Urðarmáni getur verið allt frá einum upp í 20-30 sentímetrar í þvermál og varir frá örfáum sekúndum upp í meira en mínútu áður en hann hverfur, ýmist hljóðlaust eða með hvelli. Oft hefur verið tilkynnt að hann hafi sést innandyra og jafnvel í flugvélum og kafbátum. Einnig hefur hann sést fara gegnum glugga, jafnvel án skemmda á glerinu. Fyrirbærið getur gefið frá sér mikla orku við snertingu og valdið tjóni vegna bruna eða bráðnunar. Til eru sagnir um urðarmána allt frá tímum Forngrikkja en gerð fyrirbærisins er enn óljós. Tengsl urðarmána við venjulegar eldingar, ef einhver eru, eru ekki ljós. Ýmsir telja líklegt að fyrirbærið sé einhvers konar rafgas (plasma) en þá þykir meðal annars undarlegt hvað það helst lengi stöðugt. Meðal annarra kenninga um urðarmána er að þetta sé lofthvirfill með lýsandi gastegundum eða jafnvel örbylgjugeislun innan rafgasskeljar. Að lokum skal tekið fram að urðarmáni virðist vera svo lítið þekkt fyrirbæri að heimildum ber ekki saman í smáatriðum um gerð fyrirbærisins og eiginleika. Helstu heimildir: Ohio State háskólinn Vísindavefur tímaritsins Scientific American Britannica á vefnum Mynd:
- Wikipedia - ball lightning. Sótt 29. 6. 2011.