Þá má segja að niðurstöður Kinseys um reynslu karla af samkynhneigðri hegðun og áhrif þeirra á umræðu og viðhorf hafi valdið straumhvörfum. Á grundvelli rannsókna sinna kynnti Kinsey skala á bilinu 0-6, þar sem bilið var frá „eingöngu gagnkynhneigður“ yfir í „eingöngu samkynhneigður“. Samkvæmt þessum skala væri einn af hverjum tíu karlmönnum „meira eða minna samkynhneigður“, það er með einkunn 5 eða 6, en hlutfallið var lægra hjá konum því aðeins 3-8% kvenna fengu einkunn á bilinu 4-6 (Irvine, 2000). Ein afleiðing rannsóknar Kinseys og þeirrar gífurlegu fjölmiðlaumfjöllunar sem hún fékk kann, ásamt opnari umræðu almennings, að hafa átt sinn þátt í að bannhelgi sem hafði ríkt í þessum efnum var aflétt. Fólk varð frjálsara í kynhegðun sinni, eða fann að minnsta kosti til minni sektarkenndar vegna hennar. Eins og kom fram hér að framan vöktu rannsóknir Kinseys athygli um allan heim en þó einkum innan Bandaríkjanna. Um leið varð hann fyrir mikilli gagnrýni og reynt var að gera niðurstöðurnar og rannsóknina sjálfa tortryggilega. Til að mynda ásökuðu trúarhópar hann um að rit hans væru árás á hina vestrænu fjölskyldu og að Kinsey sjálfur væri ógnun við samfélagið. Gagnrýnin var þó ekki eingöngu bundin við siðferðilegu hlið rannsóknanna. Nokkrir félagsfræðingar töldu aðferðafræði viðtalanna og tölfræðilega meðferð í rannsóknum Kinseys ekki fullnægjandi og sálgreinendur (e. psychoanalysts) gagnrýndu „efnishyggjuna“ í greiningu hans sem gengi gegn sálfræðikenningum um kynhneigð (e. sexuality) (Garton, 2004). Áhugi á framlagi hans dvínaði þó ekki af þessum sökum, og árið 2005 var gerð 90 mínútna heimildarmynd um kynfræðirannsóknir Kinseys og persónuna að baki. Þar kemur meðal annars fram að hann lifði sjálfur í hefðbundinni fjölskyldu, var í gagnkynhneigðu hjónabandi og átti börn, en hinn „kynlegi“ áhugi hans á kynhegðun beindist ekki alltaf í troðnar slóðir (Goodman & Maggio, 2005). Þrátt fyrir vissa aðferðafræðilega annmarka, meðal annars varðandi svörun og alhæfingargildi, hafði rannsóknarstarf Kinseys umbyltandi áhrif á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Það varð mikilvægur hlekkur í þeirri þróun sem kynfræðingar, eins og Helen D. Kaplan (1974), talsmenn kvenfrelsis, meðal annars Betty Friedan (1963) og Nancy Friday (1977), og aðrir gagnrýnir hugmyndafræðingar, eins og Michel Foucault (1980), áttu eftir að efla svo mjög. Þannig hafði starf Alfreds Kinseys mikil áhrif á þróun kynfræða sem vísindagreinar og stuðlaði að opnari umræðu um þau höft sem bannhelgi og fordómar gagnvart kynhegðun og breytileika kynverundar fólu í sér fyrir almenning. Unnari Friðrik Sigurðssyni, BA, er þökkuð aðstoð við heimildavinnu. Heimildir og mynd:
- Blumstein, P.W., & Schwartz, P. (1999). "Alfred C. Kinsey, Wardell B. Pomeroy and Clyde E. Martin: Extracts from Sexual Behavior in the Human Male (1948)", Bisexuality: A Critical Reader, ristj. Storr, M., London: Routledge.
- Foucault, M. (1980). The History of Sexuality.
- Friday, N. (1977). My mother myself. USA: Delacorte Press.
- Friedan, B. (1963). Feminine Mystique. Usa: W.W. Norton and Co.
- Garton, S. (2004). Histories of Sexuality: Antiquity to Sexual Revolution, London: Equinox Publishing.
- Goodman B. & Maggio, J. ( 2005). Kinsey. Paramount (pbs home video).
- Irvine, J.M. (2000). "Kinsey Institute", Encyclopedia of Lesbian and Gay Histories and Cultures: Volume 1, ritstj. Zimmerman, B. New York: Garland Publishing.
- Kaplan, H.S. (1974). The New Sex Therapy: Active Treatment of Sexual Dysfunctions, London: Baillière Tindall.
- Peyser, C.S. (2001). "Kinsey, Alfred C. (1894-1956)", The Corsini Encyclopedia of Psychology and Behavioral Science, ristj. Craighead, W.E. & Nemeroff, C.B., 3. útgáfa, 2. bindi., New York: John Wiley & Sons Inc.
- Zastrow, C. (2010). Introduction to Social Work and Social Welfare: Empowering People, 10. útgáfa, Belmont: Brooks/Cole.
- Mynd: Alfred Kinsey á Wikipedia. Sótt 13. 7. 2011.