Eftir að Wittgenstein kom aftur til Cambridge hafði honum snúist hugur og nú gerði hann sér talsvert aðrar hugmyndir um heimspekina en hann hafði gert í Tractatus. Á fjórða og fimmta áratugnum vann hann að bókinni Philosophical Investigations sem hann hætti þó á síðustu stundu við að gefa út 1945 en lét eftir sig liggja heimild til útgáfu hennar að sér látnum. Philosophical Investigations er til marks um síðari Wittgenstein og var hún gefin út 1953. Meðal annarra útgefinna bóka með verkum Wittgensteins má nefna Bláu bókina og Brúnu bókina (útgefnar 1958) og Philosophical Remarks (útgefin 1963), sem innihalda bréf, fyrirlestranótur og önnur smærri skrif sem safnað var saman að Wittgenstein látnum. Í Philosophical Investigations er tungumálið í forgrunni, rétt eins og í Tractatus, en hugmyndirnar um það hafa breyst. Hjá fyrri Wittgenstein felst til dæmis merking í því að birta heiminn, orðin eru eins og myndir af heiminum, en hjá síðari Wittgenstein felst merkingin í notkun orðanna. Áherslan færist þannig á notkun tungumálsins, hvernig hún geti verið margvísleg og hvernig þessi margvíslega notkun móti ýmislegt í því sem við gerum. Meðal annars fjallar Wittgenstein þarna um það hvernig við förum að því að fylgja reglu. Hann setur það upp sem þverstæðu að við getum nokkurn tíma sagt að við séum að fylgja einni reglu fremur en annarri (um þetta má lesa hér). Hann fjallar um það sem hann kallar tungumálaleiki (e. language games) og um það sem hann nefnir ættarsvip (e. family resemblance), sem lesa má um hér. Í Philosophical Investigations setur Wittgenstein líka fram hin svokölluðu einkamálsrök sín (e. private language argument), en þar heldur hann því fram að óhugsandi sé að einhver einn aðili geti átt sér einkatungumál sem hann noti aðeins fyrir sjálfan sig. Tungumálið er, samkvæmt einkamálsrökunum, í eðli sínu félagslegt fyrirbæri.
Framlag Wittgensteins til heimspeki 20. aldar var verulegt. Tractatus Logico Philosophicus hafði mikil áhrif á fylgismenn rökfræðilegrar raunhyggju (e. logical empiricism eða logical positivism), sem er heimspekistefna sem kom fram í Vínarborg á árunum milli stríða og hafði mikil og mótandi áhrif á þann anga heimspeki 20. aldar sem kallaður hefur verið rökgreiningarheimspeki (e. analytical philosophy, sjá Hvað er heimspekihugtakið sannreynsla, eða það sem er kallað verification á ensku? og Hver er meginmunurinn á rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki?). Einnig einkenndist svonefnd mannamálsheimspeki (e. ordinary language philosophy) sem kom fram um miðbik 20. aldar af áhrifum frá Philosophical Investigations. Áhrifa Wittgensteins, bæði fyrri og síðari, gætir enn og er mikið vísað í verk hans og þau rannsökuð í þaula. Eins og nærri má geta eru það fyrst og fremst hugmyndir Wittgensteins um tungumálið og hegðun okkar í tengslum við það sem hafa orðið heimspekingum sem á eftir honum fóru rannsóknarefni. Myndir:
- fubap.org. Sótt 30.12.2010.
- vienna.unlike.net. Sótt 30.12.2010.