Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar?

Erling Ólafsson

Veggjalús (Cimex lectularius) er talin upprunnin í Asíu og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Á Íslandi hefur hún fundist í byggð í öllum landshlutum. Margir fundarstaðir eru skráðir í gömlum heilbrigðisskýrslum, ekki síst á Vestfjörðum, en skráðir fundarstaðir á seinni tímum eru dreifðir og strjálir.

Hér á landi lifir veggjalús eingöngu í upphituðu þurru húsnæði. Hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum sem oftar en ekki eru mannfólkið. Þegar hungur sverfur að skríða lýsnar fram úr fylgsnum sínum sem oftast eru í námunda við svefnstaði, í sprungum og glufum í tréverki, niður með rúmdýnum, í fellingum með saumum, undir gólflistum, í rafmagnsdósum, á bak við myndir og annað sem hangir á veggjum, laust veggfóður eða glufóttan panel; í stuttu máli hvarvetna þar sem felustaði er að finna.

Veggjalús skynjar ekki fjarlægðir í leit að fórnarlambi en hún er sögð merkja varmaútgeislun frá um 10 cm fjarlægð. Hún getur gengið upp eftir veggjum en á erfitt með að feta sig út eftir loftum.

Veggjalús getur dregið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði á 10 mínútum.

Veggjalúsin sýgur kröftuglega en á 10 mínútum getur hún dregið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði. Hungruð er hún flatvaxin en þenst út eftir að hafa sogið blóð. Södd kemur hún sér í skjól, leggst á meltu, makast og verpir eggjum þangað til hún verður hungruð á ný. Hún verpir á felustöðum sínum og límir eggin við undirlagið. Hvert kvendýr verpir allt að 5 eggjum á dag, alls á bilinu 200–500 á æviskeiðinu sem varir í 9–18 mánuði. Við hita undir 10°C verpir lúsin ekki. Eggin klekjast á um 10 dögum.

Ungviðið sem líkist fullorðnu dýrunum hefur hamskipti fimm sinnum á uppvextinum og hver hamskipti kalla á blóðskammt. Við bestu skilyrði (28°C) tekur þroskaferlið 4–5 vikur en getur tekið allt að ár við lakari aðstæður. Flestir fá kláða og óþægindi af bitunum en mikill minnihluti fólks sýnir ekki viðbrögð. Veggjalýs hafa verið taldar saklausar af því að bera sýkla á milli fórnarlamba en þó hafa fundist vísbendingar um að þær geti flutt veiruna sem veldur lifrarbólgu B á milli manna.

Veggjalús er hitakræf og kýs sér þurra staði. Þess vegna náði hún ekki að setjast að á kaldari slóðum fyrr en þar var boðið upp á upphituð og þurrari húsakynni. Í Danmörku birtist hún á 17. öld og varð strax mjög algeng. Húsakynni hér á landi hafa sennilega ekki orðið henni boðleg fyrr en mun síðar, en talið er að hún hafi sest hér að á seinnihluta 19. aldar. Fyrir miðja 20. öld var veggjalús sögð algeng en lítið sem ekkert varð vart við hana á seinni hluta aldarinnar.

Undir aldamótin síðustu tók veggjalús að fjölga á ný og hefur aftur orðið til óþurftar þrátt fyrir þær ströngu kröfur sem fólk nú gerir til íbúðarhúsnæðis. Fjölgun tilfella á seinni árum helst í hendur með fjölgun lúsanna í nágrannalöndum okkar, auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda og mikilli fjölgun erlends vinnuafls á hagvaxtarskeiðinu á upphafsárum 21. aldar. Allmörg tilfelli hafa nefnilega litið dagsins ljós í húsnæði þar sem innflytjendur frá Austur-Evrópulöndum hafa haft aðsetur. Veggjalýs hafa einnig náð að koma sér fyrir á hótelum og gistihúsum víða um land en slíkri starfsemi er einkar hætt við sýkingum.

Veggjalús er hvimleiður bólfélagi en hún athafnar sig einkum að nóttu til þegar fórnarlömb liggja fyrir og ugga ekki að sér. Menn verða ekki varir við stungurnar því deyfing er innifalin. Að morgni gerir kláði vart við sig og stundum má greina blóðpunkta á rúmfötum eftir veisluhöld næturinnar. Það getur verið flókið að ráða niðurlögum veggjalúsa. Nauðsynlegt er að kunnáttumaður meti aðstæður vandlega og gangi skipulega til verks með þeim ráðum sem eru í boði og þykja henta á hverjum stað.

Heimildir:
  • Folkehelseinstituttet 2009. Veggedyr. http://www.fhi.no/artikler/?id=59118 [skoðað 7.8.2009]
  • Fristrup, B. 1945. Hemiptera 1. Heteroptera and Homoptera Auchenorhyncha. Zoology of Iceland III, Part 51. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 21 bls.
  • Geir Gígja 1940. Veggjalýsnar. Náttúrufræðingurinn 10: 44–48.
  • Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.
  • Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.
  • Preston-Mafham, R. & K. Preston-Mafham 2005. Encyclopedia of insects and spiders. Grange Books, Hoo. 288 bls.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Upprunalegi textinn er hér og lesendur eru hvattir til að kynna sér hann og afla sér frekari fróðleiks um pöddur.

Höfundur

Erling Ólafsson

skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun

Útgáfudagur

18.8.2009

Síðast uppfært

11.10.2023

Spyrjandi

Rannveig Guðmundsdóttir

Tilvísun

Erling Ólafsson. „Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar?“ Vísindavefurinn, 18. ágúst 2009, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=18631.

