Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrstu minningar hverrar manneskju eru tengdar uppruna og ættmennum. Sérhverjum manni er því náttúrulegt að vita uppruna sinn, vita hvaðan og hverjar kynkvíslir að honum renna. Ættfræði hefir því verið stunduð frá ómunatíð í flestum menningarsamfélögum og er elsta grein sagnfræði meðal þjóða heims. Ættfræði var stunduð um aldir meðal araba, Gyðinga og Persa í Austurlöndum þar sem stéttaskipting eftir ættum á sér óralanga hefð. Í Grikklandi hinu forna og Rómaveldi voru ritaðar miklar ættartölur stórhöfðingja og Rómverjar þróuðu hugtök um ættatengsl og reiknuðu nákvæmlega erfðarétt hvers ættliðar.
Í fornnorrænum samfélögum gegndi ættfræði ákveðnu hlutverki þar sem skylda hvers bjargálna manns var að framfæra ósjálfbjarga nákomna ættingja sína og hefna ættmenna sinna sem urðu vopndauðir. Og eftir því sem samfélög þróuðust og einstaklingar efldust að eignum og völdum var enn meiri nauðsyn að þekkja kyn sitt þegar velja skyldi saman mann og konu til hjúskapar eða skipta arfi. Allt miðaði að því að tryggja erfðarétt, halda fengnum eignum og völdum innan ættar. Síðar komu fram kirkjuréttarákvæði sem hindruðu skyldleikagiftingar og til þess að framfylgja lagaákvæðunum urðu kennimenn að sjá til þess að ekki væru meinbugir á fyrirhuguðu hjónabandi vegna skyldleika hjónaefna.
Á eldri tíð var skrifað form ættfræði einberar nafnaupptalningar, faðir og sonur voru nefndir hver á eftir öðrum svo sem þekkt er í Biblíunni. Út frá niðjatöflum þróuðust ættarsögur. Við hljótum að gera ráð fyrir því að landnámsmenn Íslands hafi munað ættir sínar og að þær miklu ættartölur sem skrifaðar eru í Landnámu séu runnar úr minni niðja landnámsmannanna. Höfundar Íslendingasagna, Sturlungu og biskupasagna fléttuðu saman ættartölum úr Landnámu og sögum af forfeðrum landsmanna til þess að geyma í minni uppruna Íslendinga.
Á endurreisnartímanum eða á 16. öld í Norðurálfu leituðu lærdómsmenn ákaft svara við því hver væri uppruni þjóða og hvaðan ættir væru runnar. Þýskaland varð á 17. og 18. öld hið eiginlega heimaland ættfræðirannsókna. Þar voru samin stórvirki með ættartöflum forntíðarhöfðingja og mikil rit með ættartölum aðalsmanna og fursta seinni tíða. Lærdómsmenn á Frakklandi söfnuðu í stór rit vitneskju um franskar fursta- og aðalsættir, jafnt lifandi sem útdauðar. Eftir frönsku byltinguna um 1789 stöðvaðist framleiðsla franskra ættartölurita því með umbreytingu stjórnarhátta missti ættfræðin það pólitíska vægi sem hún hafði haft á einveldistímanum, sem var að halda á lofti kyngöfgi franska aðalsins og þar með rétti hans til auðs og valda. Ættfræðiáhugi vaknaði þó að nýju í Norðurálfu í lok 19. aldar og aðferðir í ættfræðirannsóknum voru endurskoðaðar og greinin sett á stall með náttúruvísindum og réttarsögu við virta háskóla í þýskum borgum. Miðstöð þýskra ættfræðirannsókna er nú í Leipzig, Zentralstelle für deutsche Person- und Familiengeschichte, og hefir gefið út meir en 22 þúsund bindi full af ættfræði þýskra.
Eftir frönsku byltinguna missti ættfræðin það pólitíska vægi sem hún hafði haft á einveldistímanum.
