Reyndar getum við komist af án matar í einhvern tíma þar sem líkaminn hefur ákveðinn orkuforða til þess að grípa til í neyð. Hins vegar getum við ekki verið án vatns nema í mjög skamman tíma. Um þetta er meðal annars fjallað í svari við spurningunni Hver er lágmarksnæringarþörf mannsins? eftir Bryndísi Evu Birgisdóttur. Þar segir:
Líkaminn þarf á vatni, kolvetnum, fitu og próteinum, vítamínum og steinefnum að halda til vaxtar og viðhalds. Án vatns lifir maðurinn ekki nema nokkra daga, en hann getur lifað margfalt lengur án matar (40-60 daga). Þá nýtir hann sér fitu og vöðvavefi líkamans sem orku og þann aukaforða sem hann hefur af vítamínum og steinefnum. Vatn er ein meginforsenda lífs á jörðinni.Þó svo að hægt sé að lifa í einhvern tíma án þess að borða þá hefur það veruleg áhrif á heilsuna að svelta sig í lengri tíma og það kemur að því að lokum að líkaminn gefst upp ef hann fær ekki næringu. Á Vísindavefnum eru ýmis fleiri svör sem fjalla um næringu og næringarefni og áhugasamir lesendur ættu að kynna sér nánar. Til dæmis:
- Hvað er hægt að svelta líkamann lengi um kolvetni? eftir Önnu Rögnu Magnúsardóttur
- Hver eiga hlutföll fitu, kolvetnis og prótíns að vera í ráðlögðum dagskammti matar? eftir Dag Snæ Sævarsson
- Hvað brennir mannslíkaminn að meðaltali mörgum hitaeiningum á dag? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.