Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er kvikasilfur hættulegt fyrir heilsuna og hvernig berst það í líkamann?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Kvikasilfur er frumefni og tilheyrir hópi mjúkra málma. Eins og við á um flest önnur frumefni finnst það oftast sem efnasamband. Kvikasilfur er að finna í jarðskorpunni, í jarðvegi, bergi og vatni og jafnvel að einhverju leyti í andrúmsloftinu. Það kemur fyrir sem frumefnið kvikasilfur sem er fljótandi málmur eða gufa, í ólífrænum söltum og í lífrænum efnasamböndum. Áhrifin eru breytileg eftir því hvaða form er um að ræða en öll eru þau eitruð í tilteknum skömmtum. Kvikasilfursgufa og lífræna efnasambandið metýlkvikasilfur eru dæmi um mjög eitruð form.

Kvikasilfur hefur verið notað í iðnaði síðan á 19. öld. Það hefur verið notað í margs konar lyf, til dæmis sýkla-, þvagræsi- og hægðalosandi lyf. Einnig er það eitt af nokkrum efnum í amalgami eða silfurfyllingum sem gagnast til að endurbyggja skemmdar eða brotnar tennur. Kvikasilfur er notað í rafhlöður í úr og orkusparandi flúrljósaperur. Þegar kol eru brennd í iðnaði losnar kvikasilfur út í andrúmsloftið og einnig berst það út í sjó og vötn með iðnaðarúrgangi.

Meginuppistaða í silfurfyllingum er kvikasilfur, silfur, tin, kopar og sink. Kvikasilfrið er nauðsynlegt til að binda málmana saman og mynda hart og stöðugt fyllingarefni.

Kvikasilfur er þungmálmur og eyðist því ekki í náttúrunni heldur magnast styrkur þess upp í fæðukeðjum. Þannig getur styrkur kvikasilfurs orðið hár í fiskum ofarlega í fæðukeðjum, eins og túnfiski. Styrkurinn getur orðið enn hærri í fuglum og spendýrum sem lifa á fiskunum, þar á meðal mönnum. Helstu áhrif hás kvikasilfursstyrks á dýr ofarlega í fæðukeðjum eru truflanir í vexti, þroskun og æxlun, óeðlileg hegðun og dauði.

Kvikasilfur kemst í líkamann við innöndun, um munn eða í gegnum húðina. Ef kvikasilfursgufa sleppur út í andrúmsloftið, til dæmis úr hitamælum, rafhlöðum eða ljósaperum sem brotna, er hætta á innöndun þess og eitrun í kjölfarið. Hættan er meiri eftir því sem hiti er meiri og rýmið lokaðra. Ein algengasta eitrunarleið kvikasilfurs er um munn og þá er kvikasilfur oftast á formi metýlkvikasilfurs. Það getur verið í iðnaðarúrgangi eða myndast úr kvikasilfursgufu sem kemst í vatn þar sem örverur umbreyta því. Ólífræn kvikasilfurssölt valda oftast eitrun í gegnum húðina. Þau eru til dæmis í rafhlöðum í úrum og geta leyst upp vefi.

Einkenni kvikasilfurseitrunar eru breytileg eftir því hvers konar kvikasilfur er um að ræða. Þau geta birst skyndilega eða komið fram á löngum tíma. Almennt gildir að einkenni koma fram og þróast hraðar eftir því sem skammtarnir eru stærri. Sum einkennin eru þau sömu fyrir öll formin en önnur fylgja aðeins tilteknu formi. Hægt er að flokka einkennin í þrennt eftir því hvaða form er um að ræða, frumefnið kvikasilfur, lífrænt kvikasilfur og ólífrænt kvikasilfur.

Einkenni kvikasilfurseitrunar á taugakerfið eru skapsveiflur, taugaveiklun, pirringur og aðrar tilfinningabreytingar, svefnleysi, höfuðverkur, óeðlilegar skynjanir, vöðvakippir, skjálfti, slappleiki, vöðvarýrnun og minnkuð vitsmunastarfsemi. Stórir skammtar af frumefninu geta leitt til nýrnabilunar, öndunarstopps og dauða.

