Gosaska myndast þegar glóandi kvika eða bergbráð kemur upp á yfirborðið og freyðir og sundrast. Kvikan freyðir þegar eldfjallagufur, aðallega vatn, losna úr henni og þenjast út við það að þrýstingur minnkar. Þessu má líkja við það sem gerist þegar gosflaska er opnuð, þá minnkar þrýstingurinn og koltvísýringurinn freyðir. Gosaskan sem verður til kólnar svo hratt að hún storknar sem gler.
Öskumyndun í eldgosum er aðallega af völdum vatns. Svonefnt basalt inniheldur lítið vatn (um hálft prósent) en í súrri bráð getur vatnið verið yfir 5%. Þess vegna myndast aska í súrri bráð en yfirleitt minni í basaltgosum. Það fer síðan líka eftir því hversu mikið vatn bráðin tekur í sig á leið til yfirborðsins hvort öskumyndun verður mikil. Gos sem verða undir jökli valda þess vegna mikilli ösku. Heimild og frekara lesefni:
- Hvað er gosaska? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvert berst gosaska? eftir Trausta Jónsson
- Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Sigurlaug Hjaltadóttir. Sótt 8. 11. 2010.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.