Hvernig stendur á því að hitafar, til dæmis á Vestfjörðum, er mjög mismunandi? Það er miklu oftar heitara á Ísafirði og Bíldudal en í Bolungarvík.Ástæður þess að mikill hitamunur mælist á milli nærliggjandi staða á sama tíma geta verið margþættar. Oft kemur þó afstaða lands og sjávar á stöðunum við sögu og sömuleiðis fjöll í námunda við annan hvorn staðinn eða báða. Sjórinn jafnar hitamun dags og nætur og hitabreytingar eru oftast litlar á eyjum og á strönd þar sem vindur blæs á land. Í innsveitum er dægursveifla hitans stór, sérstaklega í björtu veðri. Á sólardögum hitnar landið mjög mikið, en kólnar hratt á kvöldin og um nætur í léttskýjuðu veðri. Veðurstöðvar við strendur geta sýnt bæði mikla og litla hitasveiflu, blási vindur af sjó er hitafar stöðugt en blási af landi gætir dægursveiflu á svipaðan hátt og lengra inn í landi. Hitamunur milli nærliggjandi staða stafar oft af þessari mismunandi hegðan lands og sjávar, önnur stöðin er þá í sjávarlofti, en hin í landlofti. Það fer þá eftir árstíma og tíma sólarhrings hvor stöðin er hlýrri. Nærvera fjalla getur haft mjög mikil staðbundin áhrif á hita. Annars vegar geta þau valdið lóðréttum hreyfingum lofts sem ella hefðu ekki átt sér stað, en hins vegar geta þau líka stíflað framrás lofts. Þá halda þau köldu lofti í skefjum sem annars hefði breiðst yfir stærra svæði.

Fjöll og afstaða lands og sjávar geta haft mikil staðbundin áhrif á hita, til dæmis í Bolungarvík.
- Ræður sjávarloft ríkjum á öðrum staðnum, en ekki hinum? – Hitasveiflur eru mun minni í sjávarloftinu, en í því landræna.
- Eru fjöll nærri annarri hvorri stöðinni eða báðum? – Fjöll geta blandað hlýju lofti að ofan niður að þeirri stöð sem stendur hlémegin við fjall.
- Hver er vindáttin? – Hún getur beint sjávarlofti frá stað eða inn yfir hann.
- Hvað er klukkan? – Sólin hitar á daginn, sérstaklega í landloftinu.
- Hver er árstíminn? – Sólin hefur mun meiri áhrif á sumrin þegar hún er hátt á lofti heldur en á öðrum árstímum.
- Hvernig er skýjafari háttað? – Hitabreytingar eru mun minni í skýjuðu en björtu veðri.
- Vitum við eitthvað um stöðugleikann? – Sé loft stöðugt bendir það til þess að hlýtt loft sé yfir, vindur við fjöll getur blandað því niður. Sé loft óstöðugt skipta lóðréttar hreyfingar litlu máli fyrir hegðan hita.
- Hvers vegna lygnir oft á kvöldin? eftir Trausta Jónsson
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Hvað er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Hvers vegna er kaldara í háloftum og á fjöllum en á láglendi? eftir Harald Ólafsson