Erling Ólafsson. (2009, 18. ágúst). Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=18631

Erling Ólafsson. „Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar?“ Vísindavefurinn. 18. ágú. 2009. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=18631>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar finnst veggjalús aðallega á Íslandi og hverjar eru kjöraðstæður hennar?
Veggjalús (Cimex lectularius) er talin upprunnin í Asíu og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Á Íslandi hefur hún fundist í byggð í öllum landshlutum. Margir fundarstaðir eru skráðir í gömlum heilbrigðisskýrslum, ekki síst á Vestfjörðum, en skráðir fundarstaðir á seinni tímum eru dreifðir og strjálir.

Hér á landi lifir veggjalús eingöngu í upphituðu þurru húsnæði. Hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum sem oftar en ekki eru mannfólkið. Þegar hungur sverfur að skríða lýsnar fram úr fylgsnum sínum sem oftast eru í námunda við svefnstaði, í sprungum og glufum í tréverki, niður með rúmdýnum, í fellingum með saumum, undir gólflistum, í rafmagnsdósum, á bak við myndir og annað sem hangir á veggjum, laust veggfóður eða glufóttan panel; í stuttu máli hvarvetna þar sem felustaði er að finna.

Veggjalús skynjar ekki fjarlægðir í leit að fórnarlambi en hún er sögð merkja varmaútgeislun frá um 10 cm fjarlægð. Hún getur gengið upp eftir veggjum en á erfitt með að feta sig út eftir loftum.

Veggjalús getur dregið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði á 10 mínútum.

Veggjalúsin sýgur kröftuglega en á 10 mínútum getur hún dregið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði. Hungruð er hún flatvaxin en þenst út eftir að hafa sogið blóð. Södd kemur hún sér í skjól, leggst á meltu, makast og verpir eggjum þangað til hún verður hungruð á ný. Hún verpir á felustöðum sínum og límir eggin við undirlagið. Hvert kvendýr verpir allt að 5 eggjum á dag, alls á bilinu 200–500 á æviskeiðinu sem varir í 9–18 mánuði. Við hita undir 10°C verpir lúsin ekki. Eggin klekjast á um 10 dögum.

Ungviðið sem líkist fullorðnu dýrunum hefur hamskipti fimm sinnum á uppvextinum og hver hamskipti kalla á blóðskammt. Við bestu skilyrði (28°C) tekur þroskaferlið 4–5 vikur en getur tekið allt að ár við lakari aðstæður. Flestir fá kláða og óþægindi af bitunum en mikill minnihluti fólks sýnir ekki viðbrögð. Veggjalýs hafa verið taldar saklausar af því að bera sýkla á milli fórnarlamba en þó hafa fundist vísbendingar um að þær geti flutt veiruna sem veldur lifrarbólgu B á milli manna.

Veggjalús er hitakræf og kýs sér þurra staði. Þess vegna náði hún ekki að setjast að á kaldari slóðum fyrr en þar var boðið upp á upphituð og þurrari húsakynni. Í Danmörku birtist hún á 17. öld og varð strax mjög algeng. Húsakynni hér á landi hafa sennilega ekki orðið henni boðleg fyrr en mun síðar, en talið er að hún hafi sest hér að á seinnihluta 19. aldar. Fyrir miðja 20. öld var veggjalús sögð algeng en lítið sem ekkert varð vart við hana á seinni hluta aldarinnar.

Undir aldamótin síðustu tók veggjalús að fjölga á ný og hefur aftur orðið til óþurftar þrátt fyrir þær ströngu kröfur sem fólk nú gerir til íbúðarhúsnæðis. Fjölgun tilfella á seinni árum helst í hendur með fjölgun lúsanna í nágrannalöndum okkar, auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda og mikilli fjölgun erlends vinnuafls á hagvaxtarskeiðinu á upphafsárum 21. aldar. Allmörg tilfelli hafa nefnilega litið dagsins ljós í húsnæði þar sem innflytjendur frá Austur-Evrópulöndum hafa haft aðsetur. Veggjalýs hafa einnig náð að koma sér fyrir á hótelum og gistihúsum víða um land en slíkri starfsemi er einkar hætt við sýkingum.

Veggjalús er hvimleiður bólfélagi en hún athafnar sig einkum að nóttu til þegar fórnarlömb liggja fyrir og ugga ekki að sér. Menn verða ekki varir við stungurnar því deyfing er innifalin. Að morgni gerir kláði vart við sig og stundum má greina blóðpunkta á rúmfötum eftir veisluhöld næturinnar. Það getur verið flókið að ráða niðurlögum veggjalúsa. Nauðsynlegt er að kunnáttumaður meti aðstæður vandlega og gangi skipulega til verks með þeim ráðum sem eru í boði og þykja henta á hverjum stað.

Heimildir:
  • Folkehelseinstituttet 2009. Veggedyr. http://www.fhi.no/artikler/?id=59118 [skoðað 7.8.2009]
  • Fristrup, B. 1945. Hemiptera 1. Heteroptera and Homoptera Auchenorhyncha. Zoology of Iceland III, Part 51. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 21 bls.
  • Geir Gígja 1940. Veggjalýsnar. Náttúrufræðingurinn 10: 44–48.
  • Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.
  • Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.
  • Preston-Mafham, R. & K. Preston-Mafham 2005. Encyclopedia of insects and spiders. Grange Books, Hoo. 288 bls.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Upprunalegi textinn er hér og lesendur eru hvattir til að kynna sér hann og afla sér frekari fróðleiks um pöddur....