Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða breytingar hafa átt sér stað á kynhegðun ungmenna síðustu 50 ár og hverjar eru afleiðingarnar?

Sóley S. Bender

Þessi spurning er mjög yfirgripsmikil og hægt að koma inn á mjög marga þætti en vegna ákveðinna takmarkana í samanburðarhæfni milli þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið hér á landi verður lögð áhersla á einn mikilvægan þátt sem er aldur við fyrstu kynmök. Elsta rannsókn sem mér er kunnugt um hvað varðar kynhegðun ungmenna hér á landi, og byggist á stóru úrtaki, er frá árinu 1976 sem þýðir að rannsóknir á þessu sviði eru ekki nema liðlega 30 ára gamlar.1

Þær rannsóknir sem ég mun bera saman hér eru alls sex og spanna tímabilið frá 1976-2009. Þær voru gerðar á árunum 1976, 1992, 1996, 2004, 2006 og 2009.1, 2, 3, 4, 5, 6

Rannsóknirnar koma inn á mismunandi þætti enda er megintilgangur þeirra misjafn. Þó að í þeim hafi verið grennslast fyrir um ýmis atriði varðandi kynhegðun unglinga þá hefur gagnagreining ekki endilega endurspeglað þau þar sem um viðamiklar kannanir er að ræða og gagnagreining að miklu leyti byggst á lýsandi tölfræði. Rannsóknirnar sem hér er greint frá eiga það sameiginlegt að vera stærri í sniðum. Þær eru flestar landskannanir2,3,4,5,6. Þetta eru ýmist kannanir sem lagðar hafa verið fyrir í skólum landsins eða byggjast á slembiúrtaki úr þjóðskrá og sendar til viðkomandi í pósti og/eða lagðar fyrir rafrænt. Þær síðarnefndu ná jafnframt til þeirra sem ekki eru í skóla. Þetta eru rannsóknir meðal ungs fólks en ein2 þeirra er með ungt fólk að hluta.



Í sumum þessara rannsókna er spurt um fjölda rekkjunauta, tegund kynmaka (í leggöng, munn, endaþarm), hvaða getnaðarvarnir hafa verið notaðar og hvort ungt fólk ræði saman um getnaðarvarnir áður en þær eru notaðar. Færri grennslast fyrir um hvort að viðkomandi hafi neytt áfengis eða verið þvingaður til samfara. Rannsókn sem unnin var af Rannsóknum og greiningu (RG) árið 2004 og gerð var í samstarfi við Barnaverndarstofu er mjög umfangsmikil og þar er spurt um mun fleiri þætti kynhegðunar en að jafnaði er gert í hinum rannsóknunum og áhersla jafnframt lögð á kynferðislega misnotkun.4 Bæði í RG-rannsókninni og þeirri frá 2009 eru upplýsingar sem ekki hefur verið spurt um áður og því ekki unnt að bera saman milli rannsókna. Það sem hægt er að finna sem sameiginlegt með rannsóknunum, eins og áður er getið, er aldur við fyrstu kynmök. Það er hins vegar mismunandi hvort hann er settur fram í hlutfalli þeirra sem eru byrjaðir eða sem mið- eða meðalaldur.

Þegar aldur við fyrstu kynmök er borinn saman milli þessara rannsókna kemur í ljós í fyrstu rannsókninni árið 1976 að 23,2% pilta og 21,2% stúlkna sögðust hafa haft samfarir við 14 ára aldur.1 Í könnuninni frá 1992 kom fram að miðað við allan aldurshópinn 16-59 ára þá höfðu alls 11,9% haft kynmök við 14 ára aldur.2 Þetta er hins vegar ekki aldurs- eða kyngreint. Í sömu rannsókn kemur fram verulegur munur á þeim sem eldri eru og þeim yngstu varðandi aldur við upphaf kynmaka. Yngsti aldurshópurinn, 16-19 ára, var að meðaltali rétt liðlega 15 ára þegar þeir byrja að hafa kynmök en þeir sem voru 50 ára og eldri voru að meðaltali um 18 ára. Þannig hefur meðalaldurinn farið lækkandi þegar þessir aldurshópar eru bornir saman.

