Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Björn Sigurðsson (1913-1959) læknir var fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Björn lést um aldur fram og hafði þá aðeins verið rúman áratug í starfi forstöðumanns að Keldum. Á stuttri ævi náði hann ótrúlegum árangri í rannsóknum á sviði meinafræði, bakteríufræði, veirufræði, ónæmisfræði og faraldsfræði.
Björn vann að fyrstu rannsóknum sínum sem læknanemi árið 1936 á taugaveikisýkingu í Flatey á Skjálfanda og tókst honum að greina sýkilinn við frumstæðar aðstæður. Að loknu kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1937 starfaði hann við Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg og fór síðan til framhaldsnáms og rannsókna við Carlsbergfondets Biologiske Institut í Kaupmannaahöfn. Björn var við framhaldsnám og rannsóknir í Rockefeller Institute í Princeton, New Jersey 1941-1943 en kom síðan heim til starfa á Rannsóknastofunni við Barónsstíg undir stjórn Níelsar Dungals.
Rockefellersjóðurinn lagði fram styrk til uppbyggingar Tilraunastöðvarinnar að Keldum sem tók til starfa 1948 en henni var ætlað að bregðast við sauðfjárpestum sem borist höfðu til landsins með innflutningi sauðfjár af svonefndu Karakúlkyni árið 1933.
Björn var frumkvöðull veirurannsókna á Íslandi og beindust rannsóknir hans jöfnum höndum að veirusýkingum manna og dýra. Árið 1957 var framleitt á Keldum bóluefni við svokallaðri Asíuinflúensu í mönnum og reyndist jafn vel og innflutt bóluefni við þessum sjúkdómi. Björn rannsakaði einnig áhrif bólusetninga við mænusótt og einangraði aðra iðraveiru, svokallaða Coxsackieveiru sem olli hvotsótt í mönnum hérlendis. Fleiri iðraveirur manna voru einangraðar á Keldum undir hans stjórn.
Þeir sjúkdómar sem lögðust á sauðfé landsmanna og Björn rannsakaði voru votamæði, visna, þurramæði, riða og garnaveiki. Úr heilasjúkdóminum visnu og lungnasjúkdóminum mæði ræktuðust áður óþekktar en náskyldar veirur. Á grundvelli rannsókna sinna á þessum sjúkdómum setti Björn fram kenningu sína um sérstakan flokk smitsjúkdóma sem hann nefndi hæggenga smitsjúkdóma. Hann gerði grein fyrir þessum hugmyndum sínum í fyrirlestrum við Lundúnaháskóla, þremur greinum í British Veterinary Journal árið 1954 og grein í Skírni 1958.
Það sem einkennir hæggenga smitsjúkdóma er langur meðgöngutími, stundum mánuðir eða ár, frá sýkingu þar til sjúkdómseinkenni koma fram. Eftir að einkenni koma í ljós ágerast þau jafnt og þétt og enda í alvarlegum sjúkdómi eða dauða. Síðar hefur komið í ljós að þeir sjúkdómar sem Björn taldi til hæggengra sýkinga eru mismunandi eðlis, annars vegar valda þeim veirur eins og þær sem valda visnu og mæði en hins vegar eru smitandi prótín, svokölluð príon, sem valda riðu í sauðfé, kúariðu og skyldum sjúkdómum í mönnum.
Björn Sigurðsson var fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.
Þegar mönnum tókst að einangra veirur (HIV) sem valda eyðni eða alnæmi í mönnum kom í ljós að þær eru af sérstökum undirflokki retróveira eins og veirur þær sem valda visnu og mæði í sauðfé. Þessum undirflokki var gefið nafnið lentiveirur í virðingarskyni við hugmyndir Björns um hæggenga smitsjúkdóma en latneska orðið lentus þýðir hægur. Með því má segja að Birni Sigurðssyni, rannsóknum hans og hugmyndum hafi verið reistur óbrotgjarn minnisvarði.
Einnig vann Björn að því að þróa bóluefni við garnaveiki í sauðfé sem olli bændum þungum búsifjum og hingað barst með innflutningi Karakúlfjár. Með bóluefni Björns hefur tekist að koma nær alveg í veg fyrir tjón af garnaveiki í sveitum landsins. Björn varði doktorsritgerð um rannsóknir sínar á garnaveiki við Kaupmannahafnarháskóla 1955.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Guðmundur Pétursson. „Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2011, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58128.
Guðmundur Pétursson. (2011, 14. janúar). Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58128
Guðmundur Pétursson. „Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2011. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58128>.