Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Viktor Shklovskíj (1893-1984) var einn helsti kenningasmiður rússneska formalismans í bókmenntafræðum og hafði mikil áhrif á hugmyndir manna um áhrifamátt skáldskaparmáls og bókmennta yfirleitt og þær leiðir sem færar væru til að brjótast undan oki hefðar og klisju.
Shklovskíj hóf feril sinn sem samverkamaður Majakovskíjs og fleiri skálda hins rússneska fúturisma sem voru í flokki þeirra sem í byrjun síðustu aldar héldu mjög fram nauðsyn þess að endurnýja skáldskapinn, meðal annars með geðþóttamáli (rú. zaúmnaja retsj) sem leyfði skáldum mikið frelsi í orðsköpun og nýsmíði („Uppreisn orðsins“ 1914 og fleiri rit). Nokkru síðar gerðist hann einn forystumaður OPOJAZ (Félag um rannsóknir á skáldskaparmáli) þar sem komu saman bæði skáld, bókmenntafræðingar og málvísindamenn sem allir stefndu á endurnýjun ef ekki gjörbyltingu, hver á sínu sviði. Grein Shklovskíjs „Listin sem tækni“ (eða aðferð, „Ískússtvo kak prijom“, 1917) var af mörgum álitin eins konar stefnuskrá þess félagsskapar um leið og hún geymdi nokkrar fræðilegar höfuðforsendur hins rússneska formalisma.
Shklovskíj og félagar hans í OPOJAZ deildu hart bæði á siðferðilega nytjahyggju í bókmenntarýni tímans sem og dulúðarupphafningu skáldskapar í skrifum táknhyggjuskálda og samherja þeirra. Þeir litu gjarna á skáldskap sem iðngrein (rú. remeslo), tæknilegt formsköpunarstarf sem byggði á aðferðum og tækni sem hægt væri að kanna af fræðilegri nákvæmni. Shklovskíj lagði sérstaka áherslu á að kjarni listræns starfs og framvindu skáldskapar hlyti að vera sá að vekja skynjun viðtakandans með því að hafna þeim aðferðum sem hafa orðið vana og endurtekningu að bráð. Leita bæri aðferða og tækni sem hrífa orð og hluti og fyrirbæri út úr fangelsi vanans og sjálfvirkrar viðtöku, gera orð og hluti nýja, endurheimta næmleika fyrir þeim og áhrifamætti þeirra með því ekki síst að gera allt framandlegt og „erfitt“ í skynjun viðtakandans (rú. ostranenije).
Shklovskíj varð einhver áhrifamesti kenningasmiður nýmæla í bókmenntum á tíma sem bæði í Rússlandi og fleiri löndum einkenndist af róttæku og oft grimmu uppgjöri við allt sem talið var gamalt og úrelt og afturhaldssamt. Stefnuskrárgreinin „Listin sem tækni” birtist byltingarárið 1917. Shklovskíj tók virkan þátt í byltingunni, reyndar ekki í liði bolsévíka Leníns heldur keppinauta þeirra, Esera svonefndra. Vegna þess var sambúð hans við nýja valdhafa erfið framan af og varð það honum helst til bjargar undan pólitískum hreinsunum að hann naut verndar Maxíms Gorkíjs og tók þátt í ýmsu útbreiðslustarfi hans á sviði bókmennta og fræða.
Um skeið áttu marxistar Leníns og hefðarféndur í liði skálda og bókmenntafræðinga að nokkru samleið: báðir töldu sig vinna að róttækri endurnýjun. En þegar á leið gerðist hin opinbera menningarstefna Sovétríkjanna æ fjandsamlegri tilraunastarfsemi í list og fræðum. Formgerðarpælingar Shklovskíjs og félaga hans voru taldar „formdýrkun“ á kostnað umræðu um innihald og sögulegar forsendur bókmennta, sem og um pólitísk áhrif þeirra á samfélagið. Sjálfur reyndi Shklovskíj að skrifa sig í sátt við breyttar aðstæður og hafnaði meðal annars í frægri grein frá 1930 („Minnisvarði um fræðilega yfirsjón“) helstu öfgum formalismans. Hann tók eftir það tillit til marxískrar söguhyggju eins og hún var iðkuð í Sovétríkjunum. En hann kunni sem fyrr að beita þekkingu sinni og skarpskyggni til að rýna öðrum fræðimönnum lands síns betur í formgerð verka („hvernig þau verða til“) og að vekja athygli með hröðum og djörfum stíl þar sem af góðu hugviti er lögð rækt við galdur hins óvænta.
Shklovskíj skrifaði margt um sovéskar kvikmyndir á gullöld þeirra, einnig áhrifamiklar bækur um Dostojevskíj og Tolstoj (Za i protiv, 1957. Lev Tolstoj, 1963). Starf sitt og kenningar gerði hann upp með áhrifamiklum hætti í safnritinu Bogastrengur - Um það sem ólíkt er með líkum (Tetiva. O neskhodstve skhodnogo, 1970).
Grein Shklovskíjs „Listin sem tækni“ er að finna í íslenskri þýðingu í ritinu Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Reykjavík 1991.
Mynd:
Árni Bergmann. „Hver var Viktor Shklovskíj og hvert var hans framlag til bókmenntafræðinnar?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58510.
Árni Bergmann. (2011, 21. febrúar). Hver var Viktor Shklovskíj og hvert var hans framlag til bókmenntafræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58510
Árni Bergmann. „Hver var Viktor Shklovskíj og hvert var hans framlag til bókmenntafræðinnar?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58510>.