Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu margir simpansar eru til í heiminum núna?

Jón Már Halldórsson

Stofnum simpansa (Pan troglodytes) hefur hnignað verulega á undanförnum áratugum, bæði vegna þess að búsvæðum þeirra hefur verið eytt og vegna ofveiði. Rannsóknir á stofnstærð simpansa á nokkrum stöðum í Vestur-Afríku hafa sýnt að allt að 90% fækkun hefur orðið á aðeins 28 ára tímabili! Þetta á meðal annars við um simpansastofna á Fílabeinsströndinni.



Fílabeinsströndin hefur löngum verið álitin sterkasta vígi simpansa í Vestur-Afríku og niðurstöðurnar eru þess vegna sláandi. Um 1960 er talið að um 100 þúsund simpansar hafi verið í landinu en árið 1980 var stofnstærðin komin niður í 8-12 þúsund einstaklinga. Fyrir nokkrum mánuðum fór fram talning á hreiðrum simpansa á Fílabeinsströndinni. Aparnir nota hreiðrin eða bælin til hvíldar yfir nóttu. Talningamenn fundu einungis merki um 234 dýr og aðeins í Taï-þjóðgarðinum. Önnur svæði þar sem simpansar voru árið 1980 hafa nú verið lögð undir undir akuryrkju eða veiðiþjófnaður hefur gengið endanlega frá öpunum sem þar lifðu. Frá árinu 1960 til dagsins í dag hefur simpönsum á Fílabeinsströndinni þannig fækkað úr 100 þúsund dýrum niður í færri en þúsund dýr.

Þetta er ekki einsdæmi því að á alltof mörgum stöðum í Afríku hefur þróunin verið með sama hætti. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu hratt stórum spendýrategundum hnignar í náttúrunni.

Ástandið er eilítið skárra í mið- og austurhluta álfunnar. Vísindamenn telja að stofnstærð simpansa í álfunni allri sé um 200 þúsund dýr. Séu skekkjumörk tekin með í reikninginn gætu dýrin verið á bilinu 145 - 220 þúsund. Þessar tölur eru að vísu frá árinu 1989 og fjölmargir fræðimenn telja að stofninn sé nú sennilega kominn vel niður fyrir 100 þúsund einstaklinga.

Þess má geta að af 25 Afríkuríkjum sem höfðu simpansa í fánu sinni hafa fimm þeirra misst alla apana. Simpansar finnast ekki lengur í Gambíu, Gíneu-Bissá, Búrkína Fasó, Tógó og Benín. Í Gana, Nígeríu, Búrundí og Rúanda hefur simpönsum fækkað svo mikið að stofnarnir teljast vart lífvænlegir lengur. Stærstu stofnar simpansa finnast nú í Gabon, Kongó og Kamerún.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Oates, J.F. 1985. IUCN/SSC Primate Specialist Group Action Plan for African Primate Conservation: 1986-90. IUCN Gland, Switzerland and Cambridge, U.K.
  • Nowak, R.M. 1991. Walker's Mammals of the World. 5. útg. 1. bindi. John Hopkins University Press, London. Bls. 506-510.

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

9.9.2009

Spyrjandi

Ragnhildur Sandra Kristjánsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hversu margir simpansar eru til í heiminum núna?“ Vísindavefurinn, 9. september 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53369.

Jón Már Halldórsson. (2009, 9. september). Hversu margir simpansar eru til í heiminum núna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53369

Jón Már Halldórsson. „Hversu margir simpansar eru til í heiminum núna?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53369>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu margir simpansar eru til í heiminum núna?
Stofnum simpansa (Pan troglodytes) hefur hnignað verulega á undanförnum áratugum, bæði vegna þess að búsvæðum þeirra hefur verið eytt og vegna ofveiði. Rannsóknir á stofnstærð simpansa á nokkrum stöðum í Vestur-Afríku hafa sýnt að allt að 90% fækkun hefur orðið á aðeins 28 ára tímabili! Þetta á meðal annars við um simpansastofna á Fílabeinsströndinni.



Fílabeinsströndin hefur löngum verið álitin sterkasta vígi simpansa í Vestur-Afríku og niðurstöðurnar eru þess vegna sláandi. Um 1960 er talið að um 100 þúsund simpansar hafi verið í landinu en árið 1980 var stofnstærðin komin niður í 8-12 þúsund einstaklinga. Fyrir nokkrum mánuðum fór fram talning á hreiðrum simpansa á Fílabeinsströndinni. Aparnir nota hreiðrin eða bælin til hvíldar yfir nóttu. Talningamenn fundu einungis merki um 234 dýr og aðeins í Taï-þjóðgarðinum. Önnur svæði þar sem simpansar voru árið 1980 hafa nú verið lögð undir undir akuryrkju eða veiðiþjófnaður hefur gengið endanlega frá öpunum sem þar lifðu. Frá árinu 1960 til dagsins í dag hefur simpönsum á Fílabeinsströndinni þannig fækkað úr 100 þúsund dýrum niður í færri en þúsund dýr.

Þetta er ekki einsdæmi því að á alltof mörgum stöðum í Afríku hefur þróunin verið með sama hætti. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu hratt stórum spendýrategundum hnignar í náttúrunni.

Ástandið er eilítið skárra í mið- og austurhluta álfunnar. Vísindamenn telja að stofnstærð simpansa í álfunni allri sé um 200 þúsund dýr. Séu skekkjumörk tekin með í reikninginn gætu dýrin verið á bilinu 145 - 220 þúsund. Þessar tölur eru að vísu frá árinu 1989 og fjölmargir fræðimenn telja að stofninn sé nú sennilega kominn vel niður fyrir 100 þúsund einstaklinga.

Þess má geta að af 25 Afríkuríkjum sem höfðu simpansa í fánu sinni hafa fimm þeirra misst alla apana. Simpansar finnast ekki lengur í Gambíu, Gíneu-Bissá, Búrkína Fasó, Tógó og Benín. Í Gana, Nígeríu, Búrundí og Rúanda hefur simpönsum fækkað svo mikið að stofnarnir teljast vart lífvænlegir lengur. Stærstu stofnar simpansa finnast nú í Gabon, Kongó og Kamerún.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Oates, J.F. 1985. IUCN/SSC Primate Specialist Group Action Plan for African Primate Conservation: 1986-90. IUCN Gland, Switzerland and Cambridge, U.K.
  • Nowak, R.M. 1991. Walker's Mammals of the World. 5. útg. 1. bindi. John Hopkins University Press, London. Bls. 506-510.

Mynd:

...