Lífræn kvikasilfurseitrun sem verður oftast vegna inntöku metýlkvikasilfurs hefur í för með sér taugatruflanir og skerta þroskun taugakerfis, einkum á fósturskeiði. Önnur einkenni eru skert sjónsvið, náladofi í útlimum og munni, tap á samhæfingu, vöðvaslappleiki og tal- og heyrnartruflanir. Þar sem margar barnshafandi konur hafa orðið fyrir eitrun af þessu tagi hafa eituráhrif metýlkvikasilfurs á börn þeirra verið rannsökuð. Komið hefur fram að heilinn er mjög viðkvæmur fyrir metýlkvikasilfri á fósturskeiði og ýmsar truflanir koma fram, eins og skert geta til að hugsa og einbeita sér, skert minni og hreyfigeta, jafnvel þótt engin eða lítil áhrif komi fram á móðurinni.

Ólífræn kvikasilfurseitrun kemur oft fram sem útbrot og bólgur í húð. Ef þessi efni eru tekin inn um munn geta þau leyst upp vefi og verið tekin upp í smáþörmum að einhverju leyti. Ef mikið af ólífrænu kvikasilfri er innbyrt getur það valdið blóðugum niðurgangi. Kvikasilfur sem hefur verið tekið upp í meltingarveginum getur borist til annarra líffærakerfa og valdið andlegum breytingum eins og skapsveiflum eða minnistapi, nýrnaskaða og vöðvaslappleika.

Mörg önnur einkenni hafa verið sett í samband við kvikasilfurseitrun, til dæmis háþrýstingur, legslímuflakk og höfuðverkir.

Heimildir og mynd:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hef heyrt að kvikasilfur sé mjög hættulegt fyrir heilsuna og það sé þungamálmur sem oft sest að í líkama fólks og öðrum dýrum sem eru háttsett í fæðukeðjunni gegnum mat og bólusetningar og margt annað. Er það satt?

Höfundur

Útgáfudagur

12.3.2012

Spyrjandi

Jökull Gunnarsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er kvikasilfur hættulegt fyrir heilsuna og hvernig berst það í líkamann?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2012, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60784.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 12. mars). Er kvikasilfur hættulegt fyrir heilsuna og hvernig berst það í líkamann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60784

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er kvikasilfur hættulegt fyrir heilsuna og hvernig berst það í líkamann?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2012. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60784>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er kvikasilfur hættulegt fyrir heilsuna og hvernig berst það í líkamann?
Kvikasilfur er frumefni og tilheyrir hópi mjúkra málma. Eins og við á um flest önnur frumefni finnst það oftast sem efnasamband. Kvikasilfur er að finna í jarðskorpunni, í jarðvegi, bergi og vatni og jafnvel að einhverju leyti í andrúmsloftinu. Það kemur fyrir sem frumefnið kvikasilfur sem er fljótandi málmur eða gufa, í ólífrænum söltum og í lífrænum efnasamböndum. Áhrifin eru breytileg eftir því hvaða form er um að ræða en öll eru þau eitruð í tilteknum skömmtum. Kvikasilfursgufa og lífræna efnasambandið metýlkvikasilfur eru dæmi um mjög eitruð form.

Kvikasilfur hefur verið notað í iðnaði síðan á 19. öld. Það hefur verið notað í margs konar lyf, til dæmis sýkla-, þvagræsi- og hægðalosandi lyf. Einnig er það eitt af nokkrum efnum í amalgami eða silfurfyllingum sem gagnast til að endurbyggja skemmdar eða brotnar tennur. Kvikasilfur er notað í rafhlöður í úr og orkusparandi flúrljósaperur. Þegar kol eru brennd í iðnaði losnar kvikasilfur út í andrúmsloftið og einnig berst það út í sjó og vötn með iðnaðarúrgangi.

Meginuppistaða í silfurfyllingum er kvikasilfur, silfur, tin, kopar og sink. Kvikasilfrið er nauðsynlegt til að binda málmana saman og mynda hart og stöðugt fyllingarefni.

