Evróvisjónstjarnan Silvía Nótt og dansararnir 'Hommi' (t.v.) og 'Nammi' (t.h.).
Ég er fædd til að vinna þetta, tremma í hel. Rústa þessu dæmi, fæ tremma mörg stig.Það er vel skiljanlegt að orðið vefjist fyrir mönnum í þessu samhengi, þar sem það virðist hafa ólíka merkingu. Í fyrri línunni hefur það frekar neikvæðan blæ og það liggur beinast við að lesa það sem sagnorð, eins og að 'svelta í hel' eða 'frjósa í hel'. Í seinni línunni hefur tremmi hins vegar jákvæða merkingu, þar sem söngkonan 'rústar þessu dæmi' og fær 'tremma mörg stig'. Þessar ólíku merkingar orðsins tremmi í söngtextanum er auðvelt að skýra ef haft er í huga að slanguryrðið tremmi er stytt hljóðlíking delerium tremens. Í fyrri línunni vísar sögnin 'tremma í hel' til latnesku sagnarinnar tremo og söngkonan skelfur í hel, enda ekki furða því þrátt fyrir mikið sjálfstraust er ekkert eðlilegra en að menn fái sviðsskrekk og skjálfi fyrir framan heiminn í Evróvisjón. Þegar söngkonan er hætt að skjálfa og stigin eru talin, vísar tremmi til delirum sem er að vera óður, geggjaður. Þá orðanotkun þekkja flestir, til dæmis þegar eitthvað er 'brjálæðislega flott', 'alveg geggjað', 'klikkaðslega sjúklegt', 'sikk fríkað', og svo framvegis. Að fá 'tremma mörg stig' er þess vegna orðanotkun af sama tagi og 'ógeðslega töff', sem kemur fyrir í söngtextanum. Þess má að lokum geta að elsta dæmið um orðið tremma í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr seinna bindi sögu Vésteins Lúðvíkssonar Gunnar og Kjartan sem kom út árið 1972. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju eru Ísraelar og Tyrkir þátttakendur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva? eftir EDS.
- Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hver er munurinn á slettum, slangri og tökuorðum? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1989.
- Íslensk orðabók (2. bindi), 3. útg., ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Edda, 2002.
- Til hamingju Ísland. Gagnrýni 2. febrúar 2006. Baggalútur.
- Myndin er fengin af Myndabloggi Silvíu Nætur.