök-pósitífismi“ eða „ný-pósitífismi“ en má að sönnu einnig kalla rökfræðilega raunhyggju. Heimspeki rök-pósitífismans byggði á forsendum sem má finna stað í pósitífisma Comte: sönn þekking byggir á reynslu og rökgreiningu. Meðlimir Vínarhringsins á borð við Moritz Schlick (1882-1936) og Rudolf Carnap (1891-1970) studdust bæði við raunhyggju í anda pósitífisma Comte en lögðu auk þess til rökgreiningu í anda Tractatus Logico-Philosophicus (1921) eftir Ludwig Wittgenstein (1889-1951).
Eftir því sem leið á tuttugustu öldina sætti hin pósitífíska rökgreiningarheimspeki Vínarhringsins sífellt harðari gagnrýni vegna þeirrar myndar sem hún dró upp af vísindum. Samkvæmt þessari mynd voru vísindi hlutlæg rannsókn á reynslustaðreyndum sem eykur í sífellu við þekkingarforða mannsins og er hafin yfir gagnrýni. Heimspekingar og vísindasagnfræðingar á borð við Thomas Kuhn (1922-1996) og Richard Rorty (1931-2007), svo einhverjir séu nefndir, hafa síðan þá grafið nær algjörlega undan hugmyndafræði ný-pósitífismans. En þar sem gjarnan er vísað til pósitífisma Comte sem nokkurs konar fyrirrennara rökfræðilegrar raunhyggju Vínarhringsins vill brenna við að ekki sé gerð réttmæt grein fyrir kenningum Comte í ljósi verka hans sjálfs. Þannig má sjá að gagnstætt ný-pósitífisma Vínarhringsins lagði Comte mikla áherslu á að vísindi væru í eðli sínu félagsleg og að það væri fyrir öllu að pósitífísk þekking mannsins þjónaði pólitískum og samfélagslegum markmiðum sem yrðu aldrei skilgreind „vísindalega.“ Pólitísk markmið og félagslegt eðli mannsins er því í forgrunni pósitífisma Comte og skilyrði allra vísinda.
Fáir, ef einhverjir, mundu gangast við því dag að vera pósitífistar, eða að aðhyllast pósitífisma, þó svo að viðkomandi myndi hiklaust taka undir heimspekilega raunhyggju. Svo virðist sem að „pósitífismi“ hafi í samtímanum tekið á sig mynd skammaryrðis. Í hversdagslegri umræðu er pósitífismi notað sem nokkurs konar samheiti yfir viðhorf sem fela í sér bæði skilyrðislausa trú á gildi hinnar „vísindalegu aðferðar“ sem hinnar einu réttmætu aðferðar við að leiða í ljós hlutlæga þekkingu á veruleikanum og ótvírætt réttmæti þess að félagsleg og jafnvel siðferðileg álitamál séu algjörlega undirseld niðurstöðum vísindamanna.
Myndir: