Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=
Nú eru þekktar um 130 tegundir prímata og er fæða þeirra mjög fjölbreytt. Mismunandi tegundir éta ólíka fæðu og eins getur verið munur á fæðuvali innan sömu tegundar.

Algengast er að fæða prímata komi úr plönturíkinu og eru nokkrar tegundir nær alfarið plöntuætur. Flestar tegundir éta þó einnig einhverja leyti fæðu úr dýraríkinu, allt frá skordýrum til annarra spendýra. Lítill hluti prímata étur einungis fæðu úr dýraríkinu.

Flestir tengja saman apa og banana en þeir éta ýmsa aðra ávexti líka og oft fæðu úr dýraríkinu.

Hér á eftir verður fjallað um fæðunám nokkurra ætta prímata.

Lemúrar (Lemuridae) takmarka fæðu sína við jurtir og afurðir þeirra, svo sem ávexti og laufblöð enda sést það á þróun tanngerðar þeirra þar sem vígtennur og ránjaxlar eru verulega rýrir. Það eru vísbendingar um að lemúrar eða forveri þeirra hafi áður stundað meira fæðunám úr dýraríkinu. Síðan er líklegt að frumlemúrar hafi hallast í meiri mæli að jurta- og ávaxtaáti eftir því sem tegundirnar þróuðust.

Tanngerðin, það er gerð, fjöldi og röð tanna getur sagt ýmislegt um fæðunám dýra. Hinir frumstæðu draugaapar (Tarsiidae) hafa til dæmis vel þróaða jaxla og eru þeir eina ætt prímata sem lifir nær einungis á öðrum dýrum. Helsta fæða þeirra eru skordýr en þeir éta einnig hryggdýr, meðal annars fugla og skriðdýr. Draugapar stökkva á bráð sína, það hefur meira að segja sést til þeirra stökkva á fugla sem eru á flugi.

Nýja-heimsapar eða vesturapar (Platyrrhini), meðal annars griprófuapar (Cebidae), eru alætur en éta helst skordýr og ávexti. Hlutfall á milli jurta og dýra í fæðunni er þó afar breytileg eftir tegundum innan ættarinnar. Tanngerð griprófuapa er 2.1.3.2-3/2.1.3.2-3 sem vísar til blandaðrar fæðu, afturjaxlar eru flatir svo þeir geti mulið jurtafæðu og vísir er að ránjöxlum og framstæðum vígtönnum.

Önnur ætt nýja-heimsapa, köngulóarapar (Atelidae) eru einnig alætur. Til ættarinnar teljast 29 tegundir. Rannsóknir hafa sýnt að stórvaxnari tegundirnar eru einungis jurta- og ávaxtaætur en smærri tegundir éta blandaða fæðu, jurtir og skordýr.

Gibbon-apar (Hylobatidae) eru asískir apar, aðlagaðir lífi í þéttum regnskógum Suðaustur-Asíu. Rannsóknir á fæðuvali tegunda innan þessarar ættar sýna að um 60% eru ávextir, rúmlega 30% eru laufblöð og lítill hluti er fuglsegg og skordýr.

Simpansar í Gombe gæða sér á kjöti.

Þá er komið að mannöpum (Hominidae). Sumir mannapar, eins og górillur (Gorilla sp.) og orangútanapar (Pongo pygmaeus) éta einungis fæðu úr jurtaríkinu en aðrar eru alætur eins og til dæmis menn (Homo sapiens), simpansar (Pan troglodytes) og bonobo-apar eða dverg-simpansar (Pan paniscus).

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á simpönsum í Gombe-þjóðgarðinum í Tansaníu sýna að um 97% af fæðu þeirra kemur úr jurtaríkinu, það er laufblöð og ávextir. Það eru því ekki nema um 3% fæðunnar sem kemur úr dýraríkinu og þá helst þegar skortur er á fæðu úr jurtaríkinu, á þurrkatímum í ágúst og september. Helsta fæða þeirra meðal hryggdýra eru rauðhettuapar (Procolobus badius) en einnig ræna þeir fuglshreiður og drepa grísi skógarsvína svo einhver dæmi séu nefnd.

Bonobo-apar finnast í Mið-Afríku aðallega í Kongó (áður Zaire) en einnig í Lýðveldinu Kongó. Rannsóknir á fæðuháttum þeirra hafa sýnt að þeir lifa aðallega á fæðu úr jurtaríkinu, laufblöðum og ávöxtum, en einnig veiða þeir spendýr svo sem flugíkorna og smávaxnar antilópur sem lifa í regnskógunum.

Heimildir og myndir:

  • Ash, M. M., Nelson, S. J. & Wheeler, R. C. (2003). Wheeler's Dental Anatomy, Physiology, and Occlusion. W.B. Saunders.
  • Boesch, C. 1994. Hunting strategies of Gombe and Tai chimpanzees. Í Chimpanzee Cultures. Ritstj. W.C. McGrew, F.B.M. de Waal, R.W. Wrangham og P. Heltne. Cambridge, Mass.: Harvard University Press.
  • Milton, C. (August 1993) Diet and Primate Evolution. Scientific American vol. 269 bls. 70–77.
  • Mynd af apa borða epli: Piqsels.com. Sótt 20. 10. 2021.
  • Mynd af simpönsum: Flickr. Höfundur myndar: David Bygott. Birt undir CC BY-NC-SA 2.0 leyfi. Sótt 24. 11. 2010.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

25.11.2010

Síðast uppfært

20.10.2021

Spyrjandi

Katrín Eva Jónsdóttir, Nanna Kristjánsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað éta apar?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2010, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57671.