Í landskönnun frá 1996 kom fram að 18,4% pilta og 21,5% stúlkna voru byrjuð að stunda kynlíf 14 ára og meðalaldurinn var liðlega 15 ár.3 Í rannsókn RG frá 2004 sögðust 12% pilta og 16% stúlkna vera byrjuð að hafa samfarir við 14 ára aldurinn.4 Árið 2006 var gerð rannsókn á heilsu og lífskjörum skólanema (HBSC) sem leiddi í ljós að við 14 ára aldur voru um 16% pilta og um 20% stúlkna byrjuð að hafa kynmök við 14 ára aldur.5 Þremur árum síðar (2009) kom fram í landskönnun að 17,7% pilta og 15,8% stúlkna sögðust vera byrjaðar að hafa kynmök við 14 ára aldur og meðalaldurinn var tæp 16 ár.6

Miðað við þessar upplýsingar, sem þó eru ekki að öllu leyti sambærilegar þar sem verið er að spyrja ólíka aldurshópa, þá hefur í síðustu rannsóknum komið fram að hlutfall þeirra sem byrja kynmök við 14 ára aldur hefur aðeins lækkað ef miðað er við rannsóknirnar frá 1976 og 2009. Lækkunin er frá um 23% meðal pilta í tæp 18% og frá um 21% meðal stúlkna í tæp 16%.1,6 Einnig hefur meðalaldurinn farið hækkandi, frá rúmlega 15 árum og upp í tæp 16 ár. Færri byrja snemma að stunda kynlíf en var áður. Í meirihluta rannsóknanna eru stúlkur með hærra hlutfall sem þýðir að þær byrji fyrr að stunda kynlíf. Þó eru undantekningar á þessu 1976 og 2009.

Þegar þessar rannsóknarniðurstöður eru skoðaðar og aldur við fyrstu kynmök borinn saman við sambærilegar erlendar rannsóknir kemur í ljós að unglingar hér á landi byrja fyrr að stunda kynmök en víða annars staðar.7,8 Það setur þennan hóp hér á landi í töluvert meiri áhættu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli þess að byrja fyrr að stunda kynlíf og áhættuhegðunar sem getur meðal annars falist í fjölda rekkjunauta, áfengisneyslu og takmarkaðri notkun getnaðarvarna.5,6,9,10 Slík áhættuhegðun endurspeglast í hærri tíðni þungana og kynsjúkdóma.

Nýleg rannsókn hér á landi á vegum Krabbameinsfélags Íslands á kynfæravörtum og kynhegðun sýndi að ungar stúlkur á aldrinum 18-21 ára áttu hlutfallslega fleiri rekkjunauta en á öðrum Norðurlöndum.11 Jafnframt kom fram í þeirri rannsókn að þær sem áttu fleiri rekkjunauta voru margfalt líklegri að hafa greinst með kynfæravörtur. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að íslenskar unglingsstúlkur hafa í áratugi verið með hærri tíðni þungana en kynsystur þeirra á öðrum Norðurlöndum.12 Jafnframt er tíðni kynsjúkdómsins klamydíu hæst hér miðað við önnur Norðurlönd. Stærsti hópurinn sem greinist með klamydíu er á aldrinum 15-24 ára og eru konur í meirihluta.13 Af þessu má ljóst vera að afleiðingar óábyrgrar kynhegðunar meðal ungs fólks geta verið margvíslegar.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Tilvísanir og heimildir:
  1. Ásgeir Sigurgestsson. (1977). Ungdom og seksualitet. Århus: Psychologisk Institute, Århus Universitet.
  2. a. Jóna I. Jónsdóttir. (1994). Könnun á kynhegðun og þekkingu á alnæmi. Heilbrigðisskýrslur, Fylgirit nr. 2. Reykjavík: Landlæknisembættið.
  3. b. Jóna I. Jónsdóttir og Sigríður Haraldsdóttir. (1998). Kynhegðun og þekking á alnæmi. Heilbrigðisskýrslur, Fylgirit nr. 5. Reykjavík: Landlæknisembættið.

  4. a. Bender, S.S. (1999). Attitudes of Icelandic young people toward sexual and reproductive health services. Family Planning Perspectives, 31(6):294-301.

