Fílabeinsströndin hefur löngum verið álitin sterkasta vígi simpansa í Vestur-Afríku og niðurstöðurnar eru þess vegna sláandi. Um 1960 er talið að um 100 þúsund simpansar hafi verið í landinu en árið 1980 var stofnstærðin komin niður í 8-12 þúsund einstaklinga. Fyrir nokkrum mánuðum fór fram talning á hreiðrum simpansa á Fílabeinsströndinni. Aparnir nota hreiðrin eða bælin til hvíldar yfir nóttu. Talningamenn fundu einungis merki um 234 dýr og aðeins í Taï-þjóðgarðinum. Önnur svæði þar sem simpansar voru árið 1980 hafa nú verið lögð undir undir akuryrkju eða veiðiþjófnaður hefur gengið endanlega frá öpunum sem þar lifðu. Frá árinu 1960 til dagsins í dag hefur simpönsum á Fílabeinsströndinni þannig fækkað úr 100 þúsund dýrum niður í færri en þúsund dýr. Þetta er ekki einsdæmi því að á alltof mörgum stöðum í Afríku hefur þróunin verið með sama hætti. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu hratt stórum spendýrategundum hnignar í náttúrunni. Ástandið er eilítið skárra í mið- og austurhluta álfunnar. Vísindamenn telja að stofnstærð simpansa í álfunni allri sé um 200 þúsund dýr. Séu skekkjumörk tekin með í reikninginn gætu dýrin verið á bilinu 145 - 220 þúsund. Þessar tölur eru að vísu frá árinu 1989 og fjölmargir fræðimenn telja að stofninn sé nú sennilega kominn vel niður fyrir 100 þúsund einstaklinga. Þess má geta að af 25 Afríkuríkjum sem höfðu simpansa í fánu sinni hafa fimm þeirra misst alla apana. Simpansar finnast ekki lengur í Gambíu, Gíneu-Bissá, Búrkína Fasó, Tógó og Benín. Í Gana, Nígeríu, Búrundí og Rúanda hefur simpönsum fækkað svo mikið að stofnarnir teljast vart lífvænlegir lengur. Stærstu stofnar simpansa finnast nú í Gabon, Kongó og Kamerún. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað getið þið sagt mér um simpansa? eftir Jón Má Halldórsson
- Hversu þungur er apaheili? eftir JMH
- Hvaða dýr búa í Kongó? eftir Jón Má Halldórsson
- Oates, J.F. 1985. IUCN/SSC Primate Specialist Group Action Plan for African Primate Conservation: 1986-90. IUCN Gland, Switzerland and Cambridge, U.K.
- Nowak, R.M. 1991. Walker's Mammals of the World. 5. útg. 1. bindi. John Hopkins University Press, London. Bls. 506-510.