Ættfræðiáhugi Dana var daufur á miðöldum. Svíar hinsvegar hjuggu í árdaga ættartölur stórbænda á steina með rúnum og skrifuðu konungaættir á fornbækur og hafa um aldir stundað gríðarmiklar rannsóknir á aðalsættum sem fram koma í margra binda verkum. Ættfræðiáhugi í Danmörku óx á endurreisnartímanum, rígbundinn konunga- og aðalsættum og er tímar liðu voru margar ættbækur uppskrifaðar og auknar eftir skriflegum og munnlegum heimildum, meðal annars gerðar af nafnkunnum aðalsfrúm og jómfrúm, nefna má Sophie Brahe (d. 1643) sem var systir stjörnufræðingsins Tychos Brahes. Í lok 17. aldar og alla 18. öld sátu lærðir menn um allt Danmerkurríki og söfnuðu efni um ættir fursta- og aðalsmanna, einnig borgara, embættismanna og lærðra manna, liggur það allt í haugum á dönskum, norskum og íslenskum handritasöfnum.
Ríkasti maður á Íslandi á fyrri hluta 17. aldar var Magnús Björnsson lögmaður á Munkaþverá, kvæntur Guðrúnu Gísladóttur frá Innra-Hólmi á Akranesi. Elsti sonur þeirra var Gísli. Á árunum 1636–1646 nam hann í Danmörku, Hollandi og Englandi. Heim kominn, nú kallaður Vísi-Gísli, samdi hann ritgerð haustið 1647. Hann lýsti þar áformum sínum um framkvæmdir til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi sem fólust einkum í því að stuðla að viðreisn og eflingu fornra íslenskra höfðingjaætta til þess að þær fengju aftur völd og virðingu. Gísli ætlaði að rannsaka hinar fornu ættir, Svalbarðsætt, Klofaætt og Skarðsætt, sem röktu uppruna sinn til landnámsmanna Íslands. Hugðist Gísli senda Danakonungi skýrslu um uppruna ættanna og manntal í þeirri ætlan að konungur myndi aftur fá þeim réttindi og tign.
Um líkt leyti og Gísli samdi ritgerðina safnaði náfrændi hans, séra Þórður Jónsson í Hítardal, vitneskju um ættir helstu jarðeigandi íslenskra embættismanna á sinni samtíð, það er að segja biskupa, lögmanna, presta, sýslumanna og lögréttumanna sem allir tengdust mjög innbyrðis með giftingum, því þess var vandlega gætt í dýrum ættum á þessum tímum að jafnræði væri með hjónum; maður og kona legðu hlutfallslega jafn mikið til búsins í löndum og lausum aurum. Á svipuðum tíma og séra Þórður safnaði í ættartölurit tiginna samtíðarmanna sinna íslenskra setti hann saman Landnámabók eftir eldri ritum. Því má líta á ættartölusafnrit séra Þórðar sem framhald Landnámabókar, kjarninn er hinn sami: uppruni, niðjar og jarðeignir íslenskra höfðingjaætta ásamt smásögum um jarðneska tilvist sannsögulegra persóna. Um 1400 gekk hérlendis mikil pest (svarti dauði) og stráfelldi háa sem lága, við það slitnuðu ættrakningar frá landnámsmönnum og ættartölur seinni alda hefjast fyrir alvöru á 15. öld, þótt menn hafi stundað þá sem fyrr að rekja ættir tignarmanna til Óðins og Adams.
Ættartölusafnrit séra Þórðar í Hítardal varð allmikið að vöxtum, með þúsundum mannanafna. Það var afritað fyrir helstu embættismenn landsins, meðal annars Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup, Ragnheiði Jónsdóttur biskupaekkju í Gröf á Höfðaströnd og áðurnefndan Gísla Magnússon og afkomendur hans í embættismannastétt landsins. Gísli varð sýslumaður á Hlíðarenda í Fljótshlíð, kvæntist Þrúði Þorleifsdóttur. Guðríður dóttir þeirra giftist Þórði Þorlákssyni Skálholtsbiskupi og Björn sonur þeirra varð sýslumaður, giftist Guðrúnu dóttur Eggerts Björnssonar ríka sýslumanns og Valgerðar Gísladóttur í Bæ á Rauðasandi.
