Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Paracelsus og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?

Jakob Kristinsson

Philippus Theophrastus Aureolus Bombastus von Hohenheim, öðru nafni Paracelsus, fæddist í Einsiedeln-héraði í Sviss árið 1493. Skírnarnafn hans var Philippus Theophrastus. Nafnið Aureolus tók hann sér síðar. Faðir hans, Wilhelm Bombastus von Hohenheim, var læknir og mikill áhugamaður um efnafræði og gullgerðarlist. Árið 1502 fluttist fjölskyldan til Villach í sunnanverðu Austurríki, þar sem Wilhelm gerðist héraðslæknir og kenndi jafnframt efnafræði. Villach var á þeim tíma námabær þar sem einkum var unnið blý úr jörðu en því fylgir sem kunnugt er mikil óhollusta. Strax á barnsaldri fylgdi Paracelsus föður sínum þegar hann fór í sjúkravitjanir. Þar lærði hann að gera að áverkum, sem voru algengir meðal námuverkamanna og þar kynntist hann einkennum blýeitrunar.

Fjórtán ára gamall fór hann að heiman, og var þá staðráðinn í að feta í fótspor föður síns og gerast læknir og efnafræðingur. Á námsárum sínum fór hann víða um lönd og nam meðal annars í Basel og Vín. Prófi í læknisfræði lauk hann að eigin sögn frá háskólanum í Ferrara á Ítalíu árið 1516. Um það finnast þó engin gögn. Það var um þetta leyti, sem hann tók sér nafnið Paracelsus.



Paracelsus (1493-1541)

Að námi loknu sá hann sér farborða sem herlæknir og farandlæknir. Hann ferðaðist um Evrópu og kom meðal annars til Bretlandseyja, Danmerkur, Svíþjóðar, Litháen, Póllands, Grikklands og Tyrklands. Á ferðum sínum lagði hann áherslu á að kynnast sjúkdómum og skrá þá eins og þeir birtust honum í hverju landi og héraði fyrir sig. Hann lagði sig einkum eftir atvinnusjúkdómum, ekki síst þeim, sem fylgdu námuvinnslu. Meðfram þessu stundaði hann rannsóknir og safnaði allri þekkingu, sem hann komst yfir á sviði læknis- lyfja- og efnafræði, bæði frá lærðum og leikum.

Paracelsus hefur oft verið nefndur faðir nútíma lyfja- og eiturefnafræði. Vegna áhuga síns og rannsókna á atvinnusjúkdómum hefur hann líka verið nefndur faðir atvinnusjúkdómafræðinnar. Þekktastur er hann fyrir kennsetningu sína um eiturverkanir efna. Hún fjallar um það að öll efni geti verið eitruð og það ráðist einungis af skammtinum hvort eiturverkanir þeirra komi fram. Orðrétt er hún þannig í riti Paracelsusar, Drey Bücher:
Was ist das nict gifft ist? alle ding sind gifft und nichts ohn gifft/ Allein die dosis macht das ein ding kein gifft ist.
Þessi kennisetning stenst í meginatriðum enn þann dag í dag. Annað, sem Paracelsus gerði sér grein fyrir var að tilraunir væru nauðsynlegar til þess að unnt væri að meta áhrif efna á lifandi verur. Hann benti á að nauðsynlegt væri að greina á milli lyfjaverkunar og eiturverkunar. Þessir eiginleikar afmörkuðust fyrst og fremst af stærð skammta. Enn fremur gerði hann sér grein fyrir sérhæfni efna, bæði hvað varðar eiturverkanir og áhrif þeirra á sjúkdóma. Hann var frumkvöðull þess að nota kvikasilfur gegn sárasótt (syphilis), en það varð leiðandi meðferð gegn sjúkdómnum næstu 300 árin og var enn í notkun í byrjun síðustu aldar.

Paracelsus var afar umdeildur maður á sínum tíma. Snerist það bæði um persónu hans sjálfs og kenningar hans í læknisfræði, sem þóttu vægast sagt róttækar. Hann barðist gegn viðurkenndum fræðum Galenosar og Avicenna, sem kennd voru flestum í háskólum Evrópu á þeim tíma og aflaði sér því margra andstæðinga innan evrópska háskólasamfélagsins. Þó tókst honum árið 1527 að komast að sem fyrirlesari við háskólann í Basel. Hann hélt fyrirlestra sína á þýsku, sem var óvenjulegt þar sem latína var opinbert mál evrópskra háskóla. Á sólstöðuhátíð um sumarið brenndi hann bækur Galenosar og Avicenna á báli á markaðstorgi bæjarins. Í kjölfarið mátti hann greiða háar sektir og var vísað úr borginni. Eftir þetta fór hann víða um Evrópu og gekk misjafnlega. Hann hneigðist til áfengisneyslu og eftir því sem leið á ævina varð hún sífellt ríkari þáttur í lífi hans. Að lokum var honum árið 1540 boðið að setjast að í Salzburg í Austurríki í skjóli erkibiskupsins af Wittelsbach. Þar lést hann, allslaus, bitur og misskilinn 24. september 1541.

