Þegar St. Peter, skip landkönnuðarins Vitus Bering (1681-1741), strandaði undan ströndum Kamtsjatka snemma í nóvember árið 1741 var náttúrufræðingurinn Georg Wilhelm Steller (1709-1746) meðal skipbrotsmanna. Á meðan beðið var eftir björgun safnaði Steller umfangsmiklum upplýsingum um þessa risavöxnu sækú, mældi til dæmis líffæri og skráði ýmsar upplýsingar um vistfræði hennar. Strandaglóparnir drápu ekki margar sækýr en lýstu kjötinu sem svipuðu og hvalkjöti, fitan væri afar bragðgóð og endingin mikil. Tíu mánuðum eftir strandið komust skipbrotsmennirnir af strandstað með því að smíða nýtt skip úr flaki St. Peters. Skýrsla Stellers um sækýrnar vakti mikla forvitni fræðimanna í Evrópu og má segja að sú vitneskja hafi markað endalok tegundarinnar. Skip á langferðum um Kyrrahafið komu við í Beringshafi og birgðu sig upp af kjöti sækúa, en sökum stærðar sinnar voru þær svifaseinar og því auðveld bráð. Sennilega tókst aðeins að nýta eina af hverjum fimm sækúm sem skotnar voru, en aðrar komist undan til þess eins að deyja af sárum sínum. Talið er að síðasta Steller-sækýrin hafi verið drepin árið 1768, aðeins nokkrum áratugum eftir að Evrópumenn fréttu fyrst af tilveru tegundarinnar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru sækýr sjónlausar og þá af hverju? eftir Jón Má Halldórsson
- Getur þú lýst fyrir mér hvar sækýr búa og hvernig þær afla sér fæðu? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað borguðu Bandaríkjamenn fyrir Alaska þegar þeir keyptu það? eftir Ulriku Andersson
- Weinstein, B. og J. Patton. 2000. Hydrodamalis gigas, Animal Diversity Web . Skoðað í febrúar 2006.
- Steller's Sea Cow á Wikipedia, the free encyclopedia. Skoðað í febrúar 2006.