Hér kemur til svokölluð gikkverkun skjálfta. Þegar stór skjálfti verður, breytir hann spennunni á nærliggjandi svæðum. Ef spennan á viðkomandi svæði er nálægt brotmörkum jarðskorpunnar getur breytingin orðið nægileg til að spennan fer yfir mörkin og nýr skjálfti verður. Eitt besta dæmið sem nú er þekkt í skjálftafræðinni er einmitt frá Suðurlandi. Stóri skjálftinn sem varð 17. júní 2000 átti upptök í ofanverðum Holtum en hann hratt af stað fjölda skjálfta á flekaskilunum allt vestur á Reykjanesskaga. Um þetta má lesa í grein eftir Þóru Árnadóttur og fleiri (2004). Þessir skjálftar áttu upptök á öðrum sprungum en upphafsskjálftinn og eru því ekki eiginlegir eftirskjálftar. Því eru greinilega nokkur takmörk sett hversu langt gikkverkunin getur haft áhrif. Það verður að teljast nokkuð ólíklegt að skjálftar á tilteknum flekaskilum hleypi af stað skjálftum á skilum annarra fleka. Þó skjálftavirkni heimsins fari ekki vaxandi þá vex jafnt og þétt það tjón sem skjálftar valda. Þetta stafar af sívaxandi mannfjölda í heiminum. Sífellt fleira fólk býr á svæðum þar sem skjálftar eiga upptök og meiri verðmæti eru þar til að eyðileggja. Því er alveg ljóst að tjón vegna skjálfta mun fara vaxandi á komandi árum og áratugum. Stórborgir hafa víða risið í nágrenni skjálftavirkra misgengja síðan síðast urðu þar stórir skjálftar. Hörmungarnar á Haítí í byrjun þessa árs eru dæmi um afleiðingar af slíku. Því miður verðum við að reikna með að tíðni slíkra áfalla muni aukast. Til að sporna við þessari þróun hafa aðallega verið nefndar þrjár aðferðir:
- Setja strangari byggingarstaðla og fylgja þeim eftir af meiri festu en víða tíðkast.
- Efla rannsóknir á styrk bygginga og styrkja þær sem eru of veikbyggðar.
- Efla rannsóknir á eðli skjálfta með það að markmiði að segja fyrir um þá og gefa út viðvaranir.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað veldur jarðskjálftum? eftir Steinunni S. Jakobsdóttur
- Eru til beinar eða óbeinar aðferðir til að mæla eða meta spennu sem hleðst upp í jarðlögum á undan jarðskjálftum? eftir Sigurð Steinþórsson og Pál Einarsson
- Hvenær kemur Suðurlandsskjálftinn? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvar varð öflugasti jarðskjálfti sem mælst hefur á jörðinni? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Árnadóttir, Þóra, H. Geirsson, P. Einarsson. Coseismic stress changes and crustal deformation on the Reykjanes Peninsula due to triggered earthquakes on June 17, 2000. J. Geophys. Res., 109, B09307, doi:10.1029/2004JB003130, 2004.
- Súlurit: Unnið upp úr tölum frá U.S. Geological Survey - Earthquake Hazards Program.
- Mynd frá San Francisco: 1906 San Francisco earthquake á Wikipedia.
Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár? Eru einhverjar kenningar um tengsl milli skjálftabelta? Hver er staðan í San Fransisco varðandi uppsafnaða spennu?Höfundur svarsins tekur fram að hér er um þrjár aðskildar spurningar að ræða en svör við þeim skarast nokkuð svo hann kýs að svara þeim með einum pistli.