Stærsti hluti ósonmyndunar jarðarinnar á sér stað í heiðhvolfinu á svæðum nálægt miðbaug. Óson er mikilvægt þar sem það gefur 90% vörn gegn UVB-geislun sólar (280 320 nm) sem er skaðleg lífverum. Gammablossi líkur þeim sem nefndur var hér að framan gæti valdið að meðaltali um 40% ósoneyðingu. Mikil útblá geislun í skamman tíma í einu sem orsakar bruna eykur hættu á sortuæxli. Ef það er ekki fjarlægt nógu snemma og nær að vaxa dýpra í húðina þá er mun meiri hætta á að það dreifi sér í önnur líffæri og valdi lífshættulegum veikindum og jafnvel dauða. UVB-geislun skaðar að auki erfðaefni (DNA) sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir plöntusvif sem er grunnur fæðukeðju sjávarins ásamt því að sjá um stóran hluta súrefnisframleiðslu jarðarinnar. Talið er að það tæki ósonlagið um 10-12 ár að ná fyrri styrk ef strókur meðalgammablossa beindist að jörðinni. Hitastigið á jörðinni myndi einnig lækka. Þar sem niturmónoxíð safnast upp myndast brúnleitt niturtvíoxíð: NO + O → NO2. Niturtvíoxíð gleypir í sig sýnilegt ljós og því veldur aukið magn þess kólnun jarðarinnar. Það hvarfast einnig við hýdroxíð (OH-) og myndar saltpéturssýru (HNO3) sem er mjög ætandi. Hún fellur út í súru regni sem getur verið skaðlegt lífríkinu en getur þó fljótt virkað sem áburður. Talið er líklegt að fjöldi gammablossastróka sem beinast að jörðu sé um einn á hverjum 10-100 milljónum árum í Vetrarbrautinni. Einn stærsti fjöldaútdauði jarðsögunnar varð seint á Ordóvisíumtímabilinu fyrir um 440-450 milljónum ára. Á þessum tíma kólnaði nokkuð og útblá geislun varð meiri en áður. Þær lífverur sem lifðu af virðast hafa komið úr hafinu og frá öðrum svæðum þar sem skaðinn varð minni. Aukning landgróðurs bendir einnig til frjósamari jarðvegs sem rekja mætti til útfellingar saltpéturssýru. Ýmislegt bendir því til þess að gammablossi gæti hafa valdið fjöldaútdauða í jarðsögunni þó aðrar ástæður gætu einnig legið að baki. Að lokum er þó rétt að benda á að í vetrarbrautum þarf þungefnamagn að vera frekar lítið til að blossi geti kviknað þar. Þungefnamagn Vetrarbrautarinnar er tiltölulega mikið sem gæti komið í veg fyrir að blossar kvikni þar yfirleitt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær uppgötvuðu menn gammablossa? eftir Gunnlaug Björnsson, Pál Jakobsson og Birgi Urbancic Ásgeirsson
- Hvað eru gammablossar og hvernig myndast þeir? eftir Gunnlaug Björnsson
- Postdoc Opening. Sótt 26.3.2010.