Í safni Náttúrufræðistofnunar eru eintök sem staðfesta allmarga fundarstaði um sunnanvert Ísland, frá Vogum á Reykjanesskaga austur í Hornafjörð, einnig á Patreksfirði, í Skagafirði og á Egilsstöðum. Einnig hafa borist lýsingar á tilvikum sem benda til skógarmítils víðar að en varðveitt eintök eru ekki því til staðfestingar. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru ókannaðir en flestir hafa fundist á mönnum og hundum. Skógarmítlar hafa fundist hér frá því snemma sumars og fram eftir hausti, frá 3. júní fram til 1. nóvember. Fyrsti skógarmítill sem fannst hér á landi var tekinn af þúfutittlingi er skotinn var í Surtsey 5. maí 1967, þá nýlentur eftir flug frá vetrarstöðvum í Evrópu. Þar með fékkst staðfesting á því að tegundin gæti borist til landsins með fuglum. Það var ekki fyrr en undir lok aldarinnar (1998) að skógarmítill fannst hér á ný ef ógetið er óstaðfestra sögusagna og lýsinga á fyrirbærum sem átt gætu við um hann. Upp frá þessu fór tilfellum fjölgandi og nýir fundarstaðir komu fram í öllum landshlutum. Langflest tilvikin voru þó frá suðvesturhorninu. Í einhverjum tilvikum mátti rekja fundina til heimkomu fólks frá útlöndum en í öðrum ekki. Skógarmítlar tóku að finnast á fólki og hundum eftir útivist í íslenskri náttúru.
Skógarmítill er að öllum líkindum orðinn landlægur. Það þarf ekki að koma á óvart því útbreiðsla hans er að færast norðar með hlýnandi loftslagi. Í Færeyjum fannst skógarmítill fyrst í maí 2000 en um var að ræða ungviði á steindepli. Tilfellum hefur fjölgað í Færeyjum síðan. Það er athyglisvert að í maí 2009 fundust mörg ungviði skógarmítils einnig á steindepli sem fannst nýdauður í Reykjavík. Yngsta ungviðið líkist fullorðnum dýrum í sköpulagi en hefur aðeins þrjú pör fóta í stað fjögurra. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, til dæmis bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi. Á vef Landlæknisembættisins eru nánari upplýsingar um Borrelia burgdorferi eða Lyme-sjúkdóminn. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvaða dýr leynast í rúmum og teppum landsmanna? eftir Karl Skírnisson
- Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar? eftir Erling Ólafsson
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? eftir Karl Skírnisson
- Hvernig varð höfuðlúsin til? eftir Jón Má Halldórsson
- Jaenson, T.G.T. & J.-K. Jensen 2007. Records of ticks (Acari, Ixodidae) from the Faroe Islands. Norw. J. Entomol. 54: 11–15.
- Jaenson, T.G.T., L. Tälleklint, L. Lundqvist, B. Olsén, J. Chirico & H. Mejlon 1994. Geographical distribution, host associations and vector roles of ticks (Acari: Ixodidae & Argasidae) in Sweden. J. Med. Entomol. 31: 204–256.
- Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963-1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.
- Piesman, J. & L. Gern 2004. Lyme borreliosis in Europe and North America. Parasitology 129: 191–220.
- Tälleklint, L. & T.G.T. Jaenson 1998. Increasing geographical distribution and density of Ixodes ricinus (Acari: Ixodidae) in central and northern Sweden. J. Med. entomol. 35:521–526.
- Skógarmítill stór © Erling Ólafsson. Sótt 29.6.2010.
- Skógarmítill lítill © Erling Ólafsson. Sótt 29.6.2010.
Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Svarið er birt hér í örlítið breyttri mynd. Upprunalegi textinn er hér og lesendur eru hvattir til að kynna sér hann og afla sér frekari fróðleiks um pöddur.