Hugtakið kynlíf kemur líklega fyrst fram á prenti árið 1946, í bók sem Sigurður Kristjánsson þýddi. Veggspjaldið sem hér sést er frá árinu 1950.
Árið 1946 er gefin út bókin Kynferðislífið. Í henni er til dæmis fjallað um kynferðislíf barnsins, eðlilegt kynferðislíf, truflanir í kynferðislífinu og óeðlilegt kynferðislíf. Svipuð hugtakanotkun er í bókinni Bókin um manninn sem kom út 1946. Þar er hugtakið kynferðislíf aftur lagt til grundvallar umfjöllunar um kynlíf. Hins vegar gerast þau tíðindi árið 1946 að gefin er út bókin Hjónalíf, leiðbeiningar um kynlíf hjóna. Henry og Freda Thornton voru höfundar bókarinnar en Sigurður Kristjánsson þýddi. Hér kemur hugtakið kynlíf fram í fyrsta sinn miðað við þau ritverk sem hér eru lögð til grundvallar. Í bókinni er hugtakið notað í víðtækri merkingu. Til dæmis er fjallað um sálrænar hliðar kynlífs og vandamál kynlífs. Það er síðan árið 1948 sem Jón G. Nikulásson gaf út bók eftir Fritz Kahn sem bar heitið Kynlíf. Hún var viðamikið ritverk á þessu sviði og var víða til á heimilum landsmanna. Þar er hugtakið kynlíf notað í víðri merkinu, svo sem kynlíf barnsins, kynlíf ógifts fólks, heilsufræði kynlífsins og truflanir kynlífsins. Miðað við þessa bókarýni varð breyting á hugtakanotkun um og upp úr 1946 þegar að hugtakið kynlíf fer að sjást á prenti og virðist taka við af hugtökunum kynferðislíf eða ástalíf. Hugtakið kynlíf er í þessum textum notað í víðri merkinu eins og fyrri hugtökin. Heimildir:
- Fishbein, M. (1943). Heilsurækt og mannamein (Niels Dungan sá um útgáfuna). Reykjavík: Bókaútgáfan Dagrenning.
- Kahn, F. (1946). Bókin um manninn (Gunnlaugur Claessen ritstjóri). Reykjavík: Helgafell.
- Kahn, F. (1948). Kynlíf (Jón G. Nikulásson gaf út). Reykjavík: Helgafell.
- Møller, J.F. (1946). Kynferðislífið (Árni Pétursson þýddi). Reykjavík: Þorleifur Gunnarsson.
- Sigurður Skúlason (1945). Sjafnarmál, bókin um konur og ástina. Reykjavík: Helgafell.
- Stopes, M.C. (1945). Hjónaástir (Björg C. Þorláksson þýddi). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
- Thornton, H. og Thornton, F. (1946). Hjónalíf, leiðbeiningar um kynlíf hjóna (Sigurður Kristjánsson þýddi). Reykjavík: Hrafnsútgáfan.