Paracelsus var uppi á tímum mikilla breytinga og nýrra hugmynda. Hann var samtímamaður Kópernikusar, Leonardo da Vinci og Marteins Lúters. Hann var afkastamikill rithöfundur og hafa honum verið eignaðar 364 bækur. Um þriðjungur þeirra snertir lyfja- og eiturefnafræði með einum eða öðrum hætti. Flestar bækur honum eignaðar voru gefnar út að honum látnum og óvíst hvort hann var höfundur þeirra allra.

Helstu heimildir og mynd:

  • Deichmann, W.B., Henschler, D., Holmstedt, B. & Keil, G.: What is there that is not a poison? A study of the Third Defense by Paracelsus. Arch. Toxicol. 1986, 58, 207-213.
  • Borzelleca J.F.: Profiles in toxicology. Paracelsus: Herald of modern toxicology. Toxicol Sci. 2000, 53, 2-4.
  • Gallo, M.A.: History and scope of toxicology. Í: Klaassen C.D. (ritstj.) Casarett and Doull´s Toxicology. The Basic Science of Poisons. McGraw-Hill, New York, 2001, bls. 4-5.
  • Marshall, J.L. & Marshall, V.R.: Rediscovery of the elements. Paracelsus. The Hexagon of Alpha Chi Sigma 2005 (winter), 72-78.
  • Mynd: Paracelsus á Wikipedia. Olíumálverk eftir Quentin Massys (1466-1530).

Höfundur

prófessor við Læknadeild HÍ

Útgáfudagur

20.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jakob Kristinsson. „Hver var Paracelsus og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58762.

Jakob Kristinsson. (2011, 20. mars). Hver var Paracelsus og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58762

Jakob Kristinsson. „Hver var Paracelsus og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58762>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Paracelsus og hvert var hans framlag til læknisfræðinnar?
Philippus Theophrastus Aureolus Bombastus von Hohenheim, öðru nafni Paracelsus, fæddist í Einsiedeln-héraði í Sviss árið 1493. Skírnarnafn hans var Philippus Theophrastus. Nafnið Aureolus tók hann sér síðar. Faðir hans, Wilhelm Bombastus von Hohenheim, var læknir og mikill áhugamaður um efnafræði og gullgerðarlist. Árið 1502 fluttist fjölskyldan til Villach í sunnanverðu Austurríki, þar sem Wilhelm gerðist héraðslæknir og kenndi jafnframt efnafræði. Villach var á þeim tíma námabær þar sem einkum var unnið blý úr jörðu en því fylgir sem kunnugt er mikil óhollusta. Strax á barnsaldri fylgdi Paracelsus föður sínum þegar hann fór í sjúkravitjanir. Þar lærði hann að gera að áverkum, sem voru algengir meðal námuverkamanna og þar kynntist hann einkennum blýeitrunar.

Fjórtán ára gamall fór hann að heiman, og var þá staðráðinn í að feta í fótspor föður síns og gerast læknir og efnafræðingur. Á námsárum sínum fór hann víða um lönd og nam meðal annars í Basel og Vín. Prófi í læknisfræði lauk hann að eigin sögn frá háskólanum í Ferrara á Ítalíu árið 1516. Um það finnast þó engin gögn. Það var um þetta leyti, sem hann tók sér nafnið Paracelsus.



Paracelsus (1493-1541)

Að námi loknu sá hann sér farborða sem herlæknir og farandlæknir. Hann ferðaðist um Evrópu og kom meðal annars til Bretlandseyja, Danmerkur, Svíþjóðar, Litháen, Póllands, Grikklands og Tyrklands. Á ferðum sínum lagði hann áherslu á að kynnast sjúkdómum og skrá þá eins og þeir birtust honum í hverju landi og héraði fyrir sig. Hann lagði sig einkum eftir atvinnusjúkdómum, ekki síst þeim, sem fylgdu námuvinnslu. Meðfram þessu stundaði hann rannsóknir og safnaði allri þekkingu, sem hann komst yfir á sviði læknis- lyfja- og efnafræði, bæði frá lærðum og leikum.

