Á dögum Galenosar voru ýmsir skólar innan læknisfræðinnar, sem greindi á um flesta hluti, svo sem sjúkdómsgreiningu og orsakir sjúkdóma, gildis krufningar og þar fram eftir götunum. Þannig kenndi svonefndur rökhyggjuskóli í læknisfræði að læknir yrði að byggja á traustum grunni kenninga í heimspeki og vísindum, þar á meðal á líffærafræði. Á hinn bóginn kenndi raunhyggjuskólinn eða empíristarnir að læknir ætti einungis að taka mið af einkennum sjúklingsins og byggja meðferðina á því sem hefði áður reynst gagnlegt við svipuðum einkennum. En umfram það væri sjúkdómsgreining sem byggðist á ágiskun um orsakir sjúkdóma tilgangslaus og sama gilti um líffærafræði, sem byggði á krufningu eða skurðaðgerðum. Enda töldu þeir ekki hægt að vita hvort innyfli héldust óbreytt þegar líkami eða lík væri skorið upp til þess að skoða líffærin heldur væri þvert á móti sennilegt að það að opna líkamann til að fylgjast með líffærum hefði áhrif á starfsemi þeirra og ylli breytingum á henni. Hinir svonefndu meþódistar eða aðferðafræðisinnar voru enn róttækari en þeir gáfu lítið fyrir uppsafnaða reynslu empíristanna og kærðu sig enn síður um kenningar rökhyggjumannanna. Þeir héldu því á hinn bóginn fram að allt sem þyrfti að læra til að verða læknir mætti tileinka sér á sex mánuðum. En Galenos tilheyrði engum þessara skóla heldur kaus hann að taka frá hverjum og einum það sem honum virtist rétt eins og hann virðist líka hafa gert í heimspeki. Í fornöld voru einmitt sterk tengsl milli læknisfræði og heimspeki og Galenos var ætíð afar áhugasamur um heimspekina. Margir læknar af skólum empírista og meþódista voru reyndar einhvers konar efahyggjumenn en Galenos hafði óbeit á þeim síðarnefndu. Raunar var honum almennt í nöp við efahyggjumenn. Hann var á hinn bóginn einlægur aðdáandi Platons og fylgdi honum í flestu en var einnig aðdáandi Aristótelesar og margar af kenningum hans eru byggðar á heimspeki þeirra ekki síður en á læknisfræði Hippókratesar og annarra lækna eins og Díoskúrídesar eða á eigin rannsóknum. Hann hélt því líka fram, eins og frægt varð, að góður læknir yrði jafnframt að vera framúrskarandi heimspekingur. Frá Hippókratesi fékk Galenos til að mynda í arf vessakenninguna, það er að segja þá kenningu að ýmiss konar sjúkdóma mætti rekja til ójafnvægis líkamsvessanna fjögurra: blóðs, slíms, galls og svartagalls. Röskun á þessu jafnvægi gat líka haft áhrif á andlegt jafnvægi manns. En frá Platoni fékk hann kenningu sína um sálina og þrískiptingu hennar sem hann varði í löngu máli gagnvart sálarkenningu stóumanna í ritinu Um kenningar Hippókratesar og Platons. Hann taldi að vessarnir tengdust líffærum eða líkamshlutum eins og hlutar sálarinnar. Slím samsvaraði höfðinu, blóðið hjartanu og svartagall lifrinni en gult gall gallblöðrunni. Á sama hátt tengdist skynsemishluti sálarinnar höfðinu, skapið hjartanu og löngun lifrinni. Samkvæmt kenningunni mátti því rekja langvarandi bráðlæti, mikla depurð og þess háttar vanlíðan til ójafnvægis vessanna. Vessakenningin tengdist síðan kenningunni um eiginleikana fjóra, það er að segja heitt og kalt, þurrt og vott. Gallið var talið vera heitt og þurrt en svartagallið kalt og þurrt, blóðið heitt og vott en slímið kalt og vott. Þessir eiginleikar voru einnig taldir einkenna frumefnin fjögur: eld, loft, vatn og jörð. Þannig samsvarar gallið eldi, svartagall jörðu, blóðið lofti og slímið vatni. Lækning gat svo falist í því að koma á jafnvægi með því að gefa sjúklingi lyf eða jurtir sem styrktu einhverja eiginleika eða með blóðláti. Auk þess að styðjast við kenningar annarra gerði Galenos einnig eigin athuganir, til dæmis með krufningu dýra en sennilega ekki manna. Niðurstöður athugana sinna yfirfærði hann á mannslíkamann. Krufningarnar, þar á meðal krufningar á öpum, gáfu honum meðal annars aukinn skilning á taugakerfinu og æðakerfinu og hann virðist hafa verið fyrstur til þess að lýsa fjórum hólfum hjartans. Rökfræðirit Aristótelesar voru honum innblástur um einhvers konar vísindaheimspeki en Galenos skrifaði meðal annars bækur um ýmis af rökfræðiritum Aristótelesar, þar á meðal um Umsagnirnar, Um túlkun og Fyrri og Síðari rökgreiningar og virðist líka hafa lagt stund á rökfræði sjálfur. Rit hans um rökfræði eru að mestu glötuð. Galenos var með ólíkindum afkastamikill rithöfundur. Hann samdi hátt á annað hundrað bóka og þótt einungis hluti af ritsafni hans sé varðveittur fyllir hann tuttugu bindi. Hans eigið bókasafn varð eldi að bráð árið 192 og þá glötuðust margar bóka hans, sem hann reyndi þó eftir getu að endurskrifa. Varðveitt ritsafn hans er samt sem áður stærsta varðveitt ritsafn allra forngrískra höfunda og nemur um 10% af öllum varðveittum forngrískum textum frá upphafi fram á miðja 4. öld e.Kr. Heimildir og ítarefni
- Hankinson, R.J. (ritstj.) The Cambridge Companion to Galen (Cambridge: Cambridge University Press, 2008).
- Nutton, Vivian. Ancient Medicine (London: Routledge, 2004).
- Wikipedia.org. Sótt 17.10.2011.