Undir öllum venjulegum kringumstæðum fæðist stúlkubarn með leggöng, leg, eggjaleiðara og eggjastokka. Öll þessi líffæri eru til staðar frá byrjun en við kynþroskann fer kerfið í gang, líffærin stækka og líkami stúlkunnar, undir stjórn hormóna, fer að framleiða egg sem gerir það að verkum að hún er orðin frjósöm (Neinstein, 1991). Varðandi frjósemina skipta margir samverkandi þættir máli og eru eggjaleiðararnir einkum mikilvægir. Þeir eru eins konar tengibraut á milli eggjastokka og legs. Eggjastokkarnir framleiða egg sem losna þaðan einu sinni í tíðahring. Ef frjóvgun, það er samruni eggs og sáðfrumu, á sér stað verður hún yfirleitt í eggjaleiðurum (Bobak, Jensen og Zalar, 1989). Ein af ástæðum fyrir ófrjósemi getur verið vegna sýkingar í grindarholi konunnar, sem getur stafað af kynsjúkdómi eins og klamydíu (Hyde og DeLamater, 2000). Það sem getur gerst eftir kynmök við smitaðan einstakling er að sýkingin breiðist til eggjaleiðara. Þar getur hún valdið bólgu sem leitt getur til samgróninga, það er að segja veggir eggjaleiðaranna gróa saman sem gerir það að verkum að þeir geta lokast. Ef lokunin verður algjör þýðir það að ef egg losnar frá eggjastokkunum þá kemst það ekki leiðar sinnar inni í eggjaleiðurunum. Sáðfrumur komast heldur ekki fram hjá stíflunni hinum megin frá til að geta frjóvgað það. Undir þessum kringumstæðum hefur sýkingin leitt til ófrjósemi. Meta þarf hverju sinni hvers eðlis ófrjósemi er og hvaða leiðir séu mögulegar til að kona geti orðið þunguð. Tilvísanir:
- Bobak, I.M., Jensen, M.D. og Zalar, M.K. (1989). Maternity and gynecologic care. The nurse and the family. Toronto: The C.V. Mosby Company.
- Forliti, J., Kapp, L., Naughton, S. og Young, L. (1986). Human sexuality: Values and choices. Minneapolis: Search Institute.
- Hyde, J.S. og DeLamater, J. (2000). Understanding human sexuality (7. útg.). New York: Mc Graw Hill.
- Neinstein, L.S. (1991). Adolescent health care. Baltimore: Urban & Schwarzenberg.
- Hvað er kynlíf?
- Er hollt að stunda kynlíf?
- Af hverju unglingaólétta algengari í Bandaríkjunum en Evrópu?