Hreindýra jólasveinsins er líklega fyrst getið á prenti árið 1823, en þá birtist í bandarísku blaði kvæðið „Account of a Visit from St. Nicholas” sem reyndar er betur þekkt undir upphafsorðum sínum, „’Twas the night before Christmas”. Kvæðið náði fljótt miklum vinsældum og er lestur þess hluti af jólahaldi margra Bandaríkjamanna enn þann dag í dag. Kvæðið hefur haft töluverð áhrif á hugmyndir manna um jólasveininn, útlit hans, hegðun og ferðamáta.
Í kvæðinu ferðast jólasveinninn um á sleða sem dreginn er af átta hreindýrum og síðan hefur þessi ferðamáti verið nátengdur jólasveininum, alla vega þeim ameríska. Hér fyrir neðan má lesa þann hluta kvæðisins sem um þetta fjallar:
The moon on the breast of the new-fallen snow Gave the lustre of mid-day to objects below, When, what to my wondering eyes should appear, But a minature sleigh, and eight tiny rein-deer, With a little old driver, so lively and quick, I knew in a moment it must be St. Nick. More rapid than eagles his coursers they came, And he whistled, and shouted, and call'd them by name: "Now! Dasher, now! Dancer, now! Prancer and Vixen, "On! Comet, on! Cupid, on! Donder and Blitzen;Þarna eru hreindýr jólasveinsins nafngreind en frægasta hreindýrið sem honum tengist, Rúdolf með rauða nefið, er ekki þar á meðal. Rúdolf kom nefnilega ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld eftir að áðurnefnt kvæði um jólasveininn kom fyrst út. Hann birtist fyrst í jólasögu árið 1939 sem samin var og dreift fyrir verslunarkeðju í Bandaríkjunum og naut sagan strax mikilla vinsælda. Tíu árum síðar var samið lag um Rúdolf og er það eitt af vinsælustu jólalögum heims. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Bjó Coca-Cola-fyrirtækið bandaríska jólasveinninn til? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Hvenær var byrjað að setja skóinn út í glugga og hvaðan kemur sá siður? eftir Sigurð Ægisson
- Hvað getið þið sagt mér um jólasveina? eftir Gróu Finnsdóttur og Árna Björnsson
- A Visit from St. Nicholas á Wikipedia. Skoðað 30. 11. 2010.
- Rudolph the Red-Nosed Reindeer á Snopes.com. Skoðað 30. 11. 2010.
- Account of a Visit from St. Nicholas á Nineteenth-Century Children & What They Read. Skoða 30. 12. 2010.
- Mynd: The Project Gutenberg EBook of A Visit From Saint Nicholas. Sótt 1. 12. 2010.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvaðan kom sú hefð að hreindýr dragi sleða jólasveinsins?