    b. Bender, S.S., Juliusdottir, S., Kristinsson, Th og Jonsdottir, G. (2004). Iceland. In R.T. Francoeur & R.J. Noonan (Ritstj.). The Continuum Complete International Encyclopedia of Sexuality. New York: Continuum.
  5. Rannsóknir og greining (2006). Kynhegðun ungs fólks á Íslandi og kynferðisleg misnotkun á börnum. Samstarfsverkefni Barnaverndarstofu og Rannsókna og greiningar. Sótt 15. des. 2010.
  6. Andrea Hjálmsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Þóroddur Bjarnason (2006). Heilsa og lífskjör skólanema. Fyrstu niðurstöður. Sótt 16. des. 2010.
  7. Sóley S. Bender (2009). [Kynheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk]. Óútgefin gögn.
  8. Avery, L. og Lazdane, G. (2010). What do we know about sexual and reproductive health of adolescents in Europe? The European Journal of Contraception & Reproductie Health Care, 15(S2), 54-67.
  9. Child and adolescent health research unit og World Health Organization (2008). Inequalities in young people´s health. Health behavior in school age children. International report from the 2005/2006 survey. Endinburgh: CAHRU og WHO.
  10. Sandfort, T.G.M., Orr, M., Hirsch, J.S. og Santelli, J. (2008). Long term health correlates of timing of sexual debut: Results from a national US study. American Journal of Public Health, 98(1), 155-161.
  11. Ma, Q., Ono-Kihara, M., Cong, L., Xu, G., Pau, X., Zamani, S., Ravari, S.M., Zang, D., Homma, T. og Kihara, M. (2009). Early initiation of sexual activity: Að risk factor for sexually transmitted diseases, HIV infection and unwanted pregnancy among university students in China. BMC Public Health, 9,111. Sótt 15. des. 2010.
  12. Jensen, K.E., Munk, C., Sparen, P., Tryggvadóttir, L,, Liaw, K-L, Dasbach, E., Nygård, M. og Kjær, S.K. (í prentun). Women´s sexual behavior. Population-based study among 65.000 women from four Nordic countries before introduction of human papillomavirus vaccination. Acta Obstetricia et Gynecologica Scandinavica.
  13. Bender, S.S., Geirsson, R.T. & Kosunen, E. (2003). Trends in teenage fertility, abortion and pregnancy rates in Iceland compared with other Nordic countries, 1976-99. Acta Obstetricia et Gynecologica Scandinavica, 82:38-47.
  14. Landlæknisembættið (2010). Fjöldi greindra klamydíutilfella á Íslandi 1997 - 2009 eftir aldri á 10 þúsund íbúa í hverjum aldurshópi. Sótt 15. des. 2010.

Mynd:

Höfundur

Sóley S. Bender

prófessor og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við HÍ

Útgáfudagur

14.1.2011

Spyrjandi

Líneik Jakobsdóttir

Tilvísun

Sóley S. Bender. „Hvaða breytingar hafa átt sér stað á kynhegðun ungmenna síðustu 50 ár og hverjar eru afleiðingarnar?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56315.

Sóley S. Bender. (2011, 14. janúar). Hvaða breytingar hafa átt sér stað á kynhegðun ungmenna síðustu 50 ár og hverjar eru afleiðingarnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56315

Sóley S. Bender. „Hvaða breytingar hafa átt sér stað á kynhegðun ungmenna síðustu 50 ár og hverjar eru afleiðingarnar?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56315>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða breytingar hafa átt sér stað á kynhegðun ungmenna síðustu 50 ár og hverjar eru afleiðingarnar?
Þessi spurning er mjög yfirgripsmikil og hægt að koma inn á mjög marga þætti en vegna ákveðinna takmarkana í samanburðarhæfni milli þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið hér á landi verður lögð áhersla á einn mikilvægan þátt sem er aldur við fyrstu kynmök. Elsta rannsókn sem mér er kunnugt um hvað varðar kynhegðun ungmenna hér á landi, og byggist á stóru úrtaki, er frá árinu 1976 sem þýðir að rannsóknir á þessu sviði eru ekki nema liðlega 30 ára gamlar.1

Þær rannsóknir sem ég mun bera saman hér eru alls sex og spanna tímabilið frá 1976-2009. Þær voru gerðar á árunum 1976, 1992, 1996, 2004, 2006 og 2009.1, 2, 3, 4, 5, 6

Rannsóknirnar koma inn á mismunandi þætti enda er megintilgangur þeirra misjafn. Þó að í þeim hafi verið grennslast fyrir um ýmis atriði varðandi kynhegðun unglinga þá hefur gagnagreining ekki endilega endurspeglað þau þar sem um viðamiklar kannanir er að ræða og gagnagreining að miklu leyti byggst á lýsandi tölfræði. Rannsóknirnar sem hér er greint frá eiga það sameiginlegt að vera stærri í sniðum. Þær eru flestar landskannanir2,3,4,5,6. Þetta eru ýmist kannanir sem lagðar hafa verið fyrir í skólum landsins eða byggjast á slembiúrtaki úr þjóðskrá og sendar til viðkomandi í pósti og/eða lagðar fyrir rafrænt. Þær síðarnefndu ná jafnframt til þeirra sem ekki eru í skóla. Þetta eru rannsóknir meðal ungs fólks en ein2 þeirra er með ungt fólk að hluta.