Paracelsus hefur oft verið nefndur faðir nútíma lyfja- og eiturefnafræði. Vegna áhuga síns og rannsókna á atvinnusjúkdómum hefur hann líka verið nefndur faðir atvinnusjúkdómafræðinnar. Þekktastur er hann fyrir kennsetningu sína um eiturverkanir efna. Hún fjallar um það að öll efni geti verið eitruð og það ráðist einungis af skammtinum hvort eiturverkanir þeirra komi fram. Orðrétt er hún þannig í riti Paracelsusar, Drey Bücher:
Was ist das nict gifft ist? alle ding sind gifft und nichts ohn gifft/ Allein die dosis macht das ein ding kein gifft ist.
Þessi kennisetning stenst í meginatriðum enn þann dag í dag. Annað, sem Paracelsus gerði sér grein fyrir var að tilraunir væru nauðsynlegar til þess að unnt væri að meta áhrif efna á lifandi verur. Hann benti á að nauðsynlegt væri að greina á milli lyfjaverkunar og eiturverkunar. Þessir eiginleikar afmörkuðust fyrst og fremst af stærð skammta. Enn fremur gerði hann sér grein fyrir sérhæfni efna, bæði hvað varðar eiturverkanir og áhrif þeirra á sjúkdóma. Hann var frumkvöðull þess að nota kvikasilfur gegn sárasótt (syphilis), en það varð leiðandi meðferð gegn sjúkdómnum næstu 300 árin og var enn í notkun í byrjun síðustu aldar.

Paracelsus var afar umdeildur maður á sínum tíma. Snerist það bæði um persónu hans sjálfs og kenningar hans í læknisfræði, sem þóttu vægast sagt róttækar. Hann barðist gegn viðurkenndum fræðum Galenosar og Avicenna, sem kennd voru flestum í háskólum Evrópu á þeim tíma og aflaði sér því margra andstæðinga innan evrópska háskólasamfélagsins. Þó tókst honum árið 1527 að komast að sem fyrirlesari við háskólann í Basel. Hann hélt fyrirlestra sína á þýsku, sem var óvenjulegt þar sem latína var opinbert mál evrópskra háskóla. Á sólstöðuhátíð um sumarið brenndi hann bækur Galenosar og Avicenna á báli á markaðstorgi bæjarins. Í kjölfarið mátti hann greiða háar sektir og var vísað úr borginni. Eftir þetta fór hann víða um Evrópu og gekk misjafnlega. Hann hneigðist til áfengisneyslu og eftir því sem leið á ævina varð hún sífellt ríkari þáttur í lífi hans. Að lokum var honum árið 1540 boðið að setjast að í Salzburg í Austurríki í skjóli erkibiskupsins af Wittelsbach. Þar lést hann, allslaus, bitur og misskilinn 24. september 1541.

Paracelsus var uppi á tímum mikilla breytinga og nýrra hugmynda. Hann var samtímamaður Kópernikusar, Leonardo da Vinci og Marteins Lúters. Hann var afkastamikill rithöfundur og hafa honum verið eignaðar 364 bækur. Um þriðjungur þeirra snertir lyfja- og eiturefnafræði með einum eða öðrum hætti. Flestar bækur honum eignaðar voru gefnar út að honum látnum og óvíst hvort hann var höfundur þeirra allra.

Helstu heimildir og mynd:

  • Deichmann, W.B., Henschler, D., Holmstedt, B. & Keil, G.: What is there that is not a poison? A study of the Third Defense by Paracelsus. Arch. Toxicol. 1986, 58, 207-213.
  • Borzelleca J.F.: Profiles in toxicology. Paracelsus: Herald of modern toxicology. Toxicol Sci. 2000, 53, 2-4.
  • Gallo, M.A.: History and scope of toxicology. Í: Klaassen C.D. (ritstj.) Casarett and Doull´s Toxicology. The Basic Science of Poisons. McGraw-Hill, New York, 2001, bls. 4-5.
  • Marshall, J.L. & Marshall, V.R.: Rediscovery of the elements. Paracelsus. The Hexagon of Alpha Chi Sigma 2005 (winter), 72-78.
  • Mynd: Paracelsus á Wikipedia. Olíumálverk eftir Quentin Massys (1466-1530).
...