Það sem hefir vakað fyrir þeim frændum, Vísa-Gísla með ritgerðinni og séra Þórði með ættartölusafnritinu, hefir vafalaust verið hið sama og hvatti fræðimenn í nálægum löndum til að skrásetja konunga-, fursta- og aðalsmannaættir: Að efla og viðhalda virðingu og tign höfðingja landsins, gera þá og niðja þeirra örugga í embættismannasessi og tryggja ættmennum höfðingja arfsrétt þeirra eigna sem aflast höfðu.
Ættartölusafnritið úr Hítardal er varðveitt í um það bil tíu megingerðum og er hver með sínum íaukum, leiðréttingum og úrfellingum, en eðli slíkra rita er að þróast, réttast og lengjast eftir lífsgöngu kynslóðanna. Þegar Árni Magnússon, handritasafnarinn mikli, prófessor í Kaupmannahöfn, var í konungserindum á Íslandi 1702–1712 að skrásetja fólk og fé og jarðir landsins, komst hann yfir fjölda dýrmætra íslenskra handrita, jafnt frumskjöl sem fornar sögur, fræði og kvæði. Meginuppskriftum Ættartölusafnritsins úr Hítardal náði hann ekki til sín þótt hann sækti eftir, meðal annars handriti í eigu Guðríðar Gísladóttur fyrr biskupsmaddömu í Skálholti og öðru í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns. Þessi handrit voru ekki föl en héldu áfram að æxlast í eigu og undir handarjaðri efnaðra og ættgóðra embættismanna á Íslandi, ýmist sem heilar ættartölubækur með viðamiklum íaukum ellegar langir ættartölubálkar í annálum. Nefna má annála og ættartölur eftir Jón Halldórsson prófast í Hítardal, Benedikt Þorsteinsson lögmann að Rauðaskriðu, Jón Espólín sýslumann í Skagafirði, Magnús Ketilsson sýslumann í Búðardal á Skarðsströnd, Þorlák Markússon lögréttumann í Gröf á Höfðaströnd, Jón Þorláksson sýslumann á Berunesi og fleiri mætti telja.
Af því sem nú er rakið liggur ljóst fyrir að beint samband er milli æxlunar Ættartölusafnritsins í handritum og ættgöfgi þeirra sem gerðu eða létu gera sér uppskriftir þess til þess að eiga og láta ganga til niðja sinna. Ættartölusafnritið úr Hítardal var ekki uppskrifað heilt í alþýðustétt, svo vitað sé. Þetta er rit efnamanna í embættismannastétt gert og notað í hagnýtum tilgangi til þess að skrásetja og opinbera vitneskju sem dygði til þess að festa virðingarstöðu, eignarrétt og arfsrétt ríkra embættismanna af háum ættum íslenskum og treysta tengsl og vensl jafn tiginna og ríkra ætta.
Ekki skal gleymast að ættvísi var meðal þess fyrsta sem skrifað var á Íslandi og hefir allar götur síðan verið byggð á vitneskju fólksins í landinu sem allt til þessa hefir stundað ættrakningar í bland við sögufróðleik sér til skemmtunar og þekkingarauka á landshögum og marggreindum ættkvíslum í aldanna rásum.
Heimildir:
Fabritius, Albert og Hatt, Harald. Håndbog i slægtforskning. 3. udgave. Kbh. 1993.
Páll Eggert Ólason. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. IV. Rv. 1926.
Guðrún Ása Grímsdóttir. „Til hvers tóku Íslendingar saman ættfræðirit á fyrri öldum?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59032.
Guðrún Ása Grímsdóttir. (2011, 23. mars). Til hvers tóku Íslendingar saman ættfræðirit á fyrri öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59032
Guðrún Ása Grímsdóttir. „Til hvers tóku Íslendingar saman ættfræðirit á fyrri öldum?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59032>.