Í sumum þessara rannsókna er spurt um fjölda rekkjunauta, tegund kynmaka (í leggöng, munn, endaþarm), hvaða getnaðarvarnir hafa verið notaðar og hvort ungt fólk ræði saman um getnaðarvarnir áður en þær eru notaðar. Færri grennslast fyrir um hvort að viðkomandi hafi neytt áfengis eða verið þvingaður til samfara. Rannsókn sem unnin var af Rannsóknum og greiningu (RG) árið 2004 og gerð var í samstarfi við Barnaverndarstofu er mjög umfangsmikil og þar er spurt um mun fleiri þætti kynhegðunar en að jafnaði er gert í hinum rannsóknunum og áhersla jafnframt lögð á kynferðislega misnotkun.4 Bæði í RG-rannsókninni og þeirri frá 2009 eru upplýsingar sem ekki hefur verið spurt um áður og því ekki unnt að bera saman milli rannsókna. Það sem hægt er að finna sem sameiginlegt með rannsóknunum, eins og áður er getið, er aldur við fyrstu kynmök. Það er hins vegar mismunandi hvort hann er settur fram í hlutfalli þeirra sem eru byrjaðir eða sem mið- eða meðalaldur.

Þegar aldur við fyrstu kynmök er borinn saman milli þessara rannsókna kemur í ljós í fyrstu rannsókninni árið 1976 að 23,2% pilta og 21,2% stúlkna sögðust hafa haft samfarir við 14 ára aldur.1 Í könnuninni frá 1992 kom fram að miðað við allan aldurshópinn 16-59 ára þá höfðu alls 11,9% haft kynmök við 14 ára aldur.2 Þetta er hins vegar ekki aldurs- eða kyngreint. Í sömu rannsókn kemur fram verulegur munur á þeim sem eldri eru og þeim yngstu varðandi aldur við upphaf kynmaka. Yngsti aldurshópurinn, 16-19 ára, var að meðaltali rétt liðlega 15 ára þegar þeir byrja að hafa kynmök en þeir sem voru 50 ára og eldri voru að meðaltali um 18 ára. Þannig hefur meðalaldurinn farið lækkandi þegar þessir aldurshópar eru bornir saman.

Í landskönnun frá 1996 kom fram að 18,4% pilta og 21,5% stúlkna voru byrjuð að stunda kynlíf 14 ára og meðalaldurinn var liðlega 15 ár.3 Í rannsókn RG frá 2004 sögðust 12% pilta og 16% stúlkna vera byrjuð að hafa samfarir við 14 ára aldurinn.4 Árið 2006 var gerð rannsókn á heilsu og lífskjörum skólanema (HBSC) sem leiddi í ljós að við 14 ára aldur voru um 16% pilta og um 20% stúlkna byrjuð að hafa kynmök við 14 ára aldur.5 Þremur árum síðar (2009) kom fram í landskönnun að 17,7% pilta og 15,8% stúlkna sögðust vera byrjaðar að hafa kynmök við 14 ára aldur og meðalaldurinn var tæp 16 ár.6

Miðað við þessar upplýsingar, sem þó eru ekki að öllu leyti sambærilegar þar sem verið er að spyrja ólíka aldurshópa, þá hefur í síðustu rannsóknum komið fram að hlutfall þeirra sem byrja kynmök við 14 ára aldur hefur aðeins lækkað ef miðað er við rannsóknirnar frá 1976 og 2009. Lækkunin er frá um 23% meðal pilta í tæp 18% og frá um 21% meðal stúlkna í tæp 16%.1,6 Einnig hefur meðalaldurinn farið hækkandi, frá rúmlega 15 árum og upp í tæp 16 ár. Færri byrja snemma að stunda kynlíf en var áður. Í meirihluta rannsóknanna eru stúlkur með hærra hlutfall sem þýðir að þær byrji fyrr að stunda kynlíf. Þó eru undantekningar á þessu 1976 og 2009.

Þegar þessar rannsóknarniðurstöður eru skoðaðar og aldur við fyrstu kynmök borinn saman við sambærilegar erlendar rannsóknir kemur í ljós að unglingar hér á landi byrja fyrr að stunda kynmök en víða annars staðar.7,8 Það setur þennan hóp hér á landi í töluvert meiri áhættu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli þess að byrja fyrr að stunda kynlíf og áhættuhegðunar sem getur meðal annars falist í fjölda rekkjunauta, áfengisneyslu og takmarkaðri notkun getnaðarvarna.5,6,9,10 Slík áhættuhegðun endurspeglast í hærri tíðni þungana og kynsjúkdóma.