Kvikasilfur er þungmálmur og eyðist því ekki í náttúrunni heldur magnast styrkur þess upp í fæðukeðjum. Þannig getur styrkur kvikasilfurs orðið hár í fiskum ofarlega í fæðukeðjum, eins og túnfiski. Styrkurinn getur orðið enn hærri í fuglum og spendýrum sem lifa á fiskunum, þar á meðal mönnum. Helstu áhrif hás kvikasilfursstyrks á dýr ofarlega í fæðukeðjum eru truflanir í vexti, þroskun og æxlun, óeðlileg hegðun og dauði.

Kvikasilfur kemst í líkamann við innöndun, um munn eða í gegnum húðina. Ef kvikasilfursgufa sleppur út í andrúmsloftið, til dæmis úr hitamælum, rafhlöðum eða ljósaperum sem brotna, er hætta á innöndun þess og eitrun í kjölfarið. Hættan er meiri eftir því sem hiti er meiri og rýmið lokaðra. Ein algengasta eitrunarleið kvikasilfurs er um munn og þá er kvikasilfur oftast á formi metýlkvikasilfurs. Það getur verið í iðnaðarúrgangi eða myndast úr kvikasilfursgufu sem kemst í vatn þar sem örverur umbreyta því. Ólífræn kvikasilfurssölt valda oftast eitrun í gegnum húðina. Þau eru til dæmis í rafhlöðum í úrum og geta leyst upp vefi.

Einkenni kvikasilfurseitrunar eru breytileg eftir því hvers konar kvikasilfur er um að ræða. Þau geta birst skyndilega eða komið fram á löngum tíma. Almennt gildir að einkenni koma fram og þróast hraðar eftir því sem skammtarnir eru stærri. Sum einkennin eru þau sömu fyrir öll formin en önnur fylgja aðeins tilteknu formi. Hægt er að flokka einkennin í þrennt eftir því hvaða form er um að ræða, frumefnið kvikasilfur, lífrænt kvikasilfur og ólífrænt kvikasilfur.

Einkenni kvikasilfurseitrunar á taugakerfið eru skapsveiflur, taugaveiklun, pirringur og aðrar tilfinningabreytingar, svefnleysi, höfuðverkur, óeðlilegar skynjanir, vöðvakippir, skjálfti, slappleiki, vöðvarýrnun og minnkuð vitsmunastarfsemi. Stórir skammtar af frumefninu geta leitt til nýrnabilunar, öndunarstopps og dauða.

Lífræn kvikasilfurseitrun sem verður oftast vegna inntöku metýlkvikasilfurs hefur í för með sér taugatruflanir og skerta þroskun taugakerfis, einkum á fósturskeiði. Önnur einkenni eru skert sjónsvið, náladofi í útlimum og munni, tap á samhæfingu, vöðvaslappleiki og tal- og heyrnartruflanir. Þar sem margar barnshafandi konur hafa orðið fyrir eitrun af þessu tagi hafa eituráhrif metýlkvikasilfurs á börn þeirra verið rannsökuð. Komið hefur fram að heilinn er mjög viðkvæmur fyrir metýlkvikasilfri á fósturskeiði og ýmsar truflanir koma fram, eins og skert geta til að hugsa og einbeita sér, skert minni og hreyfigeta, jafnvel þótt engin eða lítil áhrif komi fram á móðurinni.

Ólífræn kvikasilfurseitrun kemur oft fram sem útbrot og bólgur í húð. Ef þessi efni eru tekin inn um munn geta þau leyst upp vefi og verið tekin upp í smáþörmum að einhverju leyti. Ef mikið af ólífrænu kvikasilfri er innbyrt getur það valdið blóðugum niðurgangi. Kvikasilfur sem hefur verið tekið upp í meltingarveginum getur borist til annarra líffærakerfa og valdið andlegum breytingum eins og skapsveiflum eða minnistapi, nýrnaskaða og vöðvaslappleika.

Mörg önnur einkenni hafa verið sett í samband við kvikasilfurseitrun, til dæmis háþrýstingur, legslímuflakk og höfuðverkir.

Heimildir og mynd:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hef heyrt að kvikasilfur sé mjög hættulegt fyrir heilsuna og það sé þungamálmur sem oft sest að í líkama fólks og öðrum dýrum sem eru háttsett í fæðukeðjunni gegnum mat og bólusetningar og margt annað. Er það satt?
...