Jón Már Halldórsson. (2010, 25. nóvember). Hvað éta apar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57671

Jón Már Halldórsson. „Hvað éta apar?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2010. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57671>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað éta apar?
Nú eru þekktar um 130 tegundir prímata og er fæða þeirra mjög fjölbreytt. Mismunandi tegundir éta ólíka fæðu og eins getur verið munur á fæðuvali innan sömu tegundar.

Algengast er að fæða prímata komi úr plönturíkinu og eru nokkrar tegundir nær alfarið plöntuætur. Flestar tegundir éta þó einnig einhverja leyti fæðu úr dýraríkinu, allt frá skordýrum til annarra spendýra. Lítill hluti prímata étur einungis fæðu úr dýraríkinu.

Flestir tengja saman apa og banana en þeir éta ýmsa aðra ávexti líka og oft fæðu úr dýraríkinu.

Hér á eftir verður fjallað um fæðunám nokkurra ætta prímata.

Lemúrar (Lemuridae) takmarka fæðu sína við jurtir og afurðir þeirra, svo sem ávexti og laufblöð enda sést það á þróun tanngerðar þeirra þar sem vígtennur og ránjaxlar eru verulega rýrir. Það eru vísbendingar um að lemúrar eða forveri þeirra hafi áður stundað meira fæðunám úr dýraríkinu. Síðan er líklegt að frumlemúrar hafi hallast í meiri mæli að jurta- og ávaxtaáti eftir því sem tegundirnar þróuðust.

Tanngerðin, það er gerð, fjöldi og röð tanna getur sagt ýmislegt um fæðunám dýra. Hinir frumstæðu draugaapar (Tarsiidae) hafa til dæmis vel þróaða jaxla og eru þeir eina ætt prímata sem lifir nær einungis á öðrum dýrum. Helsta fæða þeirra eru skordýr en þeir éta einnig hryggdýr, meðal annars fugla og skriðdýr. Draugapar stökkva á bráð sína, það hefur meira að segja sést til þeirra stökkva á fugla sem eru á flugi.

Nýja-heimsapar eða vesturapar (Platyrrhini), meðal annars griprófuapar (Cebidae), eru alætur en éta helst skordýr og ávexti. Hlutfall á milli jurta og dýra í fæðunni er þó afar breytileg eftir tegundum innan ættarinnar. Tanngerð griprófuapa er 2.1.3.2-3/2.1.3.2-3 sem vísar til blandaðrar fæðu, afturjaxlar eru flatir svo þeir geti mulið jurtafæðu og vísir er að ránjöxlum og framstæðum vígtönnum.

Önnur ætt nýja-heimsapa, köngulóarapar (Atelidae) eru einnig alætur. Til ættarinnar teljast 29 tegundir. Rannsóknir hafa sýnt að stórvaxnari tegundirnar eru einungis jurta- og ávaxtaætur en smærri tegundir éta blandaða fæðu, jurtir og skordýr.

Gibbon-apar (Hylobatidae) eru asískir apar, aðlagaðir lífi í þéttum regnskógum Suðaustur-Asíu. Rannsóknir á fæðuvali tegunda innan þessarar ættar sýna að um 60% eru ávextir, rúmlega 30% eru laufblöð og lítill hluti er fuglsegg og skordýr.

Simpansar í Gombe gæða sér á kjöti.

Þá er komið að mannöpum (Hominidae). Sumir mannapar, eins og górillur (Gorilla sp.) og orangútanapar (Pongo pygmaeus) éta einungis fæðu úr jurtaríkinu en aðrar eru alætur eins og til dæmis menn (Homo sapiens), simpansar (Pan troglodytes) og bonobo-apar eða dverg-simpansar (Pan paniscus).

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á simpönsum í Gombe-þjóðgarðinum í Tansaníu sýna að um 97% af fæðu þeirra kemur úr jurtaríkinu, það er laufblöð og ávextir. Það eru því ekki nema um 3% fæðunnar sem kemur úr dýraríkinu og þá helst þegar skortur er á fæðu úr jurtaríkinu, á þurrkatímum í ágúst og september. Helsta fæða þeirra meðal hryggdýra eru rauðhettuapar (Procolobus badius) en einnig ræna þeir fuglshreiður og drepa grísi skógarsvína svo einhver dæmi séu nefnd.

Bonobo-apar finnast í Mið-Afríku aðallega í Kongó (áður Zaire) en einnig í Lýðveldinu Kongó. Rannsóknir á fæðuháttum þeirra hafa sýnt að þeir lifa aðallega á fæðu úr jurtaríkinu, laufblöðum og ávöxtum, en einnig veiða þeir spendýr svo sem flugíkorna og smávaxnar antilópur sem lifa í regnskógunum.

Heimildir og myndir:

  • Ash, M. M., Nelson, S. J. & Wheeler, R. C. (2003). Wheeler's Dental Anatomy, Physiology, and Occlusion. W.B. Saunders.
  • Boesch, C. 1994. Hunting strategies of Gombe and Tai chimpanzees. Í Chimpanzee Cultures. Ritstj. W.C. McGrew, F.B.M. de Waal, R.W. Wrangham og P. Heltne. Cambridge, Mass.: Harvard University Press.
  • Milton, C. (August 1993) Diet and Primate Evolution. Scientific American vol. 269 bls. 70–77.
  • Mynd af apa borða epli: Piqsels.com. Sótt 20. 10. 2021.
  • Mynd af simpönsum: Flickr. Höfundur myndar: David Bygott. Birt undir CC BY-NC-SA 2.0 leyfi. Sótt 24. 11. 2010.
...