Q = C VHlutfallsstuðulinn C köllum við rýmd (e. capacity) þéttisins. Árið 1779 varð Volta prófessor í eðlisfræði við Háskólann í Pavia og gegndi því starfi í aldarfjórðung. Hann kvæntist Teresu Peregrini og ól upp með henni þrjá syni. Starfsbróðir og landi Volta, Luigi Galvani (1737-1798), hafði gert merkar tilraunir sem sýndu að nýdauðar froskalappir kippast við þegar rafhleðsla kemur nálægt taugum í þeim og neisti hleypur yfir. Þessi merka uppgötvun varðaði veginn til þess sem við nú vitum, að rafmagn og rafhleðslur koma mjög við sögu í öllum lífverum. Galvani hélt að rafmagnið kæmi frá froskvöðvanum og væri eingöngu bundið við lífverur. Volta gerði sér á hinn bóginn grein fyrir því að froskalappirnar gegndu tvöföldu hlutverki í þessum tilraunum. Annars vegar leiða þær rafmagn og hins vegar nema þær það með sýnilegum hætti. Hann setti til dæmis í staðinn pappír vættan með saltpækli og fékk fram straum sem hann gat mælt með tækjum sem hann hafði áður gert sér. Með því að bera saman mismunandi málma í tilraunum sem þessum með rafstraum og rafspennu uppgötvaði Volta það sem við getum kallað rafefnaröðina (e. electrochemical series) eða spennuröðina (e. electromotive series). Hver málmur hefur tiltekna eiginspennu í tiltekinni raflausn. Ef málmskaut úr mismunandi málmum eru í sömu raflausn (e. electrolyte, til dæmis saltvatn) verður spennan milli skautanna mismunurinn á eiginspennu málmanna. Af þeim málmum sem Volta gat rannsakað gáfu sink og kopar mesta spennu sín á milli í raflausn. Ágreiningur Volta og Galvanis var þykkjulaus og frjór eins og oft er í vísindum. Árið 1800 leiddi hann til þess að Volta fann upp eins konar rafhlöðu sem við hann er kennd og kölluð Voltastafli (e. voltaic pile). Í henni er sink- og koparplötum raðað saman á víxl en alltaf höfð raflausn á milli í annað hvort skipti þannig að spennan vex frá einu pari til þess næsta. Með þessu gat Volta búið til talsverðan stöðugan rafstraum með þokkalega jafnri spennu. Þetta tæki Volta er með sanni fyrsta rafhlaða eða batterí sögunnar og þarf varla að orðlengja nú á dögum um mikilvægi þeirrar uppfinningar, en hann þakkaði öðrum líka þeirra framlag. Margir eðlisvísindamenn héldu áfram á sömu braut allar götur til okkar daga, því að enn eru menn að glíma við að gera rafhlöðurnar okkar enn betri!
Til gamans má geta þess að við getum búið til einfalda rafhlöðu í stíl Volta með því að taka sítrónu, vasaljósaperu og tvo ólíka málmhluti, til dæmis galvaníseraðan nagla og koparnagla (eða koparpening), stinga þeim í sítrónuna og mæla strauminn sem myndast. Einnig má nota til dæmis kartöflu eða epli í stað sítrónunnar. Hægt er að lesa nánar um þetta í svari við spurningunni Hvernig eru rafhlöður búnar til? og á Wikipediu. Alessandro Volta varð býsna þekktur í lifanda lífi fyrir vísindastörf sín. Napóleon gerði hann að greifa árið 1810 og síðar var mynd af honum og rafhlöðunni á ítölskum peningaseðli sem nú er ekki lengur í gildi. Hans er minnst með ýmsum hætti í bænum Camnago Volta þar sem hann bar beinin. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er rafmagn? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er rafhleðsla? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hver uppgötvaði rafmagnið? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur
- Hvernig eru rafhlöður búnar til? eftir JGÞ
- Hvernig get ég búið til rafmagn heima hjá mér með einhverju sem er til á öllum heimilum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvernig eru volt og amper skilgreind? eftir Jón Tómas Guðmundsson
- Alessandro Volta á Wikipedia.org.
- Alessandro Volta á The Catholic Encyclopedia.
- Volta and the "Pile" á Electrochemistry Encyclopedia.
- G. Pancaldi, 2003. Science and Culture in the Age of Enlightenment. Princton: Princeton University Press. Sjá kynningu á þessari bók á Veraldarvefnum með því að smella hér.
- Mynd af Volta: Alessandro Volta á Wikimedia Commons. Sótt 8. 2. 2011.
- Myndir af rafhlöðu: Voltaic pile á Wikipedia.org. Sótt 8. 2. 2011.
Af hverju heitir mælieining rafmagnsspennu volt?