
Í anda vísindaskáldskapar væri vel hægt að ímynda sér veröld þar sem súrefni fengist aðeins með tækjabúnaði á borð við köfunarbúnað sem fylla þyrfti á í súrefnisbúðum.
Talið er að andrúmsloft jarðar hafi verið súrefnislaust fyrir 3,5 milljörðum ára en síðan hafi smám saman myndast súrefni við ljóstillífun örvera. Þegar súrefni barst út í andrúmsloftið hófst þróun flóknari lífvera, svo sem heilkjörnunga. Þörungar bættu við meira súrefni með ljóstillífun og síðan þróuðust grænar plöntur. Nú er súrefni um 20% í andrúmslofti eins og kunnugt er. Án ljóstillífunar værum við ekki til.Það er nauðsynlegt að viðhalda ljóstillífun, án þess væri lítið líf á jörðinni. Í svari við spurningunni Er hægt að búa til súrefni í vélum? kemur fram að enn sem komið sé það ekki ekki á mannlegu valdi að búa til súrefni úr öðrum frumefnum. Þetta lífræna ferli hefur átt sér stað í óralangan tíma án þess að manneskjur hafi komið við sögu og þó að mannfólk sé vissulega hluti af vistkerfinu mætti kannski segja að það hafi þegið vel af gjöfum jarðar. Það eru hins vegar ótal mörg dæmi um það að manneskjur hafi raskað vistkerfum. Í svari Kesöru segir einnig:
Kolefnisbinding ljóstillífunar er frumframleiðsla jarðar. Aðrar lífverur, þar á meðal menn, lifa af þessu beint og óbeint. Einnig er kolefnisbinding ljóstillífunar vel þekkt fyrir að vera leið til að vega upp á móti koltvíoxíði í andrúmslofti og sjó vegna mengunar sem kemur meðal annars frá iðnaðarstarfsemi mannsins.Nú á dögum er vandinn helst sá að of mikið koltvíildi eða koldíoxíð er í andrúmsloftinu sem þarf að binda í ljóstillífun. En vandinn er einnig sá að þau vistkerfi sem sjá um stóran hluta þeirrar ljóstillífunar sem gerist á jörðinni eru í hættu af mannavöldum. Til dæmis vegna eyðingu regnskóga á borð við Amason-skógana fyrir meira akurlendi. Ferli á borð við ljóstillífun gengur út á hringrás sem mætti kannski lýsa þannig að alltaf þurfi að gefa til baka þegar eitthvað hefur verið þegið hvort sem um mannlegan geranda er að ræða eða ekki. Því mætti kannski lýsa þessari hringrás sem eins konar skiptatengslum jafnvel þó þau skipti eigi nánast ekkert sameiginlegt við viðskiptaumhverfi okkar samfélags. Sé þessi skilningur hafður í huga mætti varpa fram þeirri spurningu hvort mannkynið hafi þegið of mikið og ekki gefið nægilega tilbaka? Hvort við sem tegund stöndum í stórri skuld við vistkerfið? Ef svo er þá er kannski ekkert sem heitir ókeypis hádegismatur á frumefninu súrefni. Myndir:
- 1941 Gas Mask Drill | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 17.03.2014). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-NonCommercial-ShareAlike 2.0 Generic — CC BY-NC-SA 2.0
- Leaf - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 18.03.2014).