Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrsta leikjatölvan var Magnavox Odyssey sem hönnuð var af Ralph Baer. Árið 1951 fékk Baer þá hugmynd að áhugavert væri að búa til einhvers konar gagnvirkt sjónvarp sem nota mætti til leikja. Hann hafði þó ekki tækifæri til að búa til nokkuð slíkt fyrr en allmörgum árum seinna.
1966 fékk Baer loksins fjármagn til að þróa hugmynd sína frekar. Með hjálp nokkurra aðstoðarmanna og tæknimanna smíðaði hann alls sjö frumgerðir; sú síðasta var fullgerð árið 1968 og gengur jafnan undir nafninu „brúni kassinn“ eða „Brown Box“. Raftækjaframleiðandinn Magnavox var svo fenginn til að fjöldaframleiða leikjatölvuna undir nafninu Magnavox Odyssey.
Í fyrstu leikjatölvunni var meðal annars hægt að spila mjög frumstæðan borðtennisleik.
Magnavox Odyssey var sett á markað árið 1972. Með henni fylgdu 12 leikjaspjöld þannig að skipta mátti um tölvuleik með því að setja nýtt spjald í þar til gerða rauf á tölvukassanum. Einnig fylgdu tveir stýripinnar. Fleiri leikir fyrir tölvuna voru svo seldir sér. Meðal var annars hægt að kaupa leikjapakka með fjórum skotleikjum og leikjabyssu.
Odyssey var um margt ólík nútímaleikjatölvum. Hún var ekki byggð á stafrænni tækni eins og nær allar tölvur nú á dögum heldur var hún flaumræn; ennfremur gekk hún fyrir rafhlöðum í stað þess að fá straum gegnum rafmagnssnúru.
Leikirnir sjálfir voru líka mjög frumstæðir. Í þeim var ekkert hljóð og myndgæðin voru afar léleg miðað við það sem nú gerist; upplausn var mjög gróf og myndin var svarthvít. Til að bæta upp fyrir þetta fylgdu litaglærur með tölvunni sem hægt var að festa á sjónvarp; þannig var til dæmis hægt að nota glæru með mynd af borðtennisborði í borðtennisleik, og glæra með mynd af rúllettuhjóli fylgdi rúllettuleik. Leikmenn þurftu svo sjálfir að sjá um að telja stigin sín með þar til gerðum spilapeningum og öðrum fylgihlutum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2006. Nafn eins höfundar vantar, og er hann beðinn um að senda ritstjórn Vísindavefsins tölvupóst svo bæta megi því við.
Guðrún Ósk Kristjánsdóttir og Hlynur Jökull Skúlason. „Hver var fyrsta leikjatölvan?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2006, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6082.
Guðrún Ósk Kristjánsdóttir og Hlynur Jökull Skúlason. (2006, 24. júlí). Hver var fyrsta leikjatölvan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6082
Guðrún Ósk Kristjánsdóttir og Hlynur Jökull Skúlason. „Hver var fyrsta leikjatölvan?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2006. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6082>.