Nýleg rannsókn hér á landi á vegum Krabbameinsfélags Íslands á kynfæravörtum og kynhegðun sýndi að ungar stúlkur á aldrinum 18-21 ára áttu hlutfallslega fleiri rekkjunauta en á öðrum Norðurlöndum.11 Jafnframt kom fram í þeirri rannsókn að þær sem áttu fleiri rekkjunauta voru margfalt líklegri að hafa greinst með kynfæravörtur. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að íslenskar unglingsstúlkur hafa í áratugi verið með hærri tíðni þungana en kynsystur þeirra á öðrum Norðurlöndum.12 Jafnframt er tíðni kynsjúkdómsins klamydíu hæst hér miðað við önnur Norðurlönd. Stærsti hópurinn sem greinist með klamydíu er á aldrinum 15-24 ára og eru konur í meirihluta.13 Af þessu má ljóst vera að afleiðingar óábyrgrar kynhegðunar meðal ungs fólks geta verið margvíslegar.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Tilvísanir og heimildir:
  1. Ásgeir Sigurgestsson. (1977). Ungdom og seksualitet. Århus: Psychologisk Institute, Århus Universitet.
  2. a. Jóna I. Jónsdóttir. (1994). Könnun á kynhegðun og þekkingu á alnæmi. Heilbrigðisskýrslur, Fylgirit nr. 2. Reykjavík: Landlæknisembættið.
  3. b. Jóna I. Jónsdóttir og Sigríður Haraldsdóttir. (1998). Kynhegðun og þekking á alnæmi. Heilbrigðisskýrslur, Fylgirit nr. 5. Reykjavík: Landlæknisembættið.

  4. a. Bender, S.S. (1999). Attitudes of Icelandic young people toward sexual and reproductive health services. Family Planning Perspectives, 31(6):294-301.

    b. Bender, S.S., Juliusdottir, S., Kristinsson, Th og Jonsdottir, G. (2004). Iceland. In R.T. Francoeur & R.J. Noonan (Ritstj.). The Continuum Complete International Encyclopedia of Sexuality. New York: Continuum.
  5. Rannsóknir og greining (2006). Kynhegðun ungs fólks á Íslandi og kynferðisleg misnotkun á börnum. Samstarfsverkefni Barnaverndarstofu og Rannsókna og greiningar. Sótt 15. des. 2010.
  6. Andrea Hjálmsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Þóroddur Bjarnason (2006). Heilsa og lífskjör skólanema. Fyrstu niðurstöður. Sótt 16. des. 2010.
  7. Sóley S. Bender (2009). [Kynheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk]. Óútgefin gögn.
  8. Avery, L. og Lazdane, G. (2010). What do we know about sexual and reproductive health of adolescents in Europe? The European Journal of Contraception & Reproductie Health Care, 15(S2), 54-67.
  9. Child and adolescent health research unit og World Health Organization (2008). Inequalities in young people´s health. Health behavior in school age children. International report from the 2005/2006 survey. Endinburgh: CAHRU og WHO.
  10. Sandfort, T.G.M., Orr, M., Hirsch, J.S. og Santelli, J. (2008). Long term health correlates of timing of sexual debut: Results from a national US study. American Journal of Public Health, 98(1), 155-161.
  11. Ma, Q., Ono-Kihara, M., Cong, L., Xu, G., Pau, X., Zamani, S., Ravari, S.M., Zang, D., Homma, T. og Kihara, M. (2009). Early initiation of sexual activity: Að risk factor for sexually transmitted diseases, HIV infection and unwanted pregnancy among university students in China. BMC Public Health, 9,111. Sótt 15. des. 2010.
  12. Jensen, K.E., Munk, C., Sparen, P., Tryggvadóttir, L,, Liaw, K-L, Dasbach, E., Nygård, M. og Kjær, S.K. (í prentun). Women´s sexual behavior. Population-based study among 65.000 women from four Nordic countries before introduction of human papillomavirus vaccination. Acta Obstetricia et Gynecologica Scandinavica.
  13. Bender, S.S., Geirsson, R.T. & Kosunen, E. (2003). Trends in teenage fertility, abortion and pregnancy rates in Iceland compared with other Nordic countries, 1976-99. Acta Obstetricia et Gynecologica Scandinavica, 82:38-47.
  14. Landlæknisembættið (2010). Fjöldi greindra klamydíutilfella á Íslandi 1997 - 2009 eftir aldri á 10 þúsund íbúa í hverjum aldurshópi. Sótt 15. des. 2